27.07.1931
Neðri deild: 13. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í B-deild Alþingistíðinda. (49)

1. mál, fjárlög 1932

Jón Ólafsson:

Ásamt hv. samþm. mínum hefi ég borið fram 3 brtt. á. þskj. 118. En það hefir orðið að samkomulagi að draga til baka 2 þeirra, lið IV. og XXIV., og er það þá aðeins ein, sem við leggjum undir dóm hv. þdm., og þar sem hér er um að ræða hið mesta nauðsynjamál, sandgræðsluna, þá vonum við að hv. þdm. taki til athugunar og sjái, hvílíka nauðsyn hér er um að ræða. Þessi starfsemi er ein af hinum stóru og góðu framkvæmdum, sem seinni tíminn hefir byrjað á til að koma landinu í það horf, sem áður var.

Nú eru hér á landi 25 sandgræðslustöðvar, sem kostaðar eru af ríkinu. En það er þörf á miklu fleiri stöðvum. Við, sem komnir erum töluvert til aldurs, vitum það, að ef þessu hefði fyrr verið gefnar gætur, og áður hefði verið byrjað á þessum framkvæmdum, þá hefðum við sloppið við fjárútlát, að miklum mun, en sem ekki dugar nú um að sakast. Eins og nú er komið landskemmdum af uppblæstri, er fjárframlag það, sem hér er farið fram á, smámunir á móts við þörfina. Það var byrjað á sandgræðslunni þar sem þegar var blásið, en það er nauðsynlegt að græða upp landið á byrjunarstigi, og fyrirbyggja þar með stórar landskemmdir, en til þess er þing og stj. allt of aðgætin með fjárframlög. Nú hefir stj. og hv. fjvn. verið því samþykk, að þessi styrkur yrði færður úr 40 þús. kr. niður í 25 þús. kr., 1000 kr. á hverja sandgræðslustöð. Það hlýtur öllum, sem vit hafa á og um þetta hafa hugsað, að vera ljóst, að þetta er allt of lítill styrkur, ef nokkurt gagn á að vera að. Ég vona það, að þegar menn hafa litið á þetta þessum augum, láti þeir sig ekki um muna, þótt þeir annars vilji spara, að hækka þenna styrk, sem nauðsynlegt er að sé svona hár, þar sem um er að ræða að bjarga því, sem annars liggur undir eyðileggingu. Hversu illa sem ástatt er um fjárhaginn, þá má það ekki gleymast, að ekki má spara á þann hátt, að stórtjón verði af. Af því að ég veit, að margir af hv. þdm. eiga við eitthvað slíkt að búa, þá vona ég, að þeir líti á þetta sömu augum og ég, að ekki megi draga úr þessum styrk, enda held ég, að óhætt sé að segja það, að þar sem starf eins og þetta krefst starfsmanna, þá sé það tap að kosta starfsmenn og láta þá ekkert hafa að gera. — Þá hefi ég flutt hér eina brtt. á sama þskj., um að hækkað sé tillag til heimilisiðnaðarfélagsins upp í halla þann, sem félagið varð fyrir á iðnaðarlandssýningunni 1930. Þetta félag réðist í það stórvirki að halda landssýningu á heimilisiðnaði. Og það var svo sem fyrirfram vitað, að kostnaðurinn myndi verða mikill, enda reyndist svo, að einmitt kostnaðurinn varð fyllilega eins mikill og gert hafði verið ráð fyrir, en tekjurnar aftur á móti rýrari en búizt hafði verið við. En ég held, að konur, er gengust fyrir slíku sem þessu, eigi ekki skilið að verða fyrir halla af þessum ástæðum fyrir þann áhuga, sem þær hafa sýnt. Menn eiga yfirleitt ekki kost á að kynnast því, hvað mikill hagleikur býr í landinu, nema með því að halda sýningar. Bæði útlendir og innlendir menn, sem sýninguna skoðuðu, dáðust mjög að þeim hagleik, sem þar kom fram. Þess vegna megum við ekki játa þá, sem þennan áhuga sýndu og komu þessu af stað, greiða hallann, þar sem við höfum haft bæði gagn og heiður af þessari sýningu. Eftir því sem mér er kunnugt, þá er rekstrarhallinn 5 þús. kr.; þar af hefir fjvn. tekið upp í hallann 2 þús. kr. En það mun vera í eignum eitthvað ofurlítið, sem búizt er við að seljist, en það kemur aldrei til að verða nægilegt til þess að greiða það, sem á vantar, þó að félagið fái 3500 kr. Þess vegna hefi ég lagt til, að þessi styrkur yrði hækkaður úr 2 þús. upp í 3500 kr. og til vara 3000 kr. Ég held, að við megum ekki við því, með því að lítilsvirða slíkan áhuga, sem hér hefir komið fram, að bæla niður og draga úr þeim kjarki, sem þeir, sem að þessari sýningu stóðu, hafa sýnt, með því að daufheyrast við þessari sjálfsögðu og réttmætu kröfu.