12.08.1931
Neðri deild: 27. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 716 í B-deild Alþingistíðinda. (492)

7. mál, búfjárrækt

Steingrímur Steinþórsson [óyfirl.]:

Ég get ekki látið hjá líða að minnast örlítið á ræðu hv. þm. N.-Ísf.

Það, að þessu máli þarf ekki að visa til n., réttlætist af því, að það hefir fengið hér rækilegan undirbúning á þinginu í vetur, þar sem það var komið í gegnum þessa hv. deild eftir að hafa verið í landbúnaðarnefnd.

Mér virtist mikið af útreikningum hv. þm. N.-Ísf. um aukinn kostnað vera byggt á misskilningi. Hv. þm. virðist ekki vita, að Búnaðarfél. Íslands ber nú kostnað þann, sem ræðir um í þessum lögum.

Hv. þm. áleit, að kostnaðurinn vegna nautgriparæktarfélaganna myndi verða um 30 þús. kr. á ári. Nú eru starfandi um 50 nautgriparæktarfél. hér á landi og njóta þau styrks eftir sömu reglu sem hér er farið fram á, eða kr. 1.50–2.00 á hverja árskú, sem er í félaginu. Þegar þetta frv. er orðið að lögum, lækka framlög úr ríkissjóði til Búnaðarfél. Íslands að sama skapi. Útgjöldin aukast því ekki nema nautgriparæktarfél. fjölgi, en ef rétt er að styrkja þau félög, sem nú eru, er einnig rétt að styrkja þau félög, sem stofnuð verða í framtíðinni. En þá er sama, hvort styrkurinn kemur frá Búnaðarfél. Íslands eða beint úr ríkissjóði.

Sama er um sýningarstarfsemina að segja. Hún er nú styrkt af Búnaðarfélagi Íslands eftir þeim reglum, sem gert er ráð fyrir hér í þessu frv. Sama er um girðingarkostnaðinn og annað slíkt að segja. Þetta eru ákvæði, sem tekin eru upp úr eldri lögum að mestu, en er nú steypt saman í eina heildarlöggjöf.

Ég get verið hv. þm. sammála um það, að stefna beri að því að fækka hrossunum. En ég get ekki verið hv. þm. sammála um, að ekki þurfi að efla hrossaræktina fyrir því. Því jafnvel þótt notkun hrossa til vinnu minnki að miklum mun, eru kynbætur hrossa nauðsynlegar engu að síður, svo þau verði betri til starfsemi. Þessi lög eiga ekki að ýta undir hrossafjölgun, og ráðunautarnir munu heldur ekki stuðla að því. Markmiðið er að fækka hrossunum, en bæta þau. Styrkurinn, sem veita á samkv. frv. þessu til hrossaræktar, er hinn sami sem Búnaðarfél. Íslands greiðir nú.

Þá hefir einnig verið veittur styrkur til að kaupa kynbótahesta, sýningar haldnar og verðlaun veitt. Þó er hér einn liður, sem ekki hefir verið áður í lögum, og er það kaflinn um fóðurbirgðafélög, og er augljóst, að ef sú starfsemi breiðist út, verður um aukin útgjöld að ræða.

Þá eru afkvæmasýningarnar. Hv. þm. N.-Ísf. sagði, að þær stuðluðu að því, að hrossum fjölgaði, því að hann áleit, að hægt væri að fá 100 kr. verðlaun fyrir lélegt tryppi. Þetta er misskilningur hjá hv. þm. Afkvæmasýningarnar eru vegna stóðhestanna, og það eru stóðhestarnir, sem fá verðlaunin. Það er því ekki hvert tryppi, sem fær verðlaunin, heldur er það aðeins viðurkenning til stóðhestsins fyrir það, að hann hafi verið hrossaræktinni til hagsbóta. Hv. þm. verður líka að athuga, að Búnaðarfélag Íslands hefir hingað til styrkt þessa starfsemi, og vitanlega lækkaði styrkurinn til þess um það, er þessum lið nemur. Það hefir verið athugað, hversu aukinn kostnað fyrir ríkissjóð það myndi hafa í för með sér, ef þetta frv. yrði að lögum, og niðurstaðan er sú, að hann fari ekki yfir 20 þús. kr. á ári. Vitanlega getur hann þó aukizt, ef félögum fjölgar.

Það er ekki vafi, að ýmislegt í þessu frv. er til stórbóta. Má þar fyrst nefna það, að gert er ráð fyrir, að eftirlitsfélög rísi upp í hverjum hreppi og hafi það verkefni að bæta kúakynið. Hefir það sýnt sig þar sem slík félög hafa starfað, að þau hafa borið góðan árangur, jafnvel betri árangur en önnur búfjárræktarfélög.

Þá hafa fóðurbirgðafélög verið styrkt undanfarið. Mér skildist á hv. þm. N.-Ísf., að kostnaður ríkissjóðs af þeim myndi verða 65–70 þús. kr. á ári. Þetta er líklega rétt hjá hv. þm., ef stofnað yrði fóðurbirgðafélag í hverjum hreppi, en nú eru þau aðeins í 7–8 hreppum. En líklegt er, að innan skamms muni verða mikil hreyfing í þessu efni, því með slíkum félagsskap er fengin aukin trygging gegn fóðurskorti. Það, sem hingað til hefir staðið þessum félögum fyrir þrifum, er það, að tillögin fyrir einstaka gripi hafa verið nokkuð há og hafa menn því skirrzt við að ganga í slíkan félagsskap. Nú er lagt til, að þessi tillög lækki frá því, er áður var, og mun það verða til þess, að þessi félagsskapur breiðist út á næstu árum. Og ég mundi telja það lögunum mjög til ágætis, ef þau yrðu til þess, að slíkur félagsskapur myndaðist í sem flestum sveitum landsins. Þó býst ég við, að sá spádómur hv. þm. N.-Ísf., að kostnaður ríkissjóðs af þessum félagsskap verði um 65 þús. kr. á ári, eigi nokkuð langt í land með að rætast.

Í mínu kjördæmi er mikil hreyfing í þessa átt. Þar var á síðastl. vetri stofnað búnaðarsamband til þess að athuga og koma skipulagi á stofnun fóðurbirgðafélaga í sýslunni. Varð þá ljóst, að ekki gæti orðið úr stofnun slíks félags nema tillög einstaklinga til félagsins væru lækkuð að mun, og var fulltrúum sýslunnar falið að styðja að því, að þau væru lækkuð.

Ég er ekki í vafa um, að fóðurbirgðafélögin auka mikið öryggi landbúnaðarins, og er ég viss um, að fyrst um sinn verður kostnaðarauki þess vegna ekki nema um 20 þús. kr. Eflist þessi félagsskapur í framtíðinni, eykst kostnaðurinn að sama skapi. En ef við viðurkennum, að þessi félagsskapur sé landbúnaðinum til þrifa, eigum við að stuðla að því, að hann megi aukast og eflast.

Við l. umr. þessa máls greiddi ég atkv. móti því, að þessu frv. væri vísað til n. Ég hefi kynnt mér þetta frv., svo að ég greiddi hiklaust atkv. móti því, að því yrði vísað til n., enda þótt ég sé nýgræðingur í þessari hv. d.

Ég gat ekki látið hjá líða að gera þessa aths. af því mér skildist hv. þm. N.-Ísf. ekki skýra rétt frá.