12.08.1931
Neðri deild: 27. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 719 í B-deild Alþingistíðinda. (493)

7. mál, búfjárrækt

Jón Auðunn Jónsson [óyfirl.]:

Hv. 1. þm. Skagf. segir, að Búnaðarfélag Íslands hafi styrkt að nokkru leyti þá starfsemi, sem hér um ræðir. En það er dálítill munur á, hvort lög mæla svo fyrir, að ríkissjóður skuli styrkja þessa starfsemi, hvernig sem árar, eða Búnaðarfélag Íslands styrkir hana.

Hv. þm. vildi halda því fram, að hér væri aðeins um 20 þús. kr. hækkun á framlagi frá ríkissjóði að ræða. En ég hefi hent á, að hrossaræktarliðurinn einn eykur útgjöld ríkissjóðs um meira en 20 þús. kr. Og það er einmitt þessi liður, sem ég vil fella niður, því að ég álit, að það sé mönnum nægileg hvöt til þess að bæta hrossakynið, að þeir fái þá verðmeiri gripi. Og ef á að fara að kaupa menn til þess að vinna sér til hagsbóta, getur það hvatt menn til umbóta í fleiri atvinnugreinum en landbúnaði, t. d. sjávarútvegi.

Hv. þm. mótmælti því ekki, að fóðurbirgðafélögin væru að mestu leyti nýtt atriði í þessu máli. Og hv. þm. viðurkenndi einnig, að þegar þessi félög væru komin á verulegan rekspöl, myndi það kosta ríkissjóðinn um 60–70 þús. kr. á ári.

Ef það er borið saman, hvað ýmsir atvinnurekendur þurfa að borga til þess að tryggja eign sína, kemur það í ljós, að bændur borga mjög lítið í samanburði við það, sem útgerðarmenn verða að greiða fyrir tryggingar á skipum sínum, því þeir verða að borga 7–8% af virðingarverði skipanna, en þótt bændur greiði 15–20 kr. á ári til þess að tryggja bústofn sinn, er það miklu minni hundraðshluti.

Ég álít, að Búnaðarfélag Íslands eigi að styrkja nautgriparækt og sauðfjárrækt á þann hátt, sem verið hefir hingað til, en styrkurinn sé ekki greiddur beint úr ríkissjóði. Ég hygg, að hugsunarháttur bænda sé nú orðinn svo breyttur, að þeir setji svo vel á, að þeir hafi nægar fóðurbirgðir í flestum árum. Þetta hefir orðið vegna þess að menn hafa lært að skilja, að fóðurskortur bakar manni ekki einungis tjón þetta ákveðna ár, heldur er það atvinnuhnekkir í mörg ár. (LH: Það hefir alltaf verið svo). Já, en menn eru fyrst nú vaknaðir í þessu efni. Ég vænti, að hv. þm. V.-Sk. geti ekki neitað því, að það sé betra nú en var fyrir 20 árum. (LH: Það er stórhætta ennþá á ferðum). Ef það er stórhætta á ferðum, sýnir það, að það ástand, sem nú er, dugir ekki og það verður að grípa til þeirra ráða að refsa mönnum, ef þeir lenda í fóðurskorti vegna gáleysis eða kæruleysis. En hér á að fara þá leið að kaupa menn fyrir 60–70 þús. kr. til að sjá skepnum sínum farborða, og hygg ég, að sú aðferð dugi illa. Ég held, að þetta verði til þess, að menn fari að kasta öllum áhyggjum sínum upp á ríkissjóðinn. En hver á þá að borga?

Maður, sem á vélbát, sem kostar 20 þús. kr., verður að greiða um 1500 kr. í tryggingargjöld á ári vegna bátsins. Þykir það gott, ef báturinn getur framfleytt einni fjölskyldu. En hvað myndi þá bændur, sem hafa 5–8 þús. kr. viðskiptaveltu á ári, muna um að greiða 50–100 kr. fyrir það að ganga í fóðurbirgðafélag?

Ég hygg, að reynslan verði bezta ráðið til þess að sýna mönnum, hvernig þeir eiga að bjarga sér, en það, að ætla að borga mönnum til þess, sé ekki rétta leiðin. Það getur hugsazt, að mönnum finnist það skömm að verða fóðurlausir, og ég veit, að þar, sem ég þekki til, er litið á þá, sem verða fóðurlausir án sérstakra atvika, sem nokkurskonar skussa. Og slíkt almenningsálit mundi bjarga mönnum bezt frá því að setja ógætilega á og lenda í fóðurskorti, en ekki ráðstafanir ríkisvaldsins.