27.07.1931
Neðri deild: 13. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í B-deild Alþingistíðinda. (51)

1. mál, fjárlög 1932

Bergur Jónsson:

Ég á ekki sjálfur nema eina brtt. við fjárlögin, en ég er meðflm. að 2 öðrum, ásamt hv. þm. Mýr. og hv. 2. þm. Reykv., og hefir aðalflm. gert grein fyrir þeirri till., að Skáksambandi Íslands verði veittur 2 þús. kr. styrkur. Ég hefi því ekki ástæðu til að fara lengra út í það. Eins og kunnugt er, flytur samgmn. brtt. um að lækka styrk til flóabáta úr 50 þús. upp í 89 þús. Frsm. n., hv. þm. N.-Ísf., hefir gert grein fyrir þessari till., svo að ég þarf ekki að gera það almennt, en ég vildi geta þess, að þarna er um að ræða 2 þús. kr. lækkun frá því, sem veitt var á yfirstandandi ári. Ég vildi gera nánari grein fyrir því, að til eins bátafélagsins, sem styrkur er ætlaður til, h/f Breiðafjarðarbátsins Norðra, hefir n. lagt til, að styrkurinn yrði hækkaður um 1000 kr. og frsm. n. gerði grein fyrir þeirri hækkun að nokkru leyti. Hann benti á, að þarna norðanvert Breiðafjarðar stendur nokkuð sérstaklega á, m. a. er ekki hægt að bæta úr samgönguleysinu með vegagerðum, og stendur að því leyti eins á og við Ísafjarðardjúp. Landið er ákaflega vogskorið og fjöllótt og því sérstaklega illt yfirferðar á landi. Ýmsar aðrar ástæður eru til að styrkja þennan bát frekar en aðra, t. d. eru héruðin, sem að bátnum standa, mjög fámenn og fátæk og sýslufélagið eitthvert hið minnsta á landinu, um 900 íbúar, og mjög magnlítið fjárhagslega og hefir beðið mikinn hnekki af því, að Flateyjarhreppur, stærsti og fjölmennasti hreppurinn, stendur mjög illa fjárhagslega síðan aðalatvinnurekandinn þar varð gjaldþrota. Samt hafa þessir fátæku hreppar með frjálsum framlögum ráðizt í að kaupa dýran vélbát, sem tvisvar sinnum hefir orðið að kaupa nýja vél í, og náð saman um 40 þús. kr. í bátinn, sem er tiltölulega mjög mikið, þegar miðað er við gjaldþol fólksins þar um slóðir. Það má í raun og veru segja, að hér sé um hreint Grettistak að ræða af svo fámennu héraði. Auk þess er rétt að geta þess, að ekki er hægt að bæta úr samgönguleysinu þarna með strandferðaskipunum eins og víðast annarsstaðar, þar sem flóabátar eru. Svæðið, sem bátnum er ætlað að fara um, hefir aldrei verið mælt upp, og þar að auki er það illa lagað, strjált á milli bæja og svo vogskorið, að ég býst ekki við, að talið verði ráðlegt að senda þangað hafskip. En fjárhagur félagsins er svo erfiður, að ég efast um, að þessi litla hækkun, sem vonandi fæst, verði nægileg til þess að félagið komist af.

Fjvn. leggur til, að veittar verði 70 þús. kr. til nýrra símalagninga. Frsm. n. gat þess í framsöguræðu sinni, að í nál. fjvn. 1930 voru taldar upp nokkrar símalínur, sem samkv. till. landssímastjóra skyldu ganga fyrir öðrum. M. a. eru þar 2 línur úr Vestur-Barðastrandarsýslu, línurnar frá Bíldudal til Selárdals, og frá Kvígindisdal til Breiðavíkur. Um báðar þessar línur er það að segja, að þær eru löngu komnar í símalög. Árið 1919 var línan frá Patreksfirði til Saurbæjar sett í símalög. Í till. landssímastjóra, þeim sem áður getur, er sleppt línunni frá Hvalsskeri við Patreksfjörð til Saurbæjar. Ég skil ekki, hvernig á þessu stendur, en sennilega hefir fjvn. ekki áttað sig á því. Síðar, 1929, voru teknar upp í símalög aftur línurnar frá Bíldudal til Selárdals og frá Kvígindisdal til Breiðavíkur. Það lítur helzt út fyrir, að löggjafarvaldið hafi þá ekki vitað, að önnur línan var áður komin í símalög. Ég tel bæði af ummælum hv. frsm. fjvn. og nál. 1930, að beinlínis sé skylda að láta þessar línur ganga fyrir öðrum, sem gerðar verða á næsta ári. Í raun og veru hefði átt að gera þær í ár. — Ég tel ekki ástæðu til að orðlengja þetta meira.