30.07.1931
Efri deild: 16. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 725 í B-deild Alþingistíðinda. (510)

5. mál, verðtollur

Jón Þorláksson:

Ég kom að því áðan, að ég hefði ekki getað komið fram með minnihl.nál. sökum lasleika. Ég hefi því orðið að láta mér nægja að bera fram þessar brtt. á þskj. 140, sem ég hefi hugsað mér, að kæmu til álits við þessa 2. umr. málsins.

Eins og hv. þdm. muna, eru þessi verðtollslög frá árinu 1926. Þá voru sett lög um verðtoll af nokkrum vörutegundum, sem komu í stað laga um bráðabirgðatoll af nokkrum vörutegundum, sem sett voru meðal annara bráðabirgðaráðstafana, sem Alþingi 1924 greip til út úr því öngþveiti, sem ríkissjóður og landið allt var þá komið í.

Þegar þessi lög um bráðabirgðaverðtoll voru sett 1924 ásamt öðrum ákvæðum um nýjar álögur, þ. á m. um tolla af nauðsynjavörum, sem nauðsynlegt þótti að grípa til í bili, þá var því lofað, að sú löggjöf skyldi ekki standa lengur en þangað til af létti þeirri fjárhagskreppu, sem ríkissjóður var þá kominn í. Á þingi 1926 var nú lokið við að heita mátti að ráða fram úr þeim fjárhagsvandræðum, sem höfðu knúð þetta fram á þingi 1924. Þá vildi þingmeirihlutinn, sem þá var, standa við gefin loforð og létta sköttunum af. Það var líka gert með því að draga talsvert úr þeim tollum, sem lagðir höfðu verið á nauðsynjavörur, með því að breyta vörutollslögunum og með afnámi gengisviðaukans á vörutollinum. Þá var ennfremur í staðinn fyrir bráðabirgðavörutoll á nokkrum vörutegundum settur verðtollur, eins og lögin frá 1926 sýna. Aftur á móti þótti ekki rétt að fara svo langt að afnema verðtollinn alveg, því að það hefði orðið til þess, að ekki hefði verið unnt að létta verulega á vörutollinum. Það var álitið, sem ég hygg, að rétt sé, að þó að verðtollurinn hvíli á ýmsum nauðsylegum vörutegundum, þá hittir vörutollurinn nauðsynjavörurnar með meiri þunga en verðtollurinn hefir gert og gerir. Því var það ráð tekið að láta lögin um verðtollinn haldast og ganga lengra í því að létta vörutollinum af, og það var í rauninni gert nokkuð meira en nam viðbótinni 1924.

Á þingi 1928 var svo samþ. veruleg hækkun á þessum verðtolli frá 1926. Þá þótti það orka nokkuð tvímælis hér á þingi, hvort sú skattahækkun, sem í þessu fólst, ásamt öðrum skattahækkunarfrv., sem þáv. stj. beitti sér fyrir, væri óhjákvæmileg nauðsyn. M. a. var deilt um þetta innan fjhn. þessarar þd. Það mál endaði svo, að við sjálfstæðismenn vorum ekki sannfærðir um, að þessar skattahækkanir væru nauðsynlegar fyrir ríkissjóð, en létum þó undan að miklu leyti og lögðumst ekki á móti þessari hækkun.

Reynslan sýndi nú, að við höfðum haft alveg rétt fyrir okkur í okkar áliti um það, að þessi tekjuhækkun væri ekki nauðsynleg. Þau 3 ár, sem þessi tekjuhækkun hefir gilt, þ. e. a. s. árið 1928 að talsverðu leyti og 1929 og 1930, hafa tekjur ríkissjóðs farið svo langt fram úr áætlun, að þess eru ekki dæmi um neitt samfellt 3 ára tímabil áður. Ríkisstj. hefir fengið um 5 millj. að meðaltali á hverju ári fram yfir það, sem fjárl. hafa gert ráð fyrir, og miklu af þessu fé hefir ríkisstj. ráðstafað eftir eigin geðþótta án heimildar frá Alþingi. Þetta hefir allt saman dregið okkar fjármálastjórn inn á þá braut, að fjárveitingavaldið er að miklu leyti komið úr höndum Alþingis og í hendur ríkisstj. Ég segi að miklu leyti, því að af þeim 11–12 millj., sem veittar eru í fjárl., er mestur hluti bundinn af öðrum lögum og venjum, svo að það er í raun og veru ekki nema 2–3 millj., sem fjárveitingavaldið hefir til að ráðstafa, en svo hefir ríkisstj. ráðstafað um 5 millj. á ári hverju eftir eigin geðþóttu.

Ég þori að fullyrða, að þessi meðferð fjármála ríkissjóðs er komin langt út fyrir það, sem er þolað í nokkru öðru þingræðislandi. Því er ekki að neita, að alstaðar getur eitthvað komið fyrir milli þinga, sem getur útheimt fjárhagsráðstafanir af hálfu stj., en í þeim löndum, sem ég þekki til, heldur þingið svo fast í fjárveitingavaldið gagnvart ríkisstj., að það er alls ekki liðið, að stj. ráðstafi þeim málum eftir eigin geðþótta. Þegar þarf að ráða fram úr einhverju slíku máli milli þinga, er þess krafizt, að stj. leiti samþykkis þeirra fulltrúa, sem þingflokkarnir hafa kjörið til þess að vera í fyrirsvari um þessi mál fyrir sig á milli þinga. Það er t. d. alkunnugt í Danmörku, að fjármálanefnd Fólkþingsins er ávallt kvödd til á milli þinga, ef stj. þykir þurfa að nota fé ríkisins fram yfir það, sem fjárl. heimila. Samt finnst mér það allmikið álitamál, hvort það eigi ekki að framlengja gildi þessara laga með tilliti til þess fjárlagafrv., sem fyrir þessu þingi liggur, þ. e. fyrir árið 1932. Því að þótt ég hafi látið í ljós það álit, að reynslan hafi sýnt, að sá tekjuviðauki, sem breytingin á þessum lögum 1928 veitti, hafi ekki verið nauðsynlegur undanfarin ár til þess að hægt væri að vinna að þeim framkvæmdum, sem Alþ. ætlaðist til, þá ber á það að líta, að þetta hafa verið hagstæð tekjuár, þar sem atvinnuvegirnir hafa staðið í miklum blóma. En þótt þessa hafi ekki verið þörf 1928 til 1930, þá er það engin sönnun þess, að ekki sé þörf þessa tekjuauka næsta ár. En hitt vil ég taka skýrt fram, að það er ekki rétt að framlengja gildi þessara laga, nema gefnar séu tryggingar fyrir því, að horfið sé af þeirri braut, sem fylgt hefir verið síðastl. ár, að fjárveitingavaldið sé tekið úr höndum Alþ. og í hendur stj. einnar og hún taki sér einræðisvald án þess að þingið sé kvatt til ráða. Með tilliti til þess mikilvæga atriðis er ekki hægt að taka afstöðu við þessa umr., og geymi ég mér því að taka endanlega afstöðu til 3. umr. Nú vil ég aðeins gera grein fyrir brtt. þeim, er ég ber fram á þskj. 140.

Fyrri brtt. fer fram á það, að framlenging l. nái aðeins til ársins 1932. Það er ekkert, sem kallar að að framlengja þau nema fyrir það ár, sem fjárlagafrv. er samið fyrir. Eins og menn muna, lá endurskoðun á skattalöggjöfinni fyrir þinginu í vetur og þar var gert ráð fyrir því, að þessi verðtollslög féllu úr gildi. Nú hefir ekki þótt heppilegt að taka þessa endurskoðun í heild upp á þessu sumarþingi, og hefi ég fyrir mitt leyti ekkert við það að athuga, en afleiðingum af því verður að taka með því að framlengja verðtollslögin um eitt ár. En á mesta þingi gefst tækifæri til að taka upp endurskoðun skattalöggjafarinnar. Við þetta er fyrri brtt. mín miðuð, að ég sé ekki ástæðu til að framlengja l. um verðtoll lengur en um eitt ár.

Eins og ég tók fram, hefir reynslan sýnt, að l. um hækkun verðtolls frá 1928 voru ekki nauðsynleg. Þó hefi ég ekki viljað koma með brtt. um það að færa tollinn niður í það, sem hann var 1926– 1928, heldur hefi ég valið aðra leið. Ég fer heldur fram á að fella niður toll á nokkrum nauðsynjavörum, sem gefur ríkissjóði ekki verulegar tekjur, en heldur uppi vöruverðinu í landinu. Nú fellur margt af nauðsynjavöru undir þennan verðtoll. Ég hefi ekki séð mér fært að taka þær allar undan, heldur einskorðað till. mína við þær matvörutegundir, sem eru verðtollsskyldar.

Ástæðan til þess, að ég ber fram þessa brtt., er m. a. sú, að nú er það mikil tízka að tala um dýrtíðina í Reykjavík; sem ekki þjáir aðeins þennan bæ, heldur allt landið. Þegar mál það er krufið til mergjar, get ég ekki fundið nema 3 atriði, sem þar liggja til grundvallar. Fyrsta atriðið er það, að kaupgjald í Reykjavík hefir hækkað. Um það get ég sagt, eins og ég hefi oft áður tekið fram, að það er mín rótgróin skoðun, að kaupgjald eigi að vera svo hátt sem atvinnuvegirnir geta borið, og er ekki rétt undan því að kvarta. Ef atvinnuvegirnir í Reykjavík verða ekki færir um að greiða kaupið, þá fyrst er ástæða til að kvarta.

Annað atriðið er það, hve húsaleigan er há hér í Reykjavík. Allir kunnugir vita, að hin háa húsaleiga stafar af ýmsum ástæðum. Í fyrsta lagi stafar hún af húsnæðiseklu, sem komst í algleyming á síðustu stríðsárunum, og verður ekki úr því bætt öðruvísi en með auknum byggingum. Í öðru lagi veldur dýrt og óhagstætt lánsfé til bygginga hinni dýru húsaleigu. Það neyðir menn til að reikna sér háa húsaleigu og leigja dýrt, því að húsaleigan þarf ekki aðeins að miðast við háa vexti af byggingarlánunum, heldur einnig óeðlilega háar afborganir 10 fyrstu árin. Þriðja orsökin til hækkunar húsaleigu er sú, að með vaxandi velmegun eru kröfur orðnar svo miklar til allskonar þæginda, að það er ekkert sambærilegt að leggja til sama herbergjafjölda og fyrir svo sem 15 árum. Þetta hleypir húsaleigunni vitanlega mikið fram, og er ein af orsökunum til dýrtíðarinnar í Reykjavík. — En um þetta atriði fer ég ekki fleiri orðum, þar sem það liggur fyrir utan það mál, sem hér er á dagskrá, en ég taldi nauðsynlegt að benda aðeins á þessi atriði í þessu sambandi. Annars er auðgert í öðru sambandi að benda á ráð til að koma húsaleigunni í Reykjavík í sannvirði.

Þriðja atriðið, sem veldur dýrtíðinni í Reykjavík, er það, hve vöruverðið er hátt. Hagskýrslur sýna, að verðlag á aðfluttum vörum í Reykjavík er í samræmi við verðlag annarsstaðar í heiminum. Ef verðvísitölur eru bornar saman við vísitölur frá 1914, þá eru þær að vísu hærri, en það kemur til af því, að krónan er í lægra gildi nú en þá. Ef vísitölunum væri breytt úr pappírskrónum í gullkrónur, þá kemur í ljós, að verðlag útlendrar vöru hefir lækkað hér sem annarsstaðar. Verðlag innlendu vörunnar hefir aftur á móti ekki fylgzt með í hinni almennu lækkun. Þetta stafar af eðlilegum orsökum. En það er aftur önnur ástæða þess, að verðvísitalan getur ekki sýnt sannan samanburð við 1914.

Kaupgjald er nú hærra í landinu en það var 1914, samanborið við vöruverð. Þótt einhver breyt yrði á því, komum við því aldrei í það ástand, sem það var 1914. Vélar allar hafa tekið svo miklum framförum og aðrar ástæður, sem kauphækkun valda, gera það að verkum, að það spor verður ekki stigið til baka. Það, sem fyrst og fremst þarf því að gera, þegar um það er rætt að draga úr dýrtíðinni hér í Reykjavík, það er að nema í burt þær ráðstafanir, sem löggjöfin hefir gert til að halda uppi vöruverðinu — t. d. hár verðtollur á vöru, sem lítið flyzt inn af, en er framleidd í landinu sjálfu.

Aðra brtt. mína hefi ég því borið fram sem prófstein á það, hvort hv. d. vill taka afleiðingum af tali Framsóknarflokksins um dýrtíðina í Reykjavík og nema úr lögum þau ákvæði, sem þingið hefir sett og miða að því að viðhalda dýrtíðinni í Rvík.

Ég finn ekki ástæðu til þess að ræða um einstakar vörutegundir. Ég get gert það síðar, ef einhverjir hv. þdm. finna ástæðu til að gera einhverja þeirra að umtalsefni.