30.07.1931
Efri deild: 16. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 735 í B-deild Alþingistíðinda. (513)

5. mál, verðtollur

Jón Þorláksson:

Ræða hv. 2. landsk. hefir ekki gefið mér tilefni til neinna andsvara. Hann lýsti eingöngu afstöðu síns flokks, og ég álít enga ástæðu í sambandi við þetta mál að koma inn á þann skoðanamismun, sem er á milli Sjálfstæðisflokksins og Alþýðuflokksins um stefnur í skattamálum. Það eru þá aðallega ummæli hæstv. forsrh., sem hafa gefið mér tilefni til nokkurra andsvara.

Hann talaði fyrst um það, hverjar afleiðingarnar mundu verða, ef neitað yrði að framlengja verðtollinn. Hann gerði ráð fyrir, að það mundi hafa í för með sér stórum aukinn innflutning á verðtollsskyldum vörutegundum. vegna þess að menn mundu gera ráð fyrir, að verðtollurinn kæmi brátt aftur, og þá væri gott að hafa miklar birgðir, sem inn hefðu verið fluttar á þeim tíma, sem tollurinn hefði fallið niður. Ég er ekkert hræddur við þetta. Það er nú svo, að innflutningur kaupmanna ákvarðast aðallega af tvennu. Annað er það, hvað gengur út af vörunum, og hitt er það, hvað þeir eiga af ónotuðu lánstrausti. Ég held, að það sé nú svo, að verzlanirnar muni nú draga við sig að kaupa nauðsynlegar og ónauðsynlegar vörur, því að það eru sannarlega ekkert uppörvandi tímar fyrir kaupmenn að kaupa miklar vörubirgðir til að geyma í geymsluhúsum sínum. Það er vitanlegt, að lánsfé bankanna er nú fest svo mjög, að það getur ekki verið að ræða um neina aukningu á útlánum þeirra til eins eða annars. Það þarf sízt að gera ráð fyrir fleiri lánum til að kaupa geymsluvörur af þeim tegundum, sem nú eru verðtollaðar.

Ég er því ekkert hræddur við þetta, en það getur aftur komið til mála, að þetta geti haft gagnstæð áhrif á kaupmenn við það, sem hæstv. ráðh. vildi álíta. Ég gæti hugsað, að kaupmenn reyndu að koma í veg fyrir innflutning á þeim vörum, sem verðtollinum yrði létt af, meðan þeir væru að selja þær vörubirgðir, sem nú eru til — og það mun hafa verið óvenjulega mikið um síðustu áramót — og reyna þannig að firra sig tjóni af því að þurfa að setja niður vörur sínar í samræmi við þann afnumda verðtoll. Þetta mundi vega meira. Þessir hagsmunir liggja mest, að firra sig tjóni af þessu. En hitt, að fara að „spekúlera“ í einhverjum gróða, sem kynni að falla þeim í skaut, þegar löggjöfin hyrfi að verðtollinum aftur, það sýnist liggja nokkuð miklu fjær.

Hæstv. forsrh. vildi lítið fara út í þær ástæður, sem ég benti á fyrir því, að vel gæti komið til mála, að rétt væri að neita um framlengingu á þessum verðtolli. Hann kaus aftur á móti hitt, að fara út í sögu málsins, sem ég rakti stuttlega áðan. Hann staðnæmdist sérstaklega við ástandið 1924 og talaði um afstöðu Framsóknarflokksins þá til þessa bráðabirgðaverðtolls, og dró svo út frá því þá ályktun, að stjórnarandstæðingar væru skyldugir til að vera með verðtollinum nú. En hann hefði varla átt að fara að koma með þá ályktun, að sagan eigi að endurtaka sig, nema að athuga fyrst, hvort ástæðurnar hefðu verið þær sömu. Hann gerði ekki tilraun til að hnekkja því, sem ég sagði, hvorki því, að þessi tollaaukning 1928 hefði reynzt ónauðsynleg, né hinu, að sá tekjuauki, sem stj. heimtaði og fékk, hafi ekki verið notaður til að framkvæma vilja Alþingis og fjárlaganna, heldur hafi hann allur — og meira að segja meira til — orðið eingöngu til að skapa fjárveitingavald, þar sem það á ekki að vera. Þessari ástæðu var ekki til að dreifa 1924.

Mér fannst hæstv. ráðh. skakka mjög í því eina atriði, sem ég tók eftir, að hann nefndi til samanburðar á ástandinu 1924 og nú. Hann sagði, að það hefði staðið eins á nú og þá, að harðindi hefðu verið undangengin. Þetta var rétt 1924 að því er snertir atvinnulífið og afkomu ríkissjóðs, að þar voru harðindi undangengin, sem stöfuðu af óhagstæðu vöruverðlagi í samfellt 4 ár á okkar útflutningsvörum móts við það almenna vöruverðlag í heiminum árin 1920–23, að háðum meðtöldum. En nú stendur sannarlega öðruvísi á. Nú eru undangengin góðæri fyrir atvinnuvegina á þessu þriggja ára tímabili, 1928–1930, svo að það eru hin hagstæðustu verzlunarár, sem hér hafa komið síðan 1914, að stríðsgróðaárunum ekki undanskildum. Nei, það stendur sannarlega öðruvísi á nú en þá. 1924 þurfti að gera harðvítugar ráðstafanir til þess að bæta úr því, sem áfátt hafði orðið undangengin verzlunarharðæri. Nú liggur fyrir að draga lærdóm af undanförnum árum eins og þá. En á þessum undangengnu góðærum hefir farið svo, að samfara gegndarlausum fjáraustri hefir fjárveitingavaldið dregizt úr höndum Alþingis og í hendur ríkisstj., og það stjórnar, sem ekki hefir getað lifað sig upp í það að skoða sig sem landsstjórn, sem bæri velferð allra fyrir brjósti, heldur skoðar sig sem stjórn síns sérstaka stjórnmálaflokks og hefir sýnt það í verkum sínum við hvert hugsanlegt tækifæri.

Það snertir þetta mál ekkert, þó að hæstv. núv. forsrh. hafi árið 1924 haft sitthvað að athuga við fjármálastjórn tveggja þeirra manna, sem þá gengu í ráðuneytið, á liðnum árum. Ég sé ekki, hvað það kemur þessu máli við.

Og satt að segja, þegar hann talaði um, að hann hefði skrifað um fjáraukalögin miklu, þá ætti hann ekki að minnast á þau skrif sín í samkomu, sem skipuð er mönnum, sem þekkja til þeirra mála. Það er hægt að nota slíkt á kjósendafundum, en hér vita allir, að tölurnar í fjáraukalögunum 1920–21 stöfuðu af því einu, að óvenjulega mikil útgjaldalög frá þinginu 1919 komu til framkvæmda, án þess að þingið 1919 hefði tekið upp þær upphæðir í fjárl. fremur en venja er til. Það er ekki venja, að þingið taki upp í fjárlög útgjöld, sem það sjálft stofnar til á sama þingi. Ég hefi ávallt ímyndað mér, að hæstv. forsrh., sem þá var eingöngu blaðamaður, hafi gert þennan mikla vind um fjáraukalögin miklu 1920–21 mót betri vitund, sem því miður er orðið svo algengt um þá menn, sem fást við blaðamennsku hér á landi, og ég met honum það hvorki til meiri né minni sýndar en blaðamönnum yfirleitt. En hann ætti að telja það undir virðingu sinni að minna á þau skrif sín nú, þótt með óákveðnum orðum sé. Ekkert af því, sem þá var gert, er sambærilegt við það einræði í fjármálum, sem stjórn sú hefir tekið sér, sem hann hefir veitt forstöðu undanfarið kjörtímabil.

Hæstv. ráðh. vitnaði í það, að ég hefði gefið stjórnarandstæðingum 1924 þann vitnisburð, að þeir hafi gengið með okkur að því að útvega nauðsynlegan tekjuauka ríkissjóði til handa. Ég hefi viðurkennt þetta, eins og ég er alltaf vanur að unna andstæðingum mínum sannmælis, og kæri mig ekkert um að draga úr því, þótt raunar mætti minna á, að á einu sviði varð harður árekstur og skoðana munur milli okkar og Framsóknarflokksins í Nd. á því þingi.

Ég held, að það sé nú yfirleitt svo ólíku saman að jafna, hvernig á stóð 1924, eftir fjögurra ára harðæri fyrir atvinnuvegina, og nú, eftir hér um bil jafnlanga velgengni og óhófseyðslu stj., að ekki verði dregin ályktun af því að vitna í afstöðu manna 1924, eins og hæstv. ráðh. gerði.

Ég ætlaði mér ekki að fara að vekja illdeilur um það nú, hvernig farið hefir verið með fé ríkissjóðs á undanförnum árum. Ég minni aðeins á það til þess að gera það ljóst, að ég fyrir mitt leyti álít, að það megi ekki halda áfram þannig, að stj. komi til þingsins og heimti miklar tekjur, og hegði sér svo eins og hún ein hafi rétt og vald til þess að ráðstafa þeim tekjum, sem til falla, án þess að þingið sé til kvatt fyrr en eftir á, þegar allt er um garð gengið, og engu hægt um að breyta.

Ég get gert ráð fyrir því, eins og hæstv. forsrh., eftir ummælum hans að dæma, að um þetta verði nú talazt við fyrir 3. umr. málsins. Hann sagði að vísu: „ef andstöðuflokkar stj. vilja“, og ég skal segja honum, að við sjálfstæðismenn erum fúsir til viðtals um þetta, ef við erum til kvaddir, en það er auðvitað stjórnarinnar að hafa forustu og frumkvæði í þessu eins og öðrum landsmálum. Og ég vil ekki, að því sé slegið föstu fyrirfram, að það sé skylda okkar að styðja stj. í því að fá þessar tekjur. Það fer eftir því, hver niðurstaðan verður af slíku samtali.

Þá minntist hæstv. forsrh. á brtt. mínar og hafði ekkert að athuga við fyrri brtt., um tímamarkið, en lagðist heldur á móti seinni brtt. Í raun og veru færði hann litlar ástæður á móti henni. Hann sagði, að almennar umr. um dýrtíðina í Rvík ættu illa heima hér. Ef til vill má segja, að svo sé, en það er nú svo, að þessi brtt. mín lýtur alveg sérstaklega að þessu atriði um dýrtíðina í Rvík, svo að það er ekki hægt að færa rök fyrir henni án þess að koma inn á það mál, og þess vegna gerði ég það.

Hæstv. forsrh. vildi telja, að það væri ekki rétt að draga slíka brtt. inn í svona bráðabirgðaúrlausn á málinu. Þetta gæti nú kannske átt við einhver rök að styðjast, ef til þess væri ætlazt með þeirri skattlagabreyt., sem er annarsstaðar á döfinni, að einhver breyt. yrði á þessu, þannig að brtt. mín væri þá óþörf. En því víkur allt öðruvísi við. Samkv. þeirri endurskoðun skattalaganna, sem á vetrarþinginu hafði náð samþykki Nd. og var komin hingað, áttu einmitt allar þær vörutegundir, sem brtt. telur upp, að vera verðtollaðar. Það má þess vegna líta á þessa brtt. mína svo, að hún sé að vísu fyrst og fremst brtt. við verðtollslögin eins og þau gilda nú, en það liggur auðvitað jafnframt í henni, að ætlazt er til þess, að þessar sömu vörutegundir verði undanþegnar verðtolli í hinni endanlegu löggjöf. Og út frá þessu sjónarmiði get ég ekki annað séð en að réttmætt sé að bera þessa till. fram nú.

Þá gerði hæstv. forsrh. ráð fyrir, að þessi till. kynni að verða til þess að vekja deilur í Nd. Ég get vel trúað því, og ég er ekki viss um, að ég hefði farið út í það nú að bera fram slíka brtt., ef ekki hefði verið þetta stöðuga umtal um dýrtíðina í Rvík og þær ályktanir, sem af því eru dregnar. Þetta umtal hefir m. a. vakið upp tillögur um ýmiskonar löggjöf, sem nú er verið að flytja hér á þingi, sem að sumu leyti a. m. k. er þannig, að þar sem um einhver vandkvæði er að ræða, þá myndi slík löggjöf aðeins bæta gráu ofan á svart. Ég álít, að till. eins og þessi sé góður prófsteinn á það, hvort menn úti um sveitir yfirleitt meina nokkuð með því að tala um dýrtíðina í Reykjavík sem eitthvert þjóðarböl. Ég sé ekki annað, a. m. k. frá mínum bæjardyrum, en að annaðhvort verði menn nú að samþ. þessa brtt. með glöðu geði, — hún fer ekki fram á annað en að nema burt eina af orsökunum til dýrtíðarinnar í Reykjavík, sem er algerlega löggjafarráðstöfun, — ellegar þá að sansast á, að bezt sé að hætta að tala um þessa dýrtíð sem þjóðarböl og láta Reykvíkinga sjálfa glíma við hana.

Ég held svo, að ég þurfi ekki frekara um þetta að segja. Ég get þó raunar bætt því við, út af því, sem hæstv. forsrh. nefndi um óskir manna um verndartolla, að það getur verið mismunandi, hve réttmætir verndartollar eru; en í mínum augum eru þeir þó ávallt mjög varhugaverðir, og ég vil fá sérstaklega gildar ástæður fyrir þeim í hverju tilfelli. En í einu tilfelli held ég, að ekki sé með neinu móti hægt að mæla þeim bót, og það er þegar svo stendur á, að af tiltekinni vörutegund, sem framleidd er til nokkurra muna í landinu, er nokkur hl. seldur innanlands og nokkur hl. eða jafnvel meiri hl. fluttur til útlanda, og verður þá að sæta því verði, sem hinn erlendi markaður skapar. Þegar svona stendur á, eru verndartollar aðeins til þess að knýja það fram, að sá hluti framleiðslunnar, sem seldur er innanlands, njóti hærra verðs en hinn. Það er ekkert annað en að taka peninga úr vösum nokkurra landsmanna og láta yfir í vasa hinna, og vilji menn gera það, á að gera það á annan hátt en með ákvæðum, sem koma fram undir yfirskini skattalaga, en sem eru engin skattalög, af því að þau færa ríkissjóði engar tekjur. Það stendur svona á um sumar af þessum vörutegundum, sem eru taldar í brtt. minni, og ég get ekki álitið, að verndartollar séu réttmætir í slíku tilfelli.