30.07.1931
Efri deild: 16. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 741 í B-deild Alþingistíðinda. (514)

5. mál, verðtollur

Einar Árnason:

Þrátt fyrir það, að hv. 1. landsk. er nú búinn að halda tvær alllangar ræður um þetta mál og þá brtt., sem hann flytur, hefi ég ekki enn komizt að niðurstöðu um afstöðu hans til þessa frv. Ég hefi ekki getað skilið það á ræðum hans, hvort hann setur samþykkt þessarar till. sem skilyrði fyrir því, að hann greiði frv. atkv., og þess vegna furðar mig, að hann skuli hafa talað svo langt mál um brtt. sínar, af því að þær eru svo nauðaómerkilegar. Þær geta ekki haft hin minnstu áhrif á kjör og afkomu fólksins.

Fyrri brtt. er aðeins um að framlengja verðtollinn um eitt ár í staðinn fyrir tvö. Þetta skiptir engu máli og um það er enginn ágreiningur.

Hin brtt. er um það að fella niður verðtoll af fáeinum vörutegundum, þ. á m. innfluttum fiski, innfluttu kjöti og innfluttu smjöri. Hv. flm. tók það fram í fyrri ræðu sinni, að þetta hefði lítil áhrif á þá upphæð, sem ríkissjóði áskotnaðist af verðtollinum yfirleitt, en færir sem aðalástæðu að ætla með þessu að minnka dýrtíðina í Rvík. Þetta þykir mér ákaflega furðulegt. Það, sem greip mig fyrst, þegar ég las þessa brtt., var það: Hvaða hugsun er það, sem vakir á bak við þessa till.? Fljótt á litið virðist sem brtt. sé flutt til þess að gera e. t. v. báðum aðalatvinnuvegum landsins, landbúnaði og sjávarútvegi, þyngra fyrir. En þetta eru okkar aðalútflutningsvörur, og tiltölulega ósköp lítið keypt, sem betur fer, af þessu inn í landið. Þess vegna getur það ekki haft minnstu áhrif á dýrtíðina í Rvík né upphæðina, sem ríkissjóður fær af verðtollinum, hvort till. verður samþ. eða ekki. Innflutt kjöt og innfluttur fiskur er aðeins lítill hluti af neyzluvörum fólksins. Það er allt annað, sem skapar dýrtíðina í Rvík en þetta. (JakM: Verðlagið á innlendu vörunum yrði að fylgjast með). Þetta er hreinskilnislega sagt af hv. 1. þm. Reykv. Þá er það meiningin með þessari till. að lækka fiskinn og kjötið í verði fyrir hinum innlendu framleiðendum. Þetta get ég skilið, en það hefir ekki komið fram í ræðum hv. flm. brtt. Hann hefir eingöngu fært sem rök fyrir till. sinni, að hann ætlaði að minnka dýrtíðina í Rvík; en ég veit, að hv. flm. sjálfur hefir enga trú á þessu.

Hv. l. landsk. talaði um, að verðfallið á útlendum vörum í Rvík væri í samræmi við samskonar verðfall erlendis. Þetta er gott að fá að vita. En fólkið, sem kaupir vörurnar hér dýru verði, hefir ekkert gagn af þessu, þótt það fái að vita þetta. Það, sem hér er um að ræða, er að bera saman verðlag á útlendum vörum hér og úti um land, þar sem búið er að skipuleggja atvinnuvegina og verzlunina; upp úr því er eitthvað að leggja. Vitanlega er verðtollurinn ekki hærri hér í Rvík en annarsstaðar á landinu. En hvers vegna er þá 20–30% hærra vöruverð á beinum nauðsynjavörum hér en í öðrum kaupstöðum? Hv. 1. landsk. þarf að gera sér grein fyrir þessu. — Það er ekki verðtollurinn, sem skapar dýrtíðina í Reykjavík. Það er hægt að sanna með hægu móti.

Ég held, að þessi síðari brtt. hv. l. landsk. sé flutt aðeins til þess að geta fengið tækifæri til þess að tala um þetta mál. Hún hefir engin raunveruleg áhrif, og það veit hv. flm. sjálfur. Hvort hún er samþ. eða samþ. ekki, skiptir því engu máli.

Hæstv. forsrh. minntist á, að ef verðtollurinn væri numinn úr gildi nú, en hinsvegar mætti búast við, að hann yrði settur á aftur, myndu kaupmenn nota tækifærið til þess að kaupa vörur verðtollsfríar, í von um að græða á þeim síðar, þegar tollurinn kæmist á af nýju. Hv. l. landsk. vildi telja, að þetta gæti ekki átt sér stað, og þ. á m. tók hann fram að kaupmenn myndu yfirleitt ekki hafa efni á að kaupa vörur til þess að liggja með þær. Þetta er rétt að nokkru leyti. Þeir eru margir, sem ekki hafa efni á því. En ég býst við, að hinir sterkari kaupmenn gætu þetta. Hv. þm. sagði, að bankarnir sköpuðu þetta að nokkru leyti, því að þeir gætu ekki lagt fram fé til þannig lagaðra vörukaupa, og vildu það ekki heldur. En hv. þm. veit, að kaupmenn fá oft vörur frá útlöndum án þess að fá lán í hérlendum bönkum. Ef verðtollurinn yrði nú afnuminn, má ganga út frá því, að visst tímabil verði, sem enginn verðtollur er, en síðar verði hann settur á aftur. Og þegar kaupmenn finna, að sá tími nálgast, þá munu þeir kljúfa þrítugan hamarinn til þess að flytja inn, og það er nokkuð auðgengið að því að fá vörur lánaðar frá útlöndum.

Þá var það hv. 2. landsk., sem flutti hér ræðu áðan, sem auðvitað var nákvæmlega í samræmi við það, sem hann og hans flokksmenn hafa á undanförnum þingum sagt. Það var dálítið skylt með þessum tveim hv. þm., að þeir ætla báðir að lækka dýrtíðina í Rvík með því að afnema verðtollinn. En þátt því verði ekki neitað, að verðtollurinn geri vörur yfirleitt dýrari, þá er þetta svo nauðalítið brot af dýrtíðinni í Rvík, að það er engin lækning á henni. Lækningin hlýtur að liggja í allt öðru. Miklu meiri áhrif geta ýmsar ráðstafanir haft, sem fólkið sjálft getur gert um sína eigin verzlun. En nú vil ég spyrja hv. 2. landsk.: Hvað hefir hann og hans flokkur gert til þess að lækka vöruverð í Rvík? Eftir mínum kunnugleika hefi ég ekki komið auga á neitt. Hvað hefir Alþýðubrauðgerðin gert til þess að lækka brauðverð í Reykjavík? Ég vil í þessu sambandi benda hv. þm. á það, að síðastl. ár tók samvinnufél. á Akureyri sér fyrir hendur að koma upp brauðgerð. Brauðgerð og brauðaverzlun hafði þá verið í höndum nokkurra einstakra manna og verðið breyttist ekkert. En þegar þetta félag hefir tekið málið í sínar hendur og tekið upp nýtt skipulag, þá féll brauðverðið tvisvar á árinu sem leið. (JBald: Ég held, að það hafi líka fallið tvisvar hér á því ári!). Það má vera, en verðfallið var helmingi minna hér en á Akureyri.

Þessir hv. landsk. þm. vilja láta í veðri vaka, að dýrtíðin í Rvík stafi af ráðstöfunum þingsins um tolla á vörum. Tollarnir eru hinir sömu hér og úti um land. Og hvernig stendur þá á því, að verðlag er hærra hér en annarsstaðar? Það er þetta, sem ég vildi láta þessa landsk. þm. gera grein fyrir.

Ég hefi í rauninni ekki meira um þetta að segja. Þessar brtt. eru svo lítilsverðar, að mér þykir skipta ákaflega litlu máli, hvort þær ná samþykki eða ekki.