31.07.1931
Efri deild: 17. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 744 í B-deild Alþingistíðinda. (516)

5. mál, verðtollur

Jón Baldvinsson:

Hv. 2. þm. Eyf. hélt hér ræður í gær í hv. d. og vék þá nokkrum orðum til mín út af umr. um dýrtíðina, eða öllu heldur dýrtíðarskrafið í Rvík. Ég get nú verið sammála hv. 2. þm. Eyf. um það, að brtt. á þskj. 140, síðari liðurinn, sé ekki stórvægileg, að það skipti ekki miklu máli fyrir lækkun dýrtíðarinnar í Rvík, hvort hún verður samþ. eða ekki. Þó má geta þess, að þarna eru undanþegnar tolli vörur, sem verðlækkun á mundi hafa áhrif á verðlag innlendrar vöru, svo sem ný egg, kjöt og smjör. Þessar vörur, sem nú eru með verðtolli, eru nú svo dýrar, að þrátt fyrir þennan verðtoll er mér kunnugt um, að þær hafa náðst ódýrari frá útlöndum heldur en seljendur hafa heimtað fyrir samskonar vöru innlenda. Það segir sig nú sjálft, að þessar vörur mundu lækka í verði, ef verðtollinum væri létt af þeim, og minnka þá um leið dýrtíðina að þessu leyti. — Það er rangt hjá hv. 2. þm. Eyf., að það sé eitthvað eitt, sem þurfi að gera til að létta af dýrtíðinni í Rvík. Það er margt, sem þarf að gera til þess; svo þó till. á þskj. 140 sé ekki stórvægileg, þá miðar hún í þá átt að lækka verð á þeim vörum, sem eru verðmælir á innlendu vörurnar. En þar skildist mér hv. 2. þm. Eyf. vera andvígur lækkun dýrtíðarinnar. Því undir umr. í gær, þegar hv. 1. þm. Reykv. greip fram í ræðu hv. 2. þm. Eyf., svaraði hv. þm. með nokkrum þjósti, sem annars er nú ekki venja hjá honum, og tók það óstinnt upp, að það ætti að fara að lækka vöruna í verði fyrir framleiðendum úr hans stétt. Hann vill ekki láta lækka þær vörur, sem hans stétt framleiðir, og vill því ekki, að dýrtíðin lækki hvað þá vöru snertir. Þetta er náttúrlega mannlegt, en hann verður þó að játa, að verðlag innlendrar vöru er ekki óverulegur þáttur í því að halda uppi dýrtíðinni í Reykjavík.

Ég býst nú ekki við, að það komi til greina, að fiskur verði fluttur inn, svo það er náttúrlega ekki „praktiskt“ atriði, hvort verðtollur verður felldur niður af honum eða ekki. Hinsvegar hefir það komið fyrir, að það hefir verið flutt inn saltkjöt, og þrátt fyrir verðtollinn, sem á því hefir verið, hefir það verið selt ódýrara í smásölu í búðum hér en íslenzkt kjöt hefir fengizt fyrir á sama tíma. Ég man nú reyndar ekki eftir, að þetta hafi komið fyrir nýlega, en ég man þó þá tíð, að einmitt saltkjöt var flutt inn og selt ódýrara en íslenzkt kjöt. Það er náttúrlega ekki æskilegt, að það séu fluttar inn þær vörur, sem við framleiðum sjálfir, og æskilegt, að framleiðendur geti fengið hátt verð fyrir sína vöru, en það verður þó að vera í hlutfalli við það verð, sem fæst fyrir vöruna á heimsmarkaðinum. En það hefir nú oft brunnið við, að verðlag á íslenzku kjöti á haustin hafi verið hærra en fengizt hefir fyrir vöruna á erlendum markaði.

Hv. 2. þm. Eyf. sagði, að ég og minn flokkur hefðum ekki gert neitt til að lækka dýrtíðina í bænum, með því að skipuleggja verzlunina. Nú. það var nú gerð tilraun til þess af mætum mönnum úr flokki hv. 2. þm. Eyf. í samráði við menn, sem voru í Alþýðuflokknum, um það, hvort hægt væri að halda hér uppi kaupfélagi, en það mistókst fyrir okkur. Það er eins vel hægt að játa það. Og ég held, að við munum enga gleði hafa af því að fara að rifja það upp, hv. 2. þm. Eyf. eða ég.

Svo spurði hv. þm., hvað Sjálfstæðisflokkurinn og Alþýðuflokkurinn hefðu gert til að lækka dýrtíðina hér, og hvað t. d. Alþýðubrauðgerðin hefði gert til að lækka brauðverðið í bænum. En það er nú um það að segja, að hún hefir verið „control“ á brauðverðið hér í bænum síðan hún var stofnuð. Hér um árið, þegar rúgmjöl hækkaði í verði og átti að setja brauðverðið mjög mikið upp, kom Alþýðubrauðgerðin í veg fyrir, að það hækkaði eins mikið og annars hefði orðið. Alþýðubrauðgerðin var þá stofnuð, sem gerði það að verkum, að brauðverðið fór ekki eins mikið upp og því hafði verið ætlað, og af því hefir það náttúrlega lækkað seinna en það hefði gert, ef það hefði verið hærra.

Svo kom hv. þm. með samanburð á því brauðverði, sem hér er, og því, sem er á Akureyri, þar sem hin mikla stofnun Kaupfélag Eyfirðinga er mjög stór þátttakandi í verzluninni. Hann sagði, að það hefði sett upp brauðgerðarhús og lækkað brauðverðið að miklum mun. Ég hefi nú reynt að afla mér upplýsinga um þetta. Það mun vera rétt, að skömmu eftir að Kaupfélag Eyfirðinga setti upp sitt brauðgerðarhús, lækkaði það brauðin um 5 aura. En skömmu síðar lækkuðu aðrir kaupmenn brauðverðið að miklum mun, og Kaupfélag Eyfirðinga neyddist þá til þess líka.

Það er rétt hjá hv. þm., að mismunur er á brauðverðinu á Akureyri og í Reykjavík; það er örlítið lægra á Akureyri en hér. Ég hefi kynnt mér þetta, og get tekið rúgbrauð til dæmis; það kostar 15 aura pundið í brauðinu á Akureyri, en 162/3 hér. Það er satt hjá honum, að það er ódýrara á Akureyri en hér. En munurinn er ekki áberandi mikill, þegar þess er gætt, að ýmsir hafa haldið fram, að Akureyri væri fyrirmyndarbær. Þar á allt að vera gott, þrátt fyrir alla erfiðleikana annarsstaðar. En ég hefi nú heyrt, að ástandið á Akureyri sé ekki betra en í öðrum kaupstöðum landsins, þrátt fyrir hina góðu verzlun þar, eftir sögusögn hv. 2. þm. Eyf. og annara, sem sjálfsagt er rétt skýrt frá.

En það er athugandi í sambandi við þetta, að verkalaunin eru talsvert miklu lægri á Akureyri en í Reykjavík. Vinnan er þar talsvert verr borguð, svo að brauðgerðarmenn, sem fá þar 250–300 kr. á mánuði, fá hér nálægt 400 kr. og yfir 400 kr. á mánuði Það er miklu betur borguð hér vinnan, og þar við bætist svo, að bærinn hér er stærri og kostnaður því meiri, t. d. við útsendingu, og meiri kröfur gerðar til vöruvöndunar og annars, m. a. það, að brauðgerðirnar hér hafa bíla við útsendinguna, í stað þess, að notaðir eru sendisveinar á Akureyri. Þetta kostar náttúrlega peninga, en fólkið heimtar þetta og vill borga fyrir það.

Svo þegar á allt er litið, er ekki þessi munur, 12/3 úr eyri á brauðinu, áberandi. En það er munur, það er rétt hjá hv. 2. þm. Eyf., það er munur.

En hv. 2. þm. Eyf. gleymdi að geta þess, að Alþýðubrauðgerðin ætlaði fyrir 2 árum að lækka verð á annari vörutegund, mjólkinni, og hafði komizt að samningum við mjólkurbú fyrir austan fjall um ákveðið mjólkurmagn fyrir lægra verð en annars var þá á mjólk. En þá kom samvinnufélag bænda og sagði við þá, sem þennan samning höfðu gert, að þeir væru að splundra samtökum bænda. Og þetta samvinnufélag sagði við þá: „Ef þið haldið þessa samninga, skulum við eyðileggja ykkar samtök“. Og árangurinn varð sá, að þeir neyddust til að brigða þennan samning, og mjólkurverðið stóð í stað, af því að samvinnufélagið greip inn í og eyðilagði lækkunarsamninginn. Svo þegar út í þessar umr. er komið, sýnist svo sem „ýmsir eigi högg í annars garð“. Og hv. 2. þm. Eyf. getur ekki neitað því, að það hefir verið mest skrafað í hans flokki um dýrtíðina í Reykjavík, og fyllilega bent á, að hann yrði að taka að sér að lækka hana. Og sérstaklega er það hv. 5. landsk., sem hefir látið sem hann væri sá kjörni maður til að lækka þessa dýrtíð. Ég býst við, að það stafi af þessu, að hann fékk alveg ótrúlega mörg atkv., þegar hann bauð sig fram hér í Reykjavík í vor. — En mér þykir nú „verkin tala“ öðruvísi hér á þinginu en búast hefði mátt við eftir umr. fyrir kosningarnar.

Hv. 1. landsk. hefir ekki sagt neitt, sem hefur mér tilefni til að svara hans ræðu, annað en það, að hátt kaupgjald væri einn liður í dýrtíðinni. En af því að hann tók það skýrt fram, að hann legði engan dóm á það, hvort það væri of hátt eða ekki, sé ég ekki ástæðu til að ræða um það. Hitt er vitanlegt, að okkur greinir á um stefnuna í þessu máli, og getum við því ekki átt samleið í því að fella frv. Hv. þm. vill laga það, en fellst á skattastefnuna, sem í frv. felst, þá, að taka verulegan hluta af tekjum ríkissjóðs á þennan hátt, en ég vil fella frv. Um það er auðvitað ekkert að segja; það eru andstæðar skoðanir, eins og vitanlegt var.

Þá er það hæstv. forsrh., sem var að leggja mér þá skyldu á herðar að benda á aðrar leiðir til tekjuöflunar til að fylla það skarð, sem yrði við niðurfellingu verðtollsins. Hæstv. forsrh. hefði nú getað sparað sér það, því að hann kom inn á það, að Alþýðuflokkurinn hefir lagt fram í Nd. tekjuaukafrumvörp, og ég mun ekki þurfa að benda honum á það, að þar eru leiðir til að bæta tekjum í það skarð, sem niðurfelling verðtollsins gerir, þó þær komi ef til vill ekki að fullu í hans stað fyrir almenn útgjöld ríkissjóðsins. Ég get því alveg sparað mér að svara því. Hitt, að hæstv. forsrh. var að benda mér á skyldu, sem ég hefði sem þm. til að sjá ríkissjóði farborða, þá er því til að svara, að ég verð sjálfur að vera dómari í því efni. Hæstv. forsrh. getur ekki um það dæmt, og hann þarf ekki að bera ábyrgð á mínu atkv. Ég verð sjálfur að bera þá ábyrgð gagnvart mínum umbjóðendum, sem á mig kemur út af því, að greiða atkv. á móti verðtollinum, og þarf hæstv. forsrh. ekki að taka þá ábyrgð á sig.

Hæstv. ráðh. sagði, að af því myndi leiða, ef verðtollurinn yrði felldur niður, að verzlunarstéttin mundi keppast við að koma sem mestum vörum inn í landið, áður en lögin gengju í gildi. Það mundi því auka mjög innflutninginn, ef flokkarnir ekki kæmu sér saman í þessu máli nú.

Fyrstu verkanirnar af niðurfellingu verðtollsins mundu auðvitað verða þær, að ekkert flyttist inn af vefnaðarvörum til nýárs, því kaupmenn mundu selja út dýrari birgðirnar, sem tollurinn hvílir á, áður en þeir færu að panta nýjar birgðir, sem yrðu ódýrari, af því enginn verðtollur væri á þeim. Því þeir mundu vita, að það kæmu engin lög um nýjan verðtoll fyrr en þing kæmi saman. En það er rétt hjá hæstv. forsrh., að þá gætu komið ný verðtollslög, þó það færi vitanlega eftir þeim stuðningi, sem hv. andstæðingar hans kynnu að veita honum. En það yki aldrei innflutninginn mikið vegna þeirrar kreppu, sem er, þó það kynni að gera það eitthvað lítillega. Vitanlega kynni að vera, að menn gætu fengið einhver vörulán erlendis, en það verður aldrei mikið, sem menn gætu flutt inn á þann hátt. En nú greiði ég ekki atkv. á móti verðtollinum til þess, að annar verðtollur kæmi seinna í staðinn. Ég ætlast til, að það komi ekki fram verðtollsfrv. eftir nýár, því þá væri þýðingarlaust að fella hann nú. Einu verkanirnar, sem afnám verðtollsins geta haft, er mjög takmarkaður innflutningur á þessum vörutegundum til nýárs, og síðan eðlilegur innflutningur úr því. Og hæstv. ráðh. getur ekki neitað því, að niðurfelling verðtollsins er einn þátturinn í því að lækka dýrtíðina í landinu.

Þá fór hæstv. ráðh. í hálfgerða bónorðsför til Sjálfstæðisflokksins. Það kemur mér nú að vísu ekki mikið við. Hæstv. ráðh. var mjög mjúkur í máli og minntist á fyrri velgerðir síns flokks við hv. 1. landsk., þegar hann átti að sjá um fjármál landsins. Nú, það fór nú vel á með þessum hv. þm., svo vel, að þetta samtal þeirra yfir borðin hér í hv. d. í gær minnti mig á atvik úr einni íslenzkri riddarasögu, þegar einn mikill stríðsmaður á Heljarslóð átti að etja við ofurefli liðs og fór á fund fornrar vinkonu sinna, sem átti yfir miklu liði að ráða, gerði sig blíðan við hana og sagði: „Nú virðist oss sem öðruvísi muni á fundum standa heldur en í Skerborg seinast; manstu það Viktoría, að þá kystumst við bæði af vináttu og blíðu, og það hugði ég sízt þá, að þú mundir ganga í óvinaflokk mér á móti“. Jú, Viktoría mundi kossana og öll ástaratlotin og kvaðst aldrei mundu bregðast honum.

Það fór eitthvað svipað fyrir hv. 1. landsk. Hann viknaði við endurminningarnar um liðna sælu í sambandi við hæstv. ráðh. frá fyrri árum og lýsti sig, eins og Viktoría við stríðsmanninn, fúsan til viðtals við hæstv. stj. um þessi mál.

Ég geri ráð fyrir, að þetta viðtal hafi farið fram í nótt, en hvort hv. 1. landsk. var eins kröfuharður við stj. og Viktoría drottning við stríðsmennina, að hann krefðist þess, að 1200 sjálfstæðismeyjar mættu kjósa sér 1200 framsóknarmenn, veit ég ekki. Býst ég við, að samkomulag hafi orðið og að frv. sigli hraðbyri gegnum þingið, þó að ég muni greiða atkv. á móti því.