31.07.1931
Efri deild: 17. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 750 í B-deild Alþingistíðinda. (517)

5. mál, verðtollur

Jón Þorláksson:

Hv. 2. þm. Eyf. þótti ég halda nokkuð langa ræðu í þessu máli, og virði ég honum það til vorkunnar. Ég minntist þar á ýmislegt, sem segja mætti, að ekki kæmi málinu beinlínis við, og hefir hv. 2. þm. Eyf. auðsjáanlega fundizt óþægilegt, að það væri dregið inn í umr. En þó held ég ekki, að ég hafi sagt neitt það, sem ónauðsynlegt var að segja. Gæti ég sagt meira um það, hver óhæfa það er, hvernig farið er með fé landsins, hvernig fjárveitingavaldið er tekið frá Alþingi og fjárhag landsins siglt í öngþveiti, án þess að nokkur árangur sjáist af því fyrir landsmenn. Annars vil ég sleppa því að fara lengra út í þá sálma, því að ég fæ tækifæri til að minnast nánar á það síðar.

Út af því, sem hv. 2. þm. Eyf. sagði um brtt. mína á þskj. 140, er það að segja, að hann virðist ekki hafa verið búinn að íhuga hana nákvæmlega og að það er eins og hún hafi snert skapsmuni hans. Sagði hann snemma í ræðu sinni, að tilgangur hennar væri sá, að gera tveimur aðalatvinnuvegum landsmanna, landbúnaði og sjávarútvegi, erfiðara fyrir. Næst sagði hann, að till. hefði engin áhrif á dýrtíð í Reykjavík, en í þriðja lagi, að ætlunin með till. væri að lækka fiskverð fyrir framleiðendunum. Það ætti þó að hafa áhrif á dýrtíðina, að fiskverðið lækkaði. Í fjórða lagi sagði svo hv. þm., að till. hefði engin áhrif á vöruverð. Er hann þar með aftur kominn gegnum sjálfan sig. Samanber þá niðurstöðu hagstofunnar, að vöruverð í Reykjavík sé yfirleitt lægra en annarsstaðar á landinu. Getur hv. 2. þm. Eyf. farið til hagstofustjóra og aflað sér upplýsinga um þetta, ef honum er það ekki kunnugt. Held ég, að Reykvikingar geti ekki verið því mótfallnir, að slíkur samanburður sé gerður. Vísitölur hagstofunnar sýna, að verðlag á innlendum vörum í Reykjavík hefir ekki lækkað að sama skapi og á útlendum vörum. Dýrtíð er í Reykjavík aðallega á innlendum vörum og svo vörutegundum, sem hagstofan kallar blandaðar, en það eru útlendar vörur, sem að einhverju leyti eru fullkomnaðar hér á landi.

Hv. 2. þm. Eyf. lét líka í veðri vaka, að dýrtíðin stafaði einungis af verðtollinum. Fór ég dálítið út í þetta mál, til þess að sýna, að dýrtíðin stafar einungis að litlu leyti þaðan. Hélt ég, að ég hefði gert það mál ljóst. Brtt. mín gengur ekki svo langt, að verðtollur verði afnuminn á öðru en matvörum. Held ég, að brtt. mín, ef fram næði að ganga, myndi lækka vöruverð nokkuð, bæði í Rvík og á landinu yfirleitt, ekki mjög mikið, en þó dálítið. Bar ég fram till. sem prófstein á það, hvort hv. þm. þessarar deildar vilja í rauninni lækka dýrtíðina hér, eins og ætla mætti eftir tali þeirra og ummælum bæði í blöðum og á kjörfundum.

Hv. 2. þm. Eyf. endurtekur þá skökku hugsun hæstv. forsrh., að afnám tolla leiði til aukins innflutnings á þeim vörutegundum, sem tollur er afnuminn af. Þetta er misskilningur. Það, sem hvetur menn til aukins innflutnings, er ekki vitneskja um það, að tollur falli burt á vörutegundinni, heldur óttinn við það, að nýr tollur verði lagður á hana. Afnám tolla dregur því þvert á móti úr innflutningnum í bili.

Út af ummælum hv. 2. landsk. hefi ég fátt að segja. Fannst mér þar kenna dálítillar afbrýðisemi út af samdrætti sjálfstæðismanna og framsóknarmanna. Þó að ég viti, að erfitt er að útrýma afbrýðisemi, vil ég fullvissa hv. 2. landsk. um það, honum til hugarhægðar, að ekkert samtal hefir farið fram á þeim sólarhring, sem liðinn er frá síðasta þingfundi, milli forsrh. og mín um þetta mál. Reyndar er ekki ólíklegt, að hræðslan um, að slíkt samtal kunni að standa fyrir dyrum, muni trufla sálarrósemi hans.

En svo að við sleppum nú öllu spaugi, þá er það alvaran í þessu máli, að stj. hefir enga aðstöðu til að biðja Alþingi um framlengingu á þessum tekjustofni, nema hún færi þinginu tryggingu fyrir því, að horfið verði frá þeirri braut undanfarinna ára, þar sem látið var eins og fjárveitingavaldið væri ekki lengur hjá Alþingi. Þingið getur ekki haldið áfram að nota skattaálöguvaldið eins og lög mæla fyrir, en sleppa eftirliti um það, hvernig því fé er varið, sem veitt er. Þetta tvennt verður að fylgjast að. Í þessu efni er nú svo langt komið, að ég gat ekki gengið fram hjá því að minnast á nauðsyn þess að gera einhverjar ráðstafanir til þess að tryggja fjárveitingavald Alþingis.