31.07.1931
Efri deild: 17. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 752 í B-deild Alþingistíðinda. (518)

5. mál, verðtollur

Einar Árnason [óyfirl.]:

Ég þarf ekki margt að segja um það, sem fram hefir komið hjá hv. þm. þeim, sem tekið hafa til máls út af ræðu minni í gær. Er það ekki ætlun mín að fara að leggja út í neinar deilur um dýrtíðina í Reykjavík. En ekki hefi ég getað sannfærzt um það af því, sem fram er komið í málinu, að þessi till., sem hér um ræðir, myndi gera mikið til þess að lækka dýrtíðina í Rvík. Hv. 2. landsk. tók það líka réttilega fram, að hv. 1. landsk. og flokkur hans hefðu ekki gert margt til þess að lækka þessa dýrtíð. Viðurkenndi hann þar með, að dýrtíð væri hér til, sem vinna þyrfti á móti og hægt væri að sporna við. Hefi ég þó ekki orðið var við það, að hér á þingi hafi komið fram till. í þá átt frá hv. flokkum l. og 2.ljandsk., nema þá þessar till., sem hér liggja fyrir, en eins og ég tók fram í gær, held ég, að þær muni lítið gagn gera. Hv. 1. landsk. talaði um mótsagnir í ræðu minni, en ég held, að hann gripi til þess ráðs af því, að hann á örðugt með að rökstyðja till. sína á þeim grundvelli, sem hann reynir.

Þegar talað er um framleiðslu í landinu, er skiljanlegt, að mönnum detti í hug, hvort ekki væri eðlilegt, að við færum að sem aðrar þjóðir, að hlynna með löggjöf að þróun innlendrar framleiðslu. Vil ég í þessu sambandi benda á toll þann, sem Finnar settu á erlenda síld, svo háan, að ómögulegt er þar fyrir aðra að flytja síld inn í landið. Skýtur því nokkuð skökku við hjá hv. 1. landsk., að eina úrræði hans skuli vera það, að gera tilraun til að gera atvinnuvegum landsins þyngra fyrir. Benti ég í gær á aðrar leiðir, er lægju nær. Get ég látið þau orð falla í garð hv. l. landsk. að því er til verzlunarinnar kemur, að nær væri að vinna að lækkun vöruverðs á þeim grundvelli, að verzlun yrði rekin á heppilegri og skipulegri hátt en nú er. Í hinum mörg hundruð verzlunum, sem nú eru í Reykjavík, stendur fjöldi fólks aðgerðarlaus mikinn hluta af vinnutímanum, af því, hve lítið er verzlað. Betra skipulag myndi geta létt mikið undir með þessum verzlunum, sem oft eru mjög illa stæðar, af því hve rekstrarkostnaður er mikill, húsnæði dýrt o. s. frv.

Ég drap á það í gær, að verðlag á erlendri vöru er í Reykjavík hærra en úti um land. Hv. 1. landsk. mótmælti þessu, en til þess að gefa honum tækifæri til að athuga þetta nánar, vil ég leyfa mér að lesa upp verðlag á nokkrum vörutegundum í Reykjavík eftir Hagtíðindunum, og svo verð sömu vörutegunda hjá Kaupfélagi Norðurlands. (JónÞ: Það væri vissara, að hvorttveggja væri tekið eftir Hagtíðindunum). Ef hv. 1. landsk. vill rannsaka þetta mál og hrekja það, sem hér er farið með, þá er honum það heimilt.

Vörutegund

Verð í Rvík

Kaupfél. Norðl.

Rúgmjöl

0.31 kr. 1 kg.

0.23 kr. 1 kg.

Hafragrjón

0.50 — —

0.40 — —

Hveiti

0.46 — —

0.35 — —

Hrísgrjón

0.56 — —

0.40 — —

Sagógrjón

0.81 — —

0.60 — —

Bankab.mjöl

0.75 — —

0.32 — —

Heilbaunir

0.88 — —

0.36 — —

Rúsínur

1.60 — —

1.20 — —

Sveskjur

1.45 —

1.00 — —

Læt ég hér við sitja, þó að vel hefði mátt taka fleiri vörutegundir til dæmis. Tek ég það ekki gott og gilt, því að hv. 1. landsk. lýsi hér yfir einu eða öðru, en vil heldur láta tölurnar tala. Sé ég ekki ástæðu til þess að fara nánar út í þetta, en vil aðeins segja það, að mér fyndist æskilegt, að innlendar vörur gætu orðið ódýrari í bæjunum en nú er. Er oftast nær mjög mikill munur á því, sem bændur fá fyrir afurðir sínar, og því, sem borgað er fyrir þær í bæjunum. Væri nauðsynlegt að athuga, hvort flutningskostnaður og annað slíkt, er hleypir upp vöruverðinu, getur ekki minnkað. Álít ég, að bæði 1. og 2. landsk. ættu að vinna að þessu máli, og er hér ærið verkefni fyrir þá og flokka þeirra. Fiskverð er t. d. oft 100% hærra hér í Rvík en það, sem fyrir fiskinn fengist á erlendum markaði. Get ég ekki séð, að óhjákvæmilegt sé að búa við slíkt skipulag, og held ég, að vel mætti eitthvað við því gera. Flokkar þessara tveggja hv. dm., sem minnzt hefir verið á, eru ráðandi flokkar hér í Reykjavík, og væri full ástæða til þess að vænta þess af þeim, að þeir væru búnir að gera eitthvað í þessa átt. Þá mætti og minnast á brauðverðið í þessu sambandi. Var það fullyrt í opinberu blaði nú fyrir skömmu, að brauðverð væri hér í Rvík 10–15% hærra en úti um land, og væri ekki vanþörf á því að athuga, hvort það gæti ekki lækkað eitthvað. Það virðist sem brauðið ætti að geta verið töluvert ódýrara hér en annarsstaðar á landinu, því að hér er svo margt neytenda brauðsins, að hér ætti að geta þrifizt stórt brauðgerðarhús, sem mundi lækka framleiðslukostnaðinn að miklum mun frá því, sem nú er. Er þarna einnig verkefni fyrir þá flokka, sem eitthvað vilja gera til þess að létta mönnum lífsbaráttuna hér í Reykjavík.