31.07.1931
Efri deild: 17. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 755 í B-deild Alþingistíðinda. (520)

5. mál, verðtollur

Jón Þorláksson:

Ég held,að ég hafi látið það nægilega skýrt í ljós, í hvaða átt ég óskaði eftir, að þær tryggingar færu, sem ég tel þinginu nauðsynlegt að heimta fyrir því, að það fengi aftur í sínar hendur fjárveitingavaldið, og sé ég ekki ástæðu til að endurtaka það nú út af fyrirspurn hv. 2. þm. Árn. Aðeins má minna á það, að ein leið að því marki hefir þegaur verið orðuð í tillöguformi af sjálfstæðismönnum í Nd. við 2. umr. fjárl. þar, en sú till. náði ekki samþykki. En náttúrlega má halda áfram að ræða um þetta, annaðhvort í sambandi við þetta mál eða eitthvað annað.

Úr því að ég stóð upp á annað borð, vildi ég segja það út af verðsamanburði hv. 2. þm. Eyf., að ég get ekki tekið hann gildan, vegna þess að ég hefi enga tryggingu fyrir því, að þar hafi verið um sambærilegt verð að ræða. Það er kunnugt, á hverju smásöluverð Hagtíðindanna byggist. Þar er miðað við verð vörunnar útvigtaðrar í smæstu einingum og útbúinnar í smæstu umbúðum, eins og hún kostar heimsend til kaupanda. Slík er verzlunartízkan hér, af því að fólkið vill hafa hana svona. Kaupfélagsverðið, sem hv. 2. þm. Eyf. kallaði svo, getur hins vegar verið miðað við vöruna í stærri einingum, kossum eða pokum, afhentum í vörugeymsluhúsi seljanda, og er hér þá ekki um sambærilegt verð að ræða. Það hefði því verið réttara af hv. þm. að láta hagstofuna gera þennan samanburð, eins og einu sinni hefir reyndar verið gert áður, og kom þá í ljós, að verð útlendu vörunnar var tiltölulega lægst hér á staðnum. Ég skal játa það, að þetta er ekki full sönnun þess, að samanburðurinn yrði eins nú, en mér er nær að halda, að svo mundi reynast. Að öðru leyti skal ég ekki fara út í hugarhrellingar hv. 2. þm. Eyf. út af ástandinu hér í Reykjavík, en það er nú samt einu sinni svo, að þeim mönnum af íslenzku þjóðerni, sem dvelja hér á landi, þykir skást að dvelja hér í Reykjavík. Þar sem hv. þm. var að lýsa eftir því, hve lítið hefði verið gert fyrir Reykjavík í þá átt, sem hann vildi gera láta, á undanförnum árum, vil ég leyfa mér að minna þennan hv. þm. á það, að það er einmitt hans flokkur, sem farið hefir með stj. í landinu á þessu tímabili, og ef ekkert hefir verið gert, er það fyrst og fremst þessarar stj. að svara til sakar í því efni.