05.08.1931
Efri deild: 21. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 759 í B-deild Alþingistíðinda. (527)

5. mál, verðtollur

Jón Þorláksson:

Við 2. umr. þessa máls sagði ég, að varhugavert væri að láta þá stj. fá til umráða tekjur þær, sem þetta frv. veitti ríkissjóði, sem hefir farið svo ógætilega og óráðslega í að nota tekjur ríkissjóðs, sem til falla umfram áætlun fjárl. Ég gerði þá ráð fyrir, að það yrði að koma breyt. á þetta og að þingið yrði að gera nú ráðstafanir til að draga fjárveitingavaldið aftur í sínar hendur, með því að setja einskonar hemil á það, hvernig stj. gæti ráðstafað fé án fjárveitinga milli þinga. Það virtist svo í umr., að hæstv. forsrh. tæki heldur liðlega í þetta. Hann bauð upp á samtal um þetta milli umr. Það hefir verið reynt að ná samkomulagi við hann um að fá einhverskonar tryggingu hjá honum gegn þessu, sem ég nefndi, en hingað til hafa þær tilraunir ekki borið árangur. Nú er þetta frv. til 3. umr. og það hefir orðið ofan á hjá mér og mörgum öðrum sjálfstæðismönnum, að þó að sú stj., sem sat síðasta kjörtímabil og ennþá situr að nokkru leyti, hafi sýnt óvenjulega ógætni í meðferð ríkisfjár, þá viljum við ekki setja það á oddinn á þessu stigi málsins að neita henni í eitt ár um framhald á þessum tekjustofni, þó ekki hafi ennþá náðst samkomulag um tryggingu Alþingi til handa fyrir því, að fjárveitingavaldið verði ekki áfram dregið úr höndum þingsins. Nú liggja fyrir þinginu 2 önnur mál, sem hlutast að þessu sama efni, eða a. m. k. gefa tilefni til að taka þetta sama málefni upp. Annað er náttúrlega fjárlögin sjálf, þar sem setja má ákvæði þessari misbrúkun til varnar, og hitt er frv., sem fer fram á að binda nokkuð hendur stj. um notkun tekjuafganga, sem verða kynnu. Við höfum þess vegna viljað sýna þá tilhliðrunarsemi að lofa þessu máli að ganga sinn gang, og eiga svo við um nauðsynlegar tryggingar fyrir Alþingi til að ráða meðferð ríkisfjár við meðferð þessa frv. og fjárl. í Nd. Að við erum fúsir til samkomulags, stafar að nokkru leyti af því, að náðst hefir samkomulag í stjórnarskrárn. hér í d. um að taka til meðferðar það mál, sem Sjálfstæðisflokkurinn skoðar nú sitt aðalmál, umbætur á skipun Alþingis og breytta kjördæmaskipun, og að skipa nefnd, eins og stj. hefir stungið upp á, í þessu máli. Ég ætla svo ekki að orðlengja frekar um þetta mál að sinni, en af þessum ástæðum vill Sjálfstæðisflokkurinn hér í d. ekki setja sig á móti því, að stj. fái þær tekjur næsta árs, sem frv. þetta gerir ráð fyrir.