05.08.1931
Efri deild: 21. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 763 í B-deild Alþingistíðinda. (531)

5. mál, verðtollur

Forsrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Hv. 2. landsk. talaði nokkuð um skattastefnur og hvaða samþykktir hefðu verið gerðar á flokksþingi framsóknarmanna nú í vetur, og taldi, að við værum nú horfnir frá þeim samþykktum. Ég vil benda hv. þm. á það, að hér er aðeins um bráðabirgðaráðstöfun að ræða, þar sem hér er aðeins farið fram á framlengingu á verðtolli um eitt ár, en ekki verið að marka neina varanlega stefnu í þessum málum.

Ef við förum dálítið aftur í tímann, eða til ársins 1928, og athugum, hvernig þessum skatti var komið á, þá mun það koma upp úr kafinu, að enginn ágreiningur var í máli þessu millum Framsóknarflokksins og jafnaðarmanna, og við komum þessum skatti á í mesta bróðerni. Þess vegna verður útkoman sú, að ef hv. þm. vill ásaka okkur fyrir íhaldssemi í skattamálum, þegar við nú viljum framlengja þennan skatt um eitt ár, þá verður hann í sömu fordæmingunni fyrir að hafa stuðlað að því, að þessi byrði væri lögð á þjóðina til þriggja ára.

Annars hefir nú sú orðið raunin á, að það er erfitt að skipuleggja skattamálin, og einkanlega mun það reynast svo í þjóðfélagi eins og okkar, sem er í vexti og allt breytingum undirorpið, enda hygg ég, að þá hljóti aðeins að vera um bráðabirgðalöggjöf að ræða, en ekki ófrávíkjanlega stefnu.