05.08.1931
Efri deild: 21. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 767 í B-deild Alþingistíðinda. (534)

5. mál, verðtollur

Jakob Möller:

Það getur farið vel á að tala um skattamálastefnur í þessu sambandi, en menn mega ekki tapa sjónar á því, að hér er aðeins um bráðabirgðaráðstöfun að ræða, en enga varanlega stefnu. Mér finnst það sitja hálfilla á hv. 2. landsk. að vera að núa öðrum flokkum því um nasir, hversu illa þeir hagi sér undir kringumstæðum sem þessum, því að þessi neyðarráðstöfun var fyrst tekin upp, þegar fjárhagur ríkisins var kominn í hið mesta öngþveiti, og einmitt nú stendur eins á með það, og á því á hv. 2. landsk. og hans flokkur sína sök, því að undanfarið hafa þeir látið stj. haldast uppi fjáraustur á bæði borð og stutt hana í sessi. Það er öllum kunnugt, að þrátt fyrir undanfarin góðæri er nú ríkissjóðurinn svo tæmdur, að það verður svo að segja að lána fé til daglegra útgjalda, –og hverjum er þetta ástand að kenna öðrum en þeim, sem stutt hafa stj. í fjárbruðli hennar á þessum góðu árum? Annars vil ég segja hv. 2. landsk. það, að ef hann er að ásaka sjálfstæðismenn fyrir að vera linir í sókn í kjördæmaskipunarmálinu, þá vil ég vísa þeim ummælum aftur til föðurhúsanna. Hitt er annað mál, að það getur nokkuð dregið úr sókn flokksins í þessu máli, að hann hefir þann bandamann sér við hlið, sem erfitt er að treysta, sökum þess að ekki er hægt að finna, að þar fylgi hugur máli og að hann muni standa fast við þær kröfur, sem gerðar voru.

Þegar hv. 2. landsk. talar um það, að við sjálfstæðismenn séum að svíkjast undan merkjum með að samþ. þetta frv., þá vil ég einnig benda honum á það, að hann og hans flokkur virðist reiðubúinn að veita hæstv. stj. nóg fé í hendur, og nægir þar að vísa til þeirra frv., sem þeir hafa borið fram og nú liggja fyrir hv. Nd. Það er alkunnugt, að Sjálfstæðisflokkurinn hefir ætlað sér að koma fram kröfum sínum um réttláta kjördæmaskipun, og til þess notar hann vitanlega aðstöðu sína hér í þessari hv. d., og þar sem vitað var, að þessi hv. þm. ætlaði að greiða atkv. gegn þessu frv., þá var auðvitað sjálfsagt að nota það tækifæri, sem hér gafst, til að knýja stj. til nokkurrar tilhliðrunarsemi í meðferð kjördæmamálsins. Annars vil ég benda hv. þm. á það, að þetta frv. kemur aftur fyrir næsta þing, því að hér er aðeins um framlengingu um eitt ár að ræða, og þá mun reyna frekar á þolrif hans viðvíkjandi kröfunum um bætta kjördæmaskipun. Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða mál þetta frekar; hér er ekki um neina skattastefnu að ræða, heldur aðeins neyðarráðstöfun til bráðabirgða. Þetta veit hv. 2. landsk., þótt hann látist ekki vita það, og því sé ég enga ástæðu til að svara honum nánar.