05.08.1931
Efri deild: 21. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 768 í B-deild Alþingistíðinda. (535)

5. mál, verðtollur

Guðrún Lárusdóttir:

Ég skal ekki eyða löngum tíma fyrir þessari hv. deild. Það stendur einhversstaðar skrifað, að það sé ekki ráðlegt að breyta á móti sannfæringu sinni, og mín sannfæring í þessu máli er sú, að verðtollur sé ranglátur, sökum þess að hann tekur jafnt til þeirra, sem ekkert eiga, og hinna, sem eiga gnægð fjár, og í slíkum álögum er vitanlega ekkert réttlæti. Ég get því ekki greitt atkv. með þessu frv., og það því síður, þegar ekki er enn vitað, hverjir þeir munu verða, sem stjórn skipa, og þá er heldur engin trygging fyrir því fengin, hvernig með féð verður farið. Tvær millj. króna er mikið fé; a. m. k. mun þeim öllum þykja það mikið, sem ekki hafa fundið lyktina upp úr kjötpottum landsins, og ég get tæplega talið það forsvaranlegt að samþykkja að leggja slíkan toll á þjóðina. Ekki get ég heldur séð, að það bæti mikið úr skák, þegar meiri hl. þings gefur þá yfirlýsingu, að stj. sé ekki bundin við fjárlögin, heldur megi hún fara eigin ferða án þess að taka tillit til fjárlagaákvæða Alþingis. Af þessum ástæðum mun ég greiða atkv. gegn þessu frv.