14.08.1931
Neðri deild: 29. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 790 í B-deild Alþingistíðinda. (547)

5. mál, verðtollur

Magnús Guðmundsson:

Mér dettur í hug; í tilefni að ræðu hv. þm. Seyðf. að rifja upp sögu þeirra laga, sem hér er ætlazt til, að verði framlengd um 1 ár.

Árið 1924 var fjárhagur ríkissjóðs ákaflega þröngur, og var þá tekið til þess ráðs að samþ. l. um bráðabirgðaverðtoll, sem áttu að gilda til ársloka 1925. Á þinginu 1925 var l. breytt með því að gera skiptingu á vörunum í 3 flokka, og skyldu þau gilda til ársloka 1926. Á þinginu 1926 voru enn sett lög um verðtollinn, sem áttu að gilda til ársloka 1929.

Með þessum l. var verðtollurinn lækkaður að talsverðum mun, enda hafði fjárhagur ríkisins þá stórbatnað, svo þáverandi stjórnarflokki fannst sjálfsagt að slaka til á sköttunum, enda ættu skattþegnarnir beinlínis kröfu til, að skattar lækkuðu, þegar kreppan minnkaði, en hún var nú horfin. En það var ekki eingöngu verðtollurinn, sem var lækkaður, heldur var einnig afnuminn gengisviðaukinn á vörutollinum. Þessar tvennar skattalækkanir, sem gerðar voru 1926, voru talsvert miklar, og sýndist Sjálfstæðisflokknum ekki ástæða til að íþyngja landsmönnum með sköttum, sem komizt yrði af án. En þrátt fyrir þessar skattalækkanir var þó verklegum framkvæmdum haldið uppi með fullum krafti.

Svona stóð í þessu efni fram til kosninga árið 1927. Eftir kosningarnar myndaði Framsóknarflokkurinn stjórn. Strax á þinginu 1928 fékk hún því til leiðar komið, að veruleg hækkun varð á verðtollinum, og skyldi hún gilda til ársloka 1930. Á þinginu 1930 voru þau lög framlengd til ársloka 1931, og enn á ný bar svo hæstv. stj. fram frv. á þessu þingi um að framlengja þessi lög um 2 ár. Í hv. Ed. varð sú breyting á frv. hæstv. stj., að nú er hér aðeins um framlengingu að ræða í 1 ár, eins og frv. liggur fyrir þessari hv. d.

Um afstöðu hv. jafnaðarmanna til verðtollsins á þinginu 1928 hefir nú hæstv. forsrh. rætt, og hefi ég þar litlu við að bæta, en skal þó taka það fram, að þeir munu hafa verið honum mótfallnir. En samt gerðist það einkennilega fyrirbrigði á þinginu 1928, er verðtollurinn var hækkaður, að jafnaðarmenn sögðu ekki eitt orð á móti því, enda voru þeir þá í svo miklu vinfengi við hæstv. stj., að þar gekk ekki hnífur á milli.

Jafnaðarmenn sýndu það 1928, að þeir gátu vel horft þegjandi á það, að lagður væri þungur tollur á landsmenn, og það þó ríkissjóður væri þá vel stæður, og miklu betur en nú. Síðan verðtollurinn var lögleiddur, hefir hann gefið tekjur í ríkissjóð svo sem ég nú skal greina:

Árið 1924 gaf hann 897 þús. kr.

— 1925 — — 2085 — —

— 1926 — — 1304 — —

— 1927 — — 957 — —

— 1928 — — 1667 — —

— 1929 — — 2226 — —

— 1930 — — 2268 — —

Þessar tölur sýna það tvennt, að sjálfstæðismenn léttu þennan skatt á landsmönnum stórkostlega, og að í stjórnartíð Framsóknar var hann hækkaður svo, að hann er nú stærsti tekjuliður ríkissjóðs, og nú, þegar um það er að ræða að svipta ríkissjóð þessum sínum stærsta tekjulið á óhentugum tíma, þá er það talsvert alvarlegt mál.

Eins og ég drap á áðan, taldi Sjálfstæðisflokkurinn rétt að leggja þennan skatt á vegna fjárhagsörðugleika ríkissjóðs árið 1924. En hann taldi líka sjálfsagt að lækka hann aftur árið 1926, þegar hagur ríkissjóðs var kominn í gott horf, og reyna smátt og smátt að draga úr sköttunum og skapa festu í skattamálum landsins. En eins og ég líka tók fram áðan, var það eitt meðal fyrstu verka framsóknarstjórnarinnar á þinginu 1928, að hækka þennan skatt aftur jafnmikið og sjálfstæðismenn lækkuðu hann, og á undanförnum góðærum hefir hann hvílt á landsmönnum með öllum sínum þunga, og á síðustu tveim árum verið stærsti tekjuliður ríkissjóðs.

Það hefir oft verið tekið fram í þessu sambandi og öðrum, hversu geysimikið tekjur ríkissjóðs hafa farið fram úr áætlun á undanförnum árum, svo að næstum 15 millj. króna hefir framsóknarstj. haft úr að spila á síðasta kjörtímabili. umfram það, sem ráðgert var. Ætla mætti því, að ríkissjóður hefði digrum sjóði yfir að ráða nú, en svo er þó ekki. Hæstv. stj. hefir verið svo frek til fjárins, að að minnsta kosti 1 millj. kr. tekjuhalli hefir orðið á árinu 1930, því allra tekjuhæsta ári fyrir ríkissjóð, sem komið hefir yfir þetta land.

Nú vita allir, að útlitið er mjög ískyggilegt, mikið verðfall á afurðunum og atvinnuleysi yfirvofandi. Það hefði því verið mjög ánægjulegt, ef við hefðum getað létt eitthvað sköttum af landsmönnum nú. Það hefði verið skemmtilegra nú, að hafa látið þá menn ráða, sem vildu fara gætilega í fjármálastjórn ríkisins. En það hefði verið skemmtilegast, ef við hefðum nú getað sagt við skattþegnana: Ríkissjóður heimtar ekki af ykkur jafnþunga skatta nú og síðastliðin ár. En nú verðum við í þess stað að segja: Það er nú því miður ekki hægt að létta af ykkur sköttunum nú; ríkissjóður þolir ekki tekjumissinn; um það eru allir flokkar sammála.

En það er ekki nóg með það, að ríkissjóður eigi ekkert eftir af tekjum þriggja góðæra, heldur hefir þessi sömu ár verið hlaðið svo miklum gjöldum á ríkið, að það hefir nú lítið umfram brýnustu þarfir ríkissjóðs, þó vel ári, og veldur þar mestu um hin mikla vaxtabyrði af þeim stóru lánum, sem stjórnin hefir tekið á undanförnum árum.

Þessi aðstaða verður að koma til greina hjá hv. þm., þegar þeir eru að afgera, hvort verðtollurinn skuli framtengdur eftir till. hæstv. stj. eða ekki. Sjálfstæðisflokkurinn hefir rætt þetta mál og álítur, að það verði ekki hjá því komizt að verða við þessari beiðni hæstv. stj. í þetta sinn. Ríkissjóður má ekki lenda í þroti. En um leið og þetta frv. er samþ., verður að heimta það af hæstv. stj., að hún fari betur með fé ríkissjóðs framvegis en hún hefir gert hingað til. Hún er búin að pína skattþegnana til þrautar í góðærunum; hún hefir sóað öllu því fé, í stað þess að láta atvinnuvegina fá tóm til að safna varasjóði. Hún hefir verið svo óforsjál að eta upp allar tekjur góðu áranna og geyma ekkert til hinna vondu áranna. Þetta hefir núverandi hæstv. stj. gert, og því er komið sem komið er.

Hv. þm. Seyðf. varði töluverðum tíma til að ræða um skattastefnur flokkanna yfirleitt. Ég vil nú út af því leyfa mér að henda á, að þótt hann sé mótfallinn verðtollinum, þá er langt frá, að hann telji, að ríkissjóður megi nokkurs í missa af tekjum sínum. Hann vill bara leggja á aðra skatta; hann vill stórhækka tekju- og eignarskatt og fasteignaskatt og bæta við nýjum sköttum. Það er svo fjarri honum að vilja létta sköttum af landsmönnum, að hann vill þvert á móti heldur þyngja þá, er verðfall afurðanna veldur því, að hrammur kreppunnar skellur yfir atvinnuvegina með ægilegum þunga.

Þegar ég því greiði atkv. með því, að verðtollurinn verði framlengdur, en hann á móti, gerum við það báðir með þeirri hugsun, að ríkissjóður megi einskis í missa af tekjum sínum.

Skattastefna Alþýðuflokksins hefir oft áður komið til umr. hér í hv. d., og það er þess vegna gömul vísa, sem hv. þm. Seyðf. hefir kveðið hér í kvöld. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að hann heldur fram beinum sköttum, en er illa við óbeinu skattana. Báðar þessar skattastefnur hafa sína kosti og sína galla. Gallanna gætir því meir sem skattarnir eru hærri. Það hefir reynslan sýnt. Ég tel því, að bezt fari á því að sameina báðar þessar stefnur.

Það hefir áður verið sýnt fram á það, að það mun láta nærri, að helmingur allra skatta hér á landi séu beinir skattar. Ég held ekki, að það væri til bóta að raska því hlutfalli. En það er kunnara en frá þurfi að segja, að hv. þm. Seyðf. er mjög fíkinn í að hækka beinu skattana. Hann hefir meira að segja bundizt svo sterkum ástarböndum við þessa stefnu sína, að hann sér ekki neina galla á henni, en fengið svo mikið hatur á tollunum, að hann sér ekkert nýtilegt við þá.

Um alla skatta gildir það, að þeir eru óvinsælir og hvumleiðir þeim, sem þá eiga að gjalda. Af engum skatti má heimta það, að hann sé vinsæll: Á því sviði má ekki leita þeirra kosta. En af því hv. þm. Seyðf. heldur svo mjög fram tekjuskatti, vil ég sýna honum fram á, að þessi skattur hefir vissulega sína galla eins og aðrir skattar.

Það má enginn skilja orð mín svo, að ég sé mótfallinn tekjuskatti, ef hann er í hófi, heldur vildi ég, vegna afstöðu hv. þm. Seyðf., mega sýna fram á, að tekjuskattur er ekki eins hreinn og flekklaus og hv. þm. sýnist ætla.

Mér þykir rétt að taka það hér fram í þessu sambandi, að tekjuskattur er hér hærri en nokkursstaðar annarsstaðar nema hjá þjóðum, sem tóku þátt í heimsstyrjöldinni.

Ég vil þá benda á það, að tekjuskattur er fyrirhafnarsamur fyrir skattgreiðendur og dýr ríkissjóði í innheimtu. Nefna má það, að það er mjög hætt við, að menn komist hjá þessum skatti. Skatturinn er innheimtur eftir á, og verða menn því oft að greiða háan skatt í erfiðum árum, en af því leiðir, að mikið tapast af þessum skatti. Þannig mun á árunum 1926–1929 hafa tapazt hér um bil ½ millj. króna af þessum ástæðum. Þessi skattur er á ýmsan hátt óhentugur ríkissjóði. Hann er mjög misjafn frá ári til árs. Ef það ætti aðallega að byggja á svo óstöðugum tekjustofni, þá gæti það orðið ríkissjóði mjög bagalegt. Atvinnuvegirnir eru misbrestasamir, einkum við sjávarsíðuna. Þeir geta gefið tugi þús. kr. í tekjur, en tapið er oft jafnmikið næsta ár. En nú er því svo farið, að skatturinn af tekjum gróðaáranna á að greiðast á tapárunum. Sanngjarnt væri vitanlega að hyggja á meðaltali síðustu ára. En sú réttlætiskrafa hefir ekki fengið áheyrn hér á landi.

Ég trúi ekki á tekjuskattinn í blindni, eins og hv. þm. Seyðf. virðist gera. En hefi trú á honum að vissu marki, en yfir það má ekki fara. Gífurlegur tekju- og eignarskattur er að vísu auðveld aðferð til eignarnáms. En þá er komið út fyrir grundvöll sjálfrar skattalöggjafarinnar, og er þá farið að nota skattinn til þess að koma fram óviðkomandi málum.

Þá er það annar skattur, sem hv. þm. Seyðf. hefir mikla trú á. Það er fasteignaskatturinn. Ég tel heppilegt að nota hann til þess að gera vegi, eins og sýsluvegasjóðslögin frá 1923 ákveða. Mörg sýslufélög kljúfa þrítugan hamarinn til þess að gera þetta, að bæta vegina. Það er langt frá því, að ég telji, að þing og stj. myndi verja þessu betur. Lögin frá 1923 hafa einmitt sýnt sig að vera hentug til þess að hrinda áfram vegagerðum.

Hv. þm. Seyðf. vék að Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum, að þeir myndu hafa tekið höndum saman til þess að koma fram verðtollinum. Við þessu er því að svara, að allir flokkar eru sammála um, að ríkissjóður má ekki við því að missa af þessum tekjum. Við sjálfstæðismenn teljum verðtollinn hentugri skatt en það, sem hv. þm. Seyðf. hefir á boðstólum. Við vissum vel, að stj. átti kost á öðrum sköttum, ef við hefðum hafnað þessum. Hér er um það eitt að ræða, hvort við eigum að halda þessum eða taka aðra. Þess vegna greiðum við atkv. með þessum.

Hv. þm. Seyðf. talaði eins og þetta ætti eitthvað skylt við kjördæmaskipunarmálið, og að Sjálfstæðisflokkurinn hefði slegið af kröfunum í því máli. En þetta er undarleg hugsunarvilla. Þetta er stjfrv., svo við þurftum ekkert að borga fyrir það, að það gengi fram. En hitt er rétt, að Sjálfstæðisflokkurinn vildi ekki afgreiða málið í Ed. fyrr en séð væri, hvernig færi um kjördæmaskipunarmálið. Það hefir verið notað til þess að fá 2 sjálfstæðismenn, 2 framsóknarmenn og 1 jafnaðarmann inn í nefndina, í stað 1 sjálfstæðismanns og 4 framsóknarmanna, eins og stj. hafði ráðgert. Svo hv. þm. Seyðf. og flokkur hans ættu að vera okkur þakklátir fyrir afskipti okkar af kjördæmamálinu. Og ég veit, að þeir eru þakklátir í hjarta sínu. Það er ekki til neins fyrir hv. þm. Seyðf. að vera að gefa í skyn, að hægt hefði verið að hafa fram þessa breyt. með því að fella verðtollinn. Jafnaðarmenn buðu nóga nýja skatta, þó að þessi hefði fallið.

Tekjur ríkissjóðs 1930 voru um 17 millj. kr. Það er um 170 kr. á hvert mannsbarn í landinu. Þetta svarar til 850 kr. á 5 manna fjölskyldu. Þessi upphæð er svo há, að það er óhugsandi að ná henni inn, nema skattarnir komi oft hart niður. Það hefir því engin áhrif á mig, þó að hægt sé að sýna í einstökum tilfellum, að svo sé.

Við þetta bætast svo skattar til sveitarsjóðanna. Það undrar mig því ekki, þó að fram komi háværar raddir um, að nú verði að lina á sköttunum. Hv. þm. Seyðf. sagði það okkar stefnu að hlífa hátekjumönnunum, en leggjast á lítilmagnann. Þessu til sönnunar sagði hann, að það væru um 1150 menn, sem borguðu meiri hlutann af tekju- og eignarskatti í landinu. Nú er þessi skattur sjaldan undir 1 millj. kr. og oft á aðra millj. Þessi fámenni hópur hefir því greitt þessa upphæð, og sýnist það ekki vera nein hlífð. Hann nefndi, að maður, sem á 100 þús. kr. eign, gyldi 200 kr. í eignarskatt, og hann talaði eins og það væri einasti skatturinn, sem hann þyrfti að greiða. En hann borgar líka tolla, og hann borgar líka tekjuskatt, sem er margfalt hærri en í öðrum löndum, og auk þess útsvar oft mjög hátt.