14.08.1931
Neðri deild: 29. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 796 í B-deild Alþingistíðinda. (548)

5. mál, verðtollur

Haraldur Guðmundsson [óyfirl.]:

Ég hefði viljað víkja máli mínu til hæstv. forsrh. til að byrja með, og þá til hv. 2. þm. Skagf., ef tími ynnist til.

Hæstv. forsrh. hóf ræðu sína á því að beina þeirri fyrirspurn til mín, hvort ég hefði ástæðu til að spyrjast fyrir um stjórnarmyndun. Ég vildi svara með því að spyrja, hvers vegna þetta gengi svo erfiðlega, að þeir þyrftu að fá aðstoð, eða hvort ætlunin væri kannske að bjóða mér einn af ráðherrastólunum. En ég get fullvissað hæstv. ráðh. um það, að ég mynda ekki stjórn með honum. En hann sagði meira. Hann sagði, að ég hefði ekki meiri rétt til að vita þetta en aðrir þm. En hann gætir þess ekki, að öll þjóðin á rétt á að vita þetta. Það er alveg óheyrilegt, að ópólitísk stjórn skuli fara með völd löngu eftir að kosningar eru um garð gengnar og þingið er í þann veginn að hlaupa heim frá störfum sínum.

Hæstv. forsrh. var að gefa okkur þm. reglur um hegðun hér í þinginu. Hann heldur auðsjáanlega, að það sé sín köllun. En ég held, að hæstv. ráðh. væri bezt að taka þetta til sín sjálfur, og reyna að breyta svo, að hans eigin kjósendum væri til hagsbóta, en ekki bölvunar.

Hæstv. ráðh. sagði, að tekin hefði verið upp ný stefna hér í þinginu, þar sem hér hefðu verið greidd atkv. móti fjárl. og LR. fyrir 1929. Taldi hann slíka framkomu ekki rétt samboðna þm. En í fjárl. þeim, sem nú er verið að afgreiða og sem almennt eru kölluð sultarfjárlögin, er gert ráð fyrir, að fé það, sem varið er til nýrra, opinberra framkvæmda, sé tæpur ¼ þess, er verið hefir undanfarin þrjú ár. Þó er nú gengin yfir landið alvarlegasta kreppa, sem komið hefir á þessari öld, að sögn sama ráðh. Og á þessum krepputímum dirfist stj. að. leggja til að reka úr vinnu 3/4 þeirra, er atvinnu hafa haft hjá ríkissjóði. Stjórninni var heimilað að greiða 11 millj. síðasta fjárhagsár. En hún hefir eytt 16 millj. — 5 millj. umfram það, sem ákveðið er í lögum. Og svo vill þessi hæstv. ráðh. fá syndakvittun á eftir! Og svo heldur hann, að sitji á sér að vanda um við þm.! Ef fjárveitingavaldið á að vera í höndum Alþingis, þá á stjórnin að vera bundin við fjárl.

Um stefnu sína í skattamálum talaði þessi hæstv. ráðh. ekki eitt einasta orð. Hann talaði ekkert um stefnu Framsóknar í þeim málum. Þetta ættu aðeins að vera bráðabirgðaráðstafanir vegna kreppunnar. En í hverju koma þessar ráðstafanir fram? Í því, að öllum, sem hafa lítið, á að hjálpa með því að leggja 20% á lífsnauðsynjar þeirra. Hann er að hjálpa bændunum, sem þurfa að kaupa fyrir segjum 200 kr., með því að taka 40 kr. af þeim. Naprara gys er ekki hægt að gera að mönnum, sem eiga bágt.

Þá talaði hæstv. ráðh. um, hvernig afstaða okkar til verðtollsins hefði breytzt síðan 1928. En ég vil minna hann á það, að þegar verðtollurinn var fyrst samþ. 1923, þá greiddi sá eini þm. Alþýðufl., sem þá var á þingi, atkv. móti honum. Hæstv. forsrh. man kannske, að stj., sem sat að völdum 1928, þurfti á hlutleysi að halda til þess að geta setið. Hún fékk þetta hlutleysi. En hann lofaði þá, að lagasetningu yrði breytt um þessi atriði, t. d. að lækka skyldi kaffi- og sykurtollinn.

Mþn. í skattamálum var samþ. hér í þinginu og skipuð til þess að koma fram meira réttlæti í skattamálum en áður. Allt leit líklega út. Ég var ungur og óreyndur þá og trúði því, að einhver vilji væri bak við. En hæstv. forsrh. hefir gabbað fleiri en sína eigin kjósendur. Hann hefir líka gabbað mig. Nú hefi ég fengið reynsluna og veit, hvað leggja má upp úr orðum þessa ráðh. og flokks hans. Skattanefndin er búin að skila af sér störfum. Þar hafa Framsókn og Sjálfstæði látið svo dátt hvort að öðru, að hnífur hefir ekki gengið á milli. Og stj. gengur svo langt, að hún er farin að snapa upp gamlar íhaldsleifar. Hún snapar upp „litla og ljóta“ frv., hvað þá annað. Nú hefir hún fundið upp á því að bæta á verndartollum á fisk, kjöt, mjólk og egg. En þessi verndartollur þýðir ekkert annað en það, að það á að skattleggja verkamenn í kaupstöðum til hagsmuna fyrir bændur.

Ég hefi þá gert grein fyrir, af hverju vinnubrögð okkar hafa breytzt. Það er af því, að hæstv. forsrh. og flokkur hans hafa sem sagt ekki einungis svikið sína eigin kjósendur síðan 1928, heldur og okkur líka.

Spaugsyrði hæstv. forsrh. um innflutning gimsteina og flugelda er ekkert annað en hlægilegur leikaraskapur. Ég er a. m. k. ekki svo mikið barn, að ég vilji leggja 20% á nauðsynjavörur, af því ég sé hræddur við, að annars flytji menn inn gimsteina með of lágum tolli. Þetta er ekki annað en bráðabirgðaráðstöfun, segir hæstv. ráðh. Þetta er alveg út í loftið, úr því að skattan. er búin að ljúka störfum.

Út af skrafi hæstv. forsrh. um vilja Framsóknar til þess að líta í náð til smælingjanna, er ekki þörf á að segja margt. Hann talaði um tóbakseinkasöluna. Hann þarf ekkert að þakka sér, að það mál gekk fram. Það var á valdi Alþýðuflokksmannsins í Ed., hvernig um það færi, og þau skilyrði, sem hann setti, björguðu málinu. Þar ræðir um 1½ millj. til atvinnubóta. Það er að gera gys að sjálfum sér að ætla, að slík upphæð geri verulegt gagn, sérstaklega þegar ferföld sú upphæð er tekin af því fólki, sem kreppan skellur harðast á.