14.08.1931
Neðri deild: 29. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 798 í B-deild Alþingistíðinda. (549)

5. mál, verðtollur

Forsrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Hv. þm. Seyðf. sagðist fyrst ætla að svara mér, en láta auðnu ráða um það, hvort hann svaraði hv. 2. þm. Skagf. Hann hefir nú svarað mér einum, en ekki 2. þm. Skagf. Ef tilgangur hv. þm. hefir verið sá, að auglýsa sérstaka stefnu sína í skattamálum, þá er það ekki heppileg aðferð að láta höfuðandstæðing sinn, hv. 2. þm. Skagf., verða útundan.

Hv. þm. Seyðf. er auðsjáanlega að stofna til kjósendaveiða hjá fólki úti um land, því að nú vex óðum sá flokkur hins vinnandi fólks til sjávar og sveita, sem álítur, að Framsóknarflokkurinn hugsi bezt um hag þess. Þess vegna beinir hv. þm. orðum sínum til mín. Hæddist hann að afstöðu Framsóknar til þessara mála og kvað hjálp okkar við verkalýðinn vera í því fólgna að framlengja verðtollinn. En þetta er nú einmitt sama hjálpin og hv. þm. og flokkur hans veitti verkalýðnum árið 1928. Hörðu orðin eiga alveg eins við um hans flokk þá, ef þau eiga við að þessu sinni. En sannleikurinn er sá, að hvorugir eiga hnjóðsyrðin skilið. Vegna vandræða og örs vaxtar í þjóðfélaginu, hefir ekki enn unnizt tími til að koma lagi á skattamálin.

Hv. þm. sagði enn og dró dár að því, að þetta væri nú 8. árið, sem verðtollurinn væri framlengdur, enda þótt hann hafi í fyrstu ekki átt að vera annað en bráðabirgðaráðstöfun. Ætlar hann að sýna með því, að þetta geti ekki hafa verið hugsað sem bráðabirgðaráðstöfun, fyrst alltaf hefir verið framlengt í 8 ár samfleytt. En hvaða eðlismunur kemur hér til greina, ef þess er minnzt, að hv. þm. tók sjálfur þátt í þessari framlengingu árið 1928, en það var 5. árið? Hér er enginn eðlismunur, því að framlengingin stafar í bæði skiptin af því, að ekki hafði tekizt að koma fastara og réttlátara skipulagi á skattamálin.

Þá sagði hv. þm., að ég hefði gabbað sig 1928. Hann hefði samþ. framlenginguna af þeim ástæðum. (HG: Ég samþ. hana aldrei). Hvað er það annað en að samþykkja, að sitja hjá í deild við umr. málsins og opna ekki munninn? Þó að ég kynni nú að hafa gabbað þennan unga og óspillta mann 1928, hvernig átti ég aftur á móti að geta gabbað reyndan og gætinn mann eins og forseta Alþýðusambandsins, sem verið hefir þm. miklu lengur en ég? Sat hann þá í Ed. og sagði ekki orð á móti samþykktinni. Ég er alls ekki eins slyngur að leika á menn og hv. þm. vill vera láta, enda var ástæðan ekki sú, heldur hin, að Jón Baldvinsson hafði þá ábyrgðartilfinningu 1928, eins og hv. þm. Seyðf. líka hafði þá, að hann sá, að þessa bráðabirgðaframlengingu varð að samþykkja.

Ég vil í framhaldi af þessu beina þeirri spurningu til hv. þm., hvort hann telji ríkari skyldu fyrir jafnaðarmann að vinna að ímynduðum flokkshagsmunum og vilja enga ábyrgð taka á sig eða að láta það vera æðstu skyldu sína að gera ráðstafanir til að bæta kjör hins vinnandi fólks.

Fyrir nokkrum dögum ritaði ég sem fjmrh. undir 300 þús. kr. skuldabréf, og átti þetta fé að fara til þess að reisa fyrir verkamannabústaði. Eins samþykkti Framsókn í Ed. að verja helmingi af ágóða tóbakseinkasölunnar til hjálpar hinu vinnandi fólki. Framsókn vill gera öruggar ráðstafanir til að greiða úr vandræðum fólks í öllum héruðum og hefir í því skyni gert samband við héraðsstjórnir, og vita fulltrúar jafnaðarmanna þetta. Framsókn gengur fram fyrir skjöldu um það að bæta kjör verkalýðs hér á landi.

Ég hefi fulla ástæðu til að beina fyrrnefndri fyrirspurn til þingmanna jafnaðarmanna, því að allir lifa þeir í starfi sínu eftir þeirri reglu að játa ábyrgðartilfinninguna ráða. Hv. 3. þm. Reykv., sem selur þýðingarmikla vöru, sem sé olíu, lánar ekki olíuna takmarkalaust, til þess að draga úr atvinnuleysinu. Hann sýnir ábyrgðartilfinningu, því að hann er duglegur maður og vill sjá fótum sínum forráð. Hvers vegna sýnir þessi þm. ekki sömu ábyrgðartilfinningu á Alþingi og í einkalífi sínu?

Í fyrri ræðu minni leiddi ég hjá mér að svara hv. 2. þm. Skagf., fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, og hnútum hans í garð Framsóknar. Vil ég hér aðeins minna á, að verðtollurinn var upphaflega borinn fram af Sjálfstæðisflokknum sem hallærisráðstöfun í erfiðu ári, þegar líkt var ástatt og nú.