14.08.1931
Neðri deild: 29. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 800 í B-deild Alþingistíðinda. (550)

5. mál, verðtollur

Magnús Jónsson:

Flokkarnir hafa nú lýst stefnum sínum í skattamálum, að svo miklu leyti sem þeir hafa einhverja stefnu, og það hefir verið dregið hér fram, hversu hroðalegar afleiðingar það myndi hafa, ef ríkissjóður yrði sviptur þeim tekjum, sem honum er ætlað að hafa af verðtollinum. En þótt ýmislegt hafi fram komið, sem kynni að vera þess virði að svara því, þá ætla ég samt ekki að verja þessum fáu mínútum, sem mér eru ætlaðar, til þess, enda aðallega kastazt í kekki milli gömlu hjónaleysanna, stj. og jafnaðarmanna, heldur ætla ég að verja þeim til þess að lýsa því með fáum dráttum, hvernig þetta lítur út frá mínum bæjardyrum. Nærri má þó geta, að það verður fátt eitt, sem ég get sagt um þetta geysivíðtæka mál á einum 15 mínútum.

Ég vík þá fyrst að jafnaðarmönnum. Samkv. hreinræktaðri jafnaðarstefnu eru allir skattar óþarfir. Þjóðfélagið á að eiga allt, og allar tekjur, sem til falla, eiga því að vera ríkistekjur, en ríkið miðlar svo aftur því, sem fólkið þarf til lífsviðurværis. En meðan jafnaðarmenn lifa í þessari syndumspilltu veröld auðvaldsskipulagsins, hallast þeir að því, sem þeir kalla „beina“ skatta. En það stafar af því, að þeir vita sem er, að þessir skattar muni fljótast leiða til þess takmarks, sem þeir hafa sett sér. Hvar sem fé safnast saman og fer að skapa möguleika til einhverra mikilla framkvæmda, er um að gera að koma þegar í stað með skattavöndinn á lofti. Einstaklingsfyrirtækin eru rammasta andstæða jafnaðarstefnunnar, og því er ekkert undarlegt, þó að þeir velji þá leiðina í skattamálum, sem bezt er til þess fallin að fæla menn frá þesskonar brölti og jafna á þeim gúlana, ef þeir samt sem áður leggja út í fyrirtækin.

Þetta er sá árangur, sem þeir vænta af sínum háu tekju- og eignarsköttum. Jafnaðarmenn eru óánægðir með það þjóðskipulag, sem vér nú búum við, og þess er því ekki að vænta, að þeir vilji haga sköttum eða öðru eins og hentugast er í þessari veröld. Þeir vilja nýja jörð og þeir miða aðgerðir sínar við þetta. Þeir stefna að þessu marki, ríkisrekstri á öllu, eða eins og þeir oft nefna það, „þjóðnýtingu“, bæði eftir krókaleiðum og beinum brautum. Ein af krókaleiðunum er þessi skattastefna, sem ég nú hefi nefnt, afarháir beinir skattar, og þar með kollvörpun einstaklingsfyrirtækjanna. Og þegar það opinbera hefir þannig komið fyrirtækjunum á kné, þá er hrópað: Sko, þarna sjáið þið. Þetta er nú árangurinn af ykkar marglofaða einstaklingsframtaki.

Í sambandi við þetta sama stendur það, að jafnaðarmenn vilja yfirleitt hafa skatta sem hæsta. Þetta er alveg eðlileg afleiðing þeirrar stefnu, að þjóðfélagið eigi yfirleitt að taka allan afrakstur af vinnu og fyrirtækjum manna og ráðstafa honum. Þetta er ekkert annað en krókaleið að sama markinu.

Þetta gerir það að verkum, að það er yfirleitt erfitt að ræða skattamál við jafnaðarmenn. Því að við viljum byggja okkar skattakerfi á þeim grundvelli, sem er hagkvæmastur okkar þjóðskipulagi, en þeir vilja haga þeim á þann hátt, sem fljótast og öruggast veltir því í rústir. Tilgangurinn verður því sinn hjá hvorum. Við viljum ná nauðsynlegum tekjum í ríkissjóð með þeim hætti, sem atvinnuvegunum er sem hentugast, en þeir eru ekki fyrst og fremst að hugsa um það, heldur eru þeir að mæna á sitt fjarlæga mark, hina komandi Paradís þjóðnýtingarinnar.

Þetta sannast og af því, að hvenær sem þeir geta höndum undir komizt, yfirgefa þeir allar krókaleiðir og fara sínar beinu brautir. Þeir vilja auðvitað helzt taka ríkistekjurnar með beinum atvinnurekstri þess opinbera, og hefir eitt slíkt mál verið á dagskrá í dag, sem er tóbakseinkasalan. Þeir hafa og eðlilega stungið upp á fleiri þesskonar bjargráðum, og má í því sambandi benda á hið mikla 11 milljóna frumvarp jafnaðarmanna, sem nú er fyrir þinginu, sem valda myndi, ef samþykkt væri, mestu bylting í atvinnulífi voru, sem nokkru sinni hefir gerð verið að opinberri ráðstöfun.

Þá vil ég minnast á stjórnarflokkinn. En þar get ég verið stuttorður, því að hann hefir enga stefnu í skattamálum frekar en öðrum þeim málum, sem nú valda átökum í stjórnmálaheiminum, hér sem annarsstaðar. Í stefnunni mun hann þykjast vera með einstaklingsrétti gegn árásum jafnaðarmanna, en í reyndinni velkist hann eins og stýrislaust flak fyrir hinum ýmsu vindum, sem um hann blása. Þannig virðist hann vera til í ríkisrekstur, hvenær sem einhverjar svokallaðar „sérstakar ástæður“ mæla með. Hann er til í að „skipulagsbinda“ eitt og annað og setja höft og hömlur á. Og þá sýnist hann ekki vera tiltakanlega varfærinn um það að gera alla skatta sem hæsta og tefla á fremsta hlunn um getu atvinnuveganna til þess að rísa undir byrðunum.

Gegn stefnu jafnaðarmanna stendur svo stefna sjálfstæðismanna, sem byggir á því að hvetja og örva einstaklingana til framkvæmda og skapa þeim möguleikana og skilyrðin til þess að það megi lánast.

Þegar mikla peninga þarf í ríkissjóðinn, er náttúrlega ekki til neins að gera sér neinar tálvonir um það, að hægt sé að ná þeim sköttum inn án mikilla erfiðleika fyrir atvinnuvegina. Þess vegna verður það fyrsta stefnuatriði sjálfstæðamanna að fara gætilega í fjármálum, ekki til þess að úr framkvæmdum dragi, heldur beinlínis til þess að þær aukist. Því að þó að ríkið geti náttúrlega framkvæmt eitt og annað fyrir, þá skatta, sem það tekur af landsmönnum, og látið þannig „verkin tala“ sjálfu sér til lofs og dýrðar, þá eru þó allar meginframkvæmdirnar á vegum atorkusamra einstaklinga, og það, sem þá hvetur áfram, verður alltaf það happasælasta og mikilvirkasta. — En því miður er nú, með fjármálastjórn, — nei, fjármálaóstjórn undanfarinna ára gersamlega búið að útiloka alla von um vægð eða linun á þeim skattabyrðum, sem nú þjaka þjóðina. Enda hugsa nú ekki þessir herrar eða skrifa um annað en nýja og aukna skatta, og negla þannig einn naglann eftir annan í þá líkkistu, sem þeir, sennilega óafvitandi og í fávizku, eru að smíða utan um jarðneskar leifar okkar efnalega sjálfstæðis.

En úr því sem komið er, verður að reyna að ná þessum nauðsynlegu tekjum á þann hátt, sem minnst raskar atvinnulífinu. Og stefnan verður því að mínu viti að vera:

Í fyrsta lagi sú, að standa móti auknum byrðum.

Í öðru lagi sú, að haga sköttum þannig, að menn séu hvattir til sparsemi. En það verður gert með því að láta sparsemina fá sín laun, þannig, að sparsemdarmaðurinn njóti þess einnig hjá því opinbera, að hann er sparsamur, en hinn óspilunarsami sé frekar rúinn til hagsmuna fyrir ríkisheildina.

Og í þriðja lagi sú, að draga ekki kjark úr þeim, sem vilja leggja í áhættu til þess af afla mikils, né heldur hóta þeim, sem leggur upp peninga sína í stað þess að eyða þeim, með því að taka mikinn part af þessum spariskildingum í skatta, og það þá oft og einatt handa óspilunarsamri stjórn til meðferðar.

Í öllum þessum atriðum greinir okkur á við stefnu jafnaðarmanna, og við stjórnarflokkinn að svo miklu leyti sem hann lætur teyma sig út í vitleysuna.

Þó að menn nú greini þannig á um skattamálastefnur, þá er ekki svo að skilja, að til sé einhver algild aðferð í þessu efni. Allar aðferðir hafa galla, og menn reyna því að synda fyrir skerin með því að dreifa sköttunum og draga þannig úr göllum hvers um sig.

Aðalskiptingin, sem menn hafa viðhaft, er skiptingin í beina og óbeina skatta, eftir því hvort gengið er beint framan að manni og sagt: peningana eða lífið, eins og nú gildir um tekjuskatt, aukaútsvör o. fl., eða sú aðferð er höfð, að krækja í aurana svo að segja án þess að maður viti. Beinu skattarnir er sagt, að eigi að koma niður á mönnum eftir efnum og ástæðum, en hinir lenda á hverjum þeim, sem notar hlutinn, sem tollaður er. Má nefna vörutollinn sem gott dæmi upp á slíkan skattstofn. Eru báðar þessar tegundir skatta notaðar í okkar skattalöggjöf.

Ef við lítum nú á þann skatt, sem hér er til umræðu, verðtollinn, þá má segja, að hann fari í raun og veru bil beggja, og hann hefir, að mínu viti, töluvert af kostum beggja.

Fljótt á litið er hann nokkurskonar nefskattur. Hann er lagður á vöruna, en ekki manninn. Og hann er því jafnhár, hvort sem fátækur eða ríkur kaupir. Ég verð að borga sama toll af sama fataefni, hvort sem skattframtal mitt er 3000 eða 30000 krónur.

En sé nú nánar aðgætt, kemur í ljós, að verðtollurinn kemur í reyndinni út eins og nokkurskonar tekjuskattur. Því að þó hann sé jafnhár fyrir alla á sömu vöru, þá kaupa ekki allir sömu vöru. Sá, sem hefir miklu úr að spila, kaupir e. t. v. fataefni fyrir 100 kr., þegar annar, sem hefir minna umleikis, kaupir sér í föt fyrir 30 kr. Og meira en það. Skattur þessi er mishár. Af nokkrum nauðsynjavörum er hann enginn. Af öðrum er hann fremur vægur. En af beinum óþarfavörum er hann mjög hár. Á þennan hátt verkar hann raunverulega sem tekjuskattur. En hann er laus við suma galla tekjuskattsins, t. d. þann, hve erfitt er að fá rétt framtöl. Hann er líka laus við þann ókost að þurfa að ganga beint framan að mönnum og taka af þeim peningana, því að reynslan er sú, að engir skattar eru óvinsælli. Og svo er hann laus við þann höfuðókost tekjuskattsins, að taka jafnhátt af tekjum manna, hvort sem þeim er varið vel eða illa.

Verðtollurinn er því einskonar tekjuskattur, sem kemur niður á mönnum eftir því, hvort þeir verja tekjum sínum vel eða illa. Hann er sem sé eyðsluskattur fyrst og fremst. Hátekjumaðurinn verður að borga gífurlega háan verðtoll, og það án þess að nokkurt framtal sé af honum heimtað, ef hann sóar sínum miklu tekjum. En ef hann sóar þeim ekki, þá koma þær þjóðfél. að gagni á annan hátt, og það á þann hátt, að það væri tap fyrir þjóðarbúskapinn að taka þær af honum í skatta. Þær lenda sem sé í viðauka við þjóðareignina, þær lenda í fyrirtækjum landsmanna, annaðhvort í fyrirtæki hans sjálfs eða þá í banka, og á þann hátt í fyrirtækjum annara.

Miklar tekjur, mikill afrakstur, er þjóðfél. gagnlegar. Verðtollurinn gengur heldur ekki beinlínis fast að þeim. En um leið og miklar tekjur teyma menn út í óþarfa eyðslu í kaupum á útlendum varningi, verða þær varhugaverðar, enda kemur þá verðtollurinn til af sjálfu sér og háskattar manninn. Verðtollurinn verðlaunar því það, sem er verðlaunavert, og ýmist varar við eða refsar fyrir það, sem er þjóðfélaginu óheppilegt. Hann gefur mönnum það rétta valfrelsi, sem tekjuskatturinn neitar mönnum um. Með honum er sagt við menn: Það getið komizt létt út af þessum skatti, og það án þess að beita nokkrum svikum. En þess er krafizt, að þið gerið föðurlandinu annan greiða í staðinn: þann að vera sparsöm og safna þannig rekstrarfé fyrir þjóðfélagið.

Ég hygg, að fáir skattstofnar henti betur okkar unga og efnalitla þjóðfélagi en einmitt verðtollurinn, því að hann kemst sennilega einna næst því að stuðla að efnaaukning í þjóðfélaginu með áhrifum sínum, en á henni höfum við ríka þörf, með öll óunnu verkefnin fram undan og öll tækifærin til framkvæmda hér í þessu svo að segja ónumda landi. En það skal ég játa, að hann er of hár eins og hann er. Það er núverandi stjórnarflokkur, sem ber ábyrgðina á því að keyra hann upp í þetta hámark, eftir að sjálfstæðismenn höfðu lækkað hann, og þrátt fyrir það, að sjálfstæðismenn bentu á, að ekki var þörf á hækkun. Hann er því óneitanlega mjög þung byrði eins og hann er. Og hart er það, að eftir öll þessi veltiár og með aðra eins kreppu fram undan og nú, skuli ekki vera hægt að lina neitt á skattaskrúfunni, allt fyrir angurgapahátt og ráðleysi stjórnarinnar. En þessa menn, sem hækkuðu verðtollinn um 50% og hafa haldið honum í þessu hámarki og gert ómögulegt að lækka hann, þó að syrti að, þessa menn studdu jafnaðarmenn til valda og héldu hlífiskildi yfir árum saman og styðja óbeinlínis enn. Þessir sömu jafnaðarmenn, sem berja sér nú á brjóst og fella krókódílatár yfir þessum skatti, sem þeir sjálfir eiga svo drjúgan þátt í. Um slíka aðferð á ekkert betur við en hið fornkveðna: Vei yður, þér hræsnarar. Þeir munu ekki verða öfundsverðir af því fylgi, sem þeir fá á svo lélegum málstað.