13.08.1931
Efri deild: 28. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 819 í B-deild Alþingistíðinda. (558)

12. mál, ríkisbókhald og endurskoðun

Frsm. meiri hl. (Ingvar Pálmason):

[óyfirl.]: Þetta frv. er þess efnis að fyrirskipa með lögum, hvernig bókhald ríkissjóðs og ríkisstofnana skuli vera. Frv. þetta var flutt á vetrarþinginu í Nd. Var því þá vísað til fjhn., og hafði hún skilað nál. þegar þingið var rofið, en lengra var málið ekki komið.

Nú hefir fjhn. þessarar d. athugað frv. þetta allýtarlega og er sammála um að leggja til, að gerðar séu á því nokkrar breyt. Þessar brtt. eru á þskj. 264. Þær eru að vísu nokkuð margar, en eru flestar afleiðing af því, að n. lítur svo á, að ekki sé ástæða til að lögfesta það reikningsráð, sem frv. gerir ráð fyrir, að stofnað verði. N. lítur svo á, að á meðan verið er að koma skipulagi á bókhaldið, hafi það svo mikla aukna vinnu í för með sér, að aðalendurskoðanda sé ekki fært að inna það af hendi. En n. álítur, að þá megi láta aðalbókara ríkisins og skattstjórann í Reykjavík starfa að þessu með aðalendurskoðanda. En komi það í ljós síðar, að meiri kröftum þurfi að að skipa, er opin leið að fjölga mönnum. Það gæti komið til mála, að með tímanum yrði endurskoðunarstarfið sérstök skrifstofa í stjórnarráðinu, en að svo stöddu álítur n. ekki ástæðu til þess að bera fram till. um það. N. leggur því til, að felld séu niður öll ákvæði frv. um reikningsráð. Fjalla flestar till. n. á þskj. 264 um þetta. Aðrar breyt. eru smávægilegar og aðallega í því fólgnar að færa til betra máls orðalag frv. Þó er ein brtt. um laun aðalendurskoðanda. N. þótti rétt, að þetta embætti væri hliðstætt skrifstofustjóraembætti í stjórnarráðinu og ákveða launin samkv. því.

Ég sé ekki ástæðu til að fara út í einstakar brtt. Þær eru flestar afleiðing af því að fella niður reikningsráðið, en aðrar smávægilegar orðabreyt.

Ég skal geta þess um brtt. hv. minni hl. á þskj. 275, að n. var öll sammála um frv. og hv. minni hl. hreyfði þar engum brtt. Meiri hl. n. sér því ekkj ástæðu til að fallast á hana, enda þótt hv. minni hl. geri hana að svo miklu atriði, að samþykkt frv. er frá hans hendi bundin því skilyrði, að þessi brtt. nái fram að ganga. Annars ætla ég ekki að minnast frekar á hana fyrr en hv. minni hl. hefir gert grein fyrir henni. — Ég skal svo ekki fjölyrða meira um þetta á þessu stigi málsins.