27.07.1931
Neðri deild: 13. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 103 í B-deild Alþingistíðinda. (56)

1. mál, fjárlög 1932

Jóhann Jósefsson:

Þó að fjvn. sé ætlað klt. hlé til athugunar, þá finnst mér það allt of flaustursleg afgreiðsla. Mér finnst engin þörf að hraða störfum þingsins svo mjög. Hér liggja nú mörg erindi frammi, og þarf að athuga þau gaumgæfilega. –Afgreiðslu fjárlaganna hefir verið hraðað óvenju mikið í þetta sinn, svo að bæði ég og aðrir, sem ætluðu að snúa sér til fjvn., urðu of seinir. Hún var búin að skila áliti fyrr en nokkurn varði. Mér virðist hæstv. forseti allt of hraðfara í þessu máli. Og það hlýtur að verða krafa okkar allra, sem hér eigum brtt., að þær verði athugaðar gaumgæfilega. Ég felli mig ekki við slík vinnubrögð, sem hér virðist eiga að viðhafa, og leyfi mér að mótmæla þeim.