13.08.1931
Efri deild: 28. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 835 í B-deild Alþingistíðinda. (565)

12. mál, ríkisbókhald og endurskoðun

Frsm. minni hl. (Jón Þorláksson):

Ég ætti sjálfsagt að vera hv. 2. þm. Eyf. þakklátur fyrir það, að hann vill ekki taka af mér heiður, en raunar þarf ég hvorki að þakka né vanþakka hv. þm., því að ef ég á þennan heiður, þá situr hann fastur við mig, hvað sem ummælum hv. 2. þm. Eyf. líður.

Það, sem okkur ber á milli, er það, hvort eigi að halda áfram þeirri gætilegu fjármálastefnu, sent þjóðinni hefir verið innrætt, og m. a. lýsir sér í því, að ekki skuli tekin lán til þess að standast samningsbundnar afborganir af ríkisskuldum, heldur skuli aflað tekna til þess að greiða þær með. Hvort er í sjálfu sér rétt eða rangt, er ómögulegt að segja um. Deilan stendur aðeins um það, hvor aðferðin sé heillavænlegri fyrir þjóðina.

Hv. þm. sagði, að ég vildi halda í gamlar venjur. Ég skal ekki mótmæla þessu. Ég er fastheldinn á góðar venjur og vil, að þær séu virtar og þjóðinni þannig forðað frá því að komast út á glapstigu. En ég er ekki íheldinn á þessu sviði. Ég hafði vanizt tvöfaldri bókfærslu við ýmsar stofnanir, sem ég var við riðinn, áður en ég fór að gefa mig að stjórnmálum. Hitt kemur þessu máli minna við, hvað gert var í stjórnartíð minni. Við vorum ekki vanir að básúna það, sem við gerðum, í blöðum og á mannfundum, eins og hæstv. núv. stj. hefir gert í svo ríkum mæli um sínar gerðir. Ég get þó sagt hv. þm. það, að í minni stjórnartíð var byrjað á að endurbæta ríkisbókhaldið. Og við byrjuðum á réttum grundvelli, með því að byggja það upp neðanfrá. Það var fyrst og fremst í héruðunum, hjá bæjarfógetum og sýslumönnum, að bókfærslan var orðin úrelt. Þessu tókum við að kippa í lag og koma á fullkomnu bókfærslukerfi hjá þessum embættismönnurn. Við vildum því prófa hina nýju tilhögun verklega áður en hún væri fyrirskipuð með reglugerð, og kusum að byrja hjá bæjarfógetanum í Hafnarfirði. Hann var búinn að nota þetta bókfærslukerfi með bókum, sem við lögðum honum til, að því ég held í eitt ár, þegar framsóknarstj. tók við völdtum. Má af þessu sjá, hvernig afstaða okkar var til þessara mála. Ég hefi oft síðan, mér til mikillar ánægju, séð þess getið í blöðum hæstv. stj., að bókhald bæjarfógetans í Hafnarfirði hafi verið fyrirmynd. Hitt finnst mér blátt áfram barnalegt, að stj. skuli vera að básúna það í ræðu og riti, ef hún gerir eitthvað, sem má teljast gagnlegt. Hæstv. stj. hefir án efa orðið vör við það, sem gert var í Hafnarfirði í þessu efni. og svo sennilega haft fyrirmynd sína þaðan.

Hv. 2. þm. Eyf. er ekki enn farinn að átta sig á muninum á íslenzkum og dönskum fjárl., þar sem hann heldur, að það séu ekki annað en smáatriði, sem skilja tilhögun þeirra og færslu. Ég get, get frætt hann á því, að langstærsta breyt., sem gerð hefir verið á fjárl. Dana, var sú. er Bramsnæs ráðh. gerði og var í því fólgin, að vaxtagreiðslur og fyrningar voru færðar inn á rekstrarreikning einstakra stofnana. Hér er aðalbreyt. sú, að fyrningar eru bókaðar á sjóðsyfirliti. Það er ekki gert í dönskum fjárl. Þá er einnig öllum vöxtum sleppt í ísl. fjárl., og sýna því kaflar þessara fjárl. alls ekki rekstrarreikninga einstakra stofnana. Er auðsætt, hve mikilsvert atriði þetta er, þar sem fyrningar eru ekki ákveðnar nema 1–2% , en vextinir eru 5–6%. Ég tel mig því hafa fullan rétt til þess að bera á móti því, að þetta fjárlagafrv. sé sniðið eftir dönskum fjárl.

Ég hafði gaman af því, þegar hv. frsm. meiri hl. fór að tala um rekstrarafganginn. Hann sagði, að þessi tala, 800 þús. kr., sýndi, að við hefðum þetta fé afgangs til þess að greiða með afborganir af skuldum. Þetta sýnir bezt, að jafnvel þm. getur förlazt í þessu efni. Til þess að finna hinn raunverulega rekstrarafgang samkv. fjárlagafrv. verður fyrst að draga fyrningarnar, 354 þús., frá afborgunum lána, 921 þús. Þá koma út 567 þús. kr. Þennan mismun verður svo að draga frá rekstrarafganginum, 831 þús., og kemur þá út hinn raunverulegi rekstrarafgangur, sem er 264 þús. Það er ósköp klúðursleg bókfærsla, að þurfa að draga þannig tvisvar sinnum frá til þess að fá tölu, sem er svo þýðingarmikil, að hún ætti fremur flestum öðrum tölum að standa í fjárlagafrv. Ég er viss um, að það er ekki auðvelt fyrir alla að átta sig á því, hvað raunverulega er afgangs af þessum rekstrarafgangi, en það er vitanlega alveg sjálfsagt, að reikningsfærslan sé látin sýna það skýrt og greinilega.