19.08.1931
Neðri deild: 33. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 840 í B-deild Alþingistíðinda. (576)

12. mál, ríkisbókhald og endurskoðun

Halldór Stefánsson:

Mér skilst, að hér hafi orðið umr., sem snerta afgreiðslu mála í fjhn., út af því að þetta mál hefir verið tekið á dagskrá án þess að n. hafi skilað um það áliti. Það er ekki spánnýtt, að mál séu tekin á dagskrá, sem fjhn. hefir haft til athugunar, án þess að n. hafi unnizt tími til að skila áliti. Menn munu minnast þess, að hæstv. forseti hefir tekið á dagskrá frv. um jöfnunarsjóð án þess að nál. væri skilað, og nú er eins ástatt með tvö mál á dagskránni í dag. Viðvíkjandi frv. um einkasölu á tóbaki er það að segja, að hæstv. forseti spurði mig að því, hvort ég hefði nokkuð á móti því, að málið yrði tekið fyrir, og sagðist ég fyrir mitt leyti ekkert hafa við það að athuga, þar sem málið væri svo þaulkunnugt í þinginu, en hinsvegar myndi n. skila áliti mjög bráðlega. Um hið síðara, frv. um ríkisbókhald og endurskoðun, er það að segja, að n. hefir ekki tekið það neitt til athugunar. Það var afgr. til n. fyrir tveim dögum, og því er ekki að undra, þótt ekki hafi unnizt tími til að athuga það. Ég var sömuleiðis spurður að því í gær, hvort n. hefði afgreitt málið, en ég sagði, að svo væri ekki, en að ég fyrir mitt leyti hefði ekkert á móti, að það væri tekið á dagskrá, af því að fjhn. í fyrra hefði afgr. málið nákvæmlega eins og það liggur fyrir nú. Frekara hefi ég ekki ástæðu til að taka fram þessum málum viðkomandi.