22.08.1931
Neðri deild: 36. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 849 í B-deild Alþingistíðinda. (587)

12. mál, ríkisbókhald og endurskoðun

Magnús Guðmundsson:

Ég get ekki verið allskostar ánægður með svör hæstv. fjmrh. við aths. mínum. Þó fannst mér hann í rauninni ekki telja ólíklegt, að á næsta þingi þyrfti að breyta þessum l. Það er einmitt það, sem ég spáði, og ég er sannfærður um, að eigi að fara að lifa eftir þessum lögum, þá verður að breyta orðalaginu á þeim, og mér finnst lítil ástæða til að setja lög, sem vitanlegt er, að strax þarf að breyta. Annars er það ekki rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að mínar aths. hefðu ekki snert aðalatriði málsins. Þvert á móti, þær gerðu það mjög, því að þegar setja á heildarlöggjöf um bókhald ríkisins, má ekki sleppa öðrum aðalhlutaðeiganda bókhaldsins, sem er ríkisféhirðir. Það er auðvitað satt, að hann hefir erindisbréf, sem hefir verið sett af umboðsstj., en það hefði á nákvæmlega sama hátt mátt setja erindisbréf fyrir bókarann. Þetta sýnir, að þessi l. eru ekki nauðsynleg og hægt að gera það, sem frv. fer fram á, af framkvæmdavaldinu. En eigi að fara að setja l. um þetta, þá er meiningarlaust að sleppa úr þeim öllu því, er snertir bókhald ríkisféhirðis, því að á hans athöfnum byggist ríkisreikningurinn að mjög miklu leyti. Hann greiðir allt út, eins og kunnugt er, og frá honum koma fyrstu heimildirnar. Svo skiptir bókhaldarinn því niður á hina ýmsu liði.

Þá nefndi ég kostnaðarhlið þessa máls. Ég er sannfærður um, að þetta fyrirkomulag verður miklu kostnaðarsamara en það, sem nú er. Þetta er í mínum augum ekkert aðalatriði, því að ég er auðvitað meðmæltur góðri bókfærslu En þegar á að fara að setja l. eins og þessi, þá á að leita til kunnugra manna og fara að þeirra ráðum. Sá maður, er býr til svona frv., þarf að hafa þekkingu á fleiru en bókfærsluatriðunum einum. Ég verð að segja, að ég lít svo á, að núv. ríkisbókhaldi — jafnvel eftir hina nýju breyt. — sé í ýmsu áfátt, og ég held, að ekki liði á löngu áður en þörf sé á að breyta því enn til talsverðra muna.

Hæstv. ráðh. sagðist vilja skilja 4. gr. þannig, að miða ætti ríkisreikninginn við áramót, og að þetta ákvæði sýndi aðeins, að reikningsárið væri almanaksárið. Það er nú afskammtað reikningsár með fjárl., svo að á því getur enginn vafi leikið, en þegar svo stendur í upphafi 4. gr., að bækur ríkisbókara skuli þannig færðar, að samkv. þeim verði saminn í lok reikningsársins ríkisreikningur Íslands, þá virðist það eiga að sýna, að það eigi að gerast strax í reikningsárslok. Og þó getur það ekki verið meiningin, því að það er ómögulegt. Sýnir þetta m. a., hve illa þetta frv. er undirbúið. Það er ekki hægt að heimta það, að reikningurinn sé til fyrr en í fyrsta lagi í lok maímán. Mætti helzt ekki setja markið fyrr en á að gizka 1. sept.

En það, sem ég hafði sérstaklega út á að setja, var hið frámunalega klaufalega orðalag 8. sbr. 13. gr., þar sem komizt er svo að orði, að yfirskoðunarmenn Alþ. skuli gæta þess, að engin útgjöld séu innt af hendi án lagaheimildar. Eftir alm. málvenju getur þetta ekki þýtt annað en að það eigi að athuga fyrirfram, hvort þessar greiðslur styðjist við lagaheimildir, og er þetta öfugt orðalag við 39. gr. stjskr. Þar stendur, að yfirskoðunarmenn eigi að endurskoða reikninga um tekjur og gjöld ríkissjóðs, hvort tekjur séu þar allar taldar og hvort nokkuð hafi verið greitt úr ríkissjóði án heimildar. En ef fara á eftir orðalagi þessarar gr. frv., getur það ekki öðruvísi skilizt en að yfirskoðunarmenn Alþ. eigi fyrirfram að athuga um greiðslur, hvort þær styðjist við l. Ég veit vel, að það getur ekki komið til mála að framkvæma þetta á þann hátt, sem orðin segja til. Það væri sama sem að gera yfirskoðunarmennina að yfirráðherrum. En því þá að mæla svo fyrir í l., að svona skuli þessu hagað? Hvers vegna á að segja við yfirskoðunarmennina, að þeir eigi að sjá um, að engin útgjöld skuli innt af hendi án lagaheimildar fyrst sá er ekki tilgangurinn? Það er eflaust svo, að það er sama þótt bent sé á svona vitleysur, þá verður frv. látið ganga fram engu að síður. En ég vil bara ekki láta líta svo út, að ég hafi ekki tekið eftir annari eins lokleysu og þetta er.

Þá er önnur kórvilla, sem ég talaði um, en hæstv. ráðh. minntist ekki á, og hún er sú, að yfirskoðunarmönnum er heimilað að fela fjmrn. þann hl.yfirskoðunarstarfsins, sem um ræðir í 1. tölul. og niðurlagi 3. tölul. 8. gr. þessa frv. Þessi gr. sýnir það alveg bert, að það er rauði þráðurinn í frv., að það séu yfirskoðunarmennirnir, sem eigi að annast endurskoðun landsreikninganna, bæði tölul. og allra annara, en geti falið fjmrn. að framkvæma nokkuð af því starfi. Til hvers er þá allur þessi her af endurskoðendum í stjórnarráðinu, ef þetta á allt að vera á valdi yfirskoðunarmanna landsreikninganna? — Annað eins og þetta nær ekki nokkurri átt.

Svo er það auðvitað óviðkunnanlegt, sem stendur í 13. gr., að yfirskoðunarmenn geti lagt fyrir fjmrn. að rannsaka nánar hvert það atriði, sem þeim sýnist. Ég hefi alltaf skoðað starf yfirskoðunarmannanna þannig, að þeir geti beðið um upplýsingar, en að þeir geti lagt fyrir stj. að gera þetta eða hitt, það hefir mér aldrei dottið í hug. En hver einstakur þeirra getur heimtað þær upplýsingar, sem hann vill. Það er réttur, sem er tryggður í 39. gr. stjskr. Eftir þessu frv. getur yfirskoðunarmaður LR. heimtað allt, sem honum sýnist, hversu ósanngjarnt sem það er. Yfirleitt er frv. byggt á algerðum misskilningi á starfsskiptingu milli framkvæmdavaldsins og yfirskoðunarmanna Alþ.

Mér þótti vænt um það, sem hæstv. ráðh. sagði um ákvæði um stundarsakir, því að ef fara hefði átt eftir því, sem gr. segir til, þ. e. a. s. eins og unnt er, þá hefði þurft að semja tvo landsreikninga fyrir árið 1930. Það er auðvitað unnt að búa til tvo reikninga. Það hlýtur hæstv. ráðh. að viðurkenna. En ég læt mér nægja yfirlýsingu hans um það, að það verði svipað form á reikningnum eins og á fjárl. fyrir árið 1930. Og skal ég þá ekki gera þetta að neinu ágreiningsatriði. En einmitt þetta, að það sýnir sig, þegar á að fara að búa til reikninginn, að ekki er hægt að fara að eins og frv. gerir ráð fyrir, það sýnir bezt, að sá, sem bjó til frv., hefir ekki verið eins heima í þessu eins og þurfti til þess að geta búið til frv. um þetta efni. Það er auðvitað ekki meining mín að halda því fram, að orðum frv. verði fylgt í framkvæmdinni; þessi lög verða að mestu dauður bókstafur, en það er leiðinlegt að setja ný l., sem að sumu leyti eftir orðalagi sínu ríða í bága við stjórnarskrána eins og ákvæði 8. sbr. 13. gr. gerir, og sumpart byggist á misskilningi á starfsskiptingu yfirskoðunarmanna og framkvæmdavaldsins.