14.08.1931
Efri deild: 29. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 874 í B-deild Alþingistíðinda. (743)

86. mál, embættiskostnaður sóknarpresta og aukaverk

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Þetta frv. fer fram á það, að tekið verði upp í lög að greiða sóknarprestum skrifstofu- og embættiskostnað, mismunandi háan eftir erfiðleika prestakallanna. Það hefir ekki áður verið venja að greiða þessum embættismönnum skrifstofukostnað, og ég lít svo á, að frekar beri að líta á þetta sem launaviðbót en sem greiðslu á embættiskostnaði. Af þeirri ástæðu er það, að ég tel rétt að játa þetta mál ganga fram, því að viðurkennt er, að laun þessara manna eru óhæfilega lág. Hinsvegar skal ég kannast við það, að þetta form á launahækkuninni er í sjálfu sér ekki sem viðfelldnast, þar sem skrifstofu- og embættiskostnaður presta er ekki þess eðlis, að rétt sé að veita sérstakt skrifstofufé til hans. En það kemur berlega fram í grg. frv., að einmitt það sama og ég gat um hefir vakað fyrir fjhn. Nd., sem flutti frv. N. gerir ráð fyrir, að þegar launalögin verði endurskoðuð, þá verði þessi lög annaðhvort numin úr gildi eða tekið tillit til þeirra við ákvörðun launa þessara embættismanna.

Í 2. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að ráðuneytið leggi sóknarprestum löggiltar embættisbækur og eyðublöð undir embættisskýrslur. Mér finnst þetta í rauninni eðlilegt og sjálfsagt, en þar sem prestum er ákveðinn sérstakur skrifstofukostnaður, þá mætti taka af því fé til greiðslu á þessum bókum og eyðublöðum. En einmitt þar sem ég lít svo á, að hér sé fremur að ræða um launauppbót en reglulegan skrifstofukostnað, þá tel ég rétt, að þessi ákvörðun verði látin standa í frv., og ég tel, að svo ætti að verða framvegis, þótt launakjörin breyttust eitthvað til hins betra.

Í n. var enginn ágreiningur um ákvæði 1. gr., en eins og sjá má af nál., og sérstaklega af brtt., þá telur einn nm. ekki ástæðu til þess, að þessi ákvæði 2. gr. standi, heldur verði gr. felld niður og verði látið sitja við fyrirmæli 1. gr. En þótt 2. gr. verði felld úr frv., þá er mikil réttarbót fólgin í 1. gr., og mér finnst fremur smávægilegt fyrir hið opinbera að vera að skorast undan því að leggja þessum mönnum embættisbækur, sérstaklega ef litið er á uppbót þá, sem 1. gr. heimilar þeim, fremur sem launauppbót en skrifstofukostnað.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða meir um frv. N. leggur einróma til, að það verði samþ., en ég geri ráð fyrir, að flm. till. á þskj. 278 skýri hana betur.