14.08.1931
Efri deild: 29. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 878 í B-deild Alþingistíðinda. (746)

86. mál, embættiskostnaður sóknarpresta og aukaverk

Magnús Torfason:

Það er ekki rétt hjá hv. 3. landsk., að sýslumenn fái bækur sínar yfirleitt frá stjórnarráðinu. Við höfum þvert á móti orðið að kaupa þær yfirleitt. Það er aðeins ein tegund bóka, sem hefir verið send okkur, og það eru bækur til reikningshalds skv. þessu nýja kerfi. Hvernig stendur á þessari undantekningu, skal ég ekki segja, en þetta nýja kerfi hefir aukið stórum erfiði sýslumanna frá því, sem áður var, og býst ég við, að þetta sé einskonar þokkabót fyrir það. Á hverju þingi er bætt störfum á sýslumenn án þess að þeir fái annað fyrir það en aukin útgjöld.

Hinn eiginlegi skrifstofukostnaður presta er ekki nema fáir tugir kr. á ári. En lágmarksupphæðin, sem þeir fá skv. 1. gr., er 500 kr., svo það verður að skoða þetta hreina launaviðbót til þeirra. Við skulum hugsa okkur prest, sem hefir eina kirkju og 100–200 sóknabörn. Sá prestur þarf engan ferðakostnað nema til verka, sem hann fær sérstaka borgun fyrir. En við sýslumenn fáum enga borgun fyrir aukaverk okkar. Því meir, sem við höfum að gera, því meiri útgjöld höfum við. Þetta er því sýnilega bein launahækkun.

Eins og ég sagði áðan, eiga bækurnar að vera í sama formi og eyðublöðin. Það verður nú almennara og almennara, að það opinbera sendi eyðublöð og vottorð undir skýrslur, svo að þær verði eins hjá öllum. En mér finnst þetta svo lítilfjörlegt atriði, að ekki taki því að fara að gera sérstaka breyt. á launalögunum vegna þessa. Það er auðvitað gamall málsháttur, sem segir, að seint fyllist sálin prestanna, og hygg ég, að líkt megi um þetta segja.