03.08.1931
Neðri deild: 19. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 893 í B-deild Alþingistíðinda. (763)

45. mál, útflutningur á nýjum fisk

Haraldur Guðmundsson [óyfirl.]:

Ég er ánægður yfir því, hvað þetta frv. fær betri viðtökur nú en í vetur. Ég vil þó minnast á nokkur atriði, og þá fyrst og fremst vildi ég spyrja hæstv. forsrh. að því, hvort þessi heimild mundi verða notuð, ef frv. yrði samþ. Ég beindi þessari fyrirspurn til hans við 1. umr., og hann svaraði því þá, að þegar n. hefði gert sínar brtt. við frv., þá mundi hann taka afstöðu til málsins, sem væntanlega yrði í samræmi við meiri hl. n.

Hv. frsm. segir, að ég hafi fundið að því, að n. vildi binda sig við það, að skipin yrðu minnst 3. Þetta er misskilningur hjá hv. frsm. Ég er þessu einmitt sammála, að réttast sé að leigja skipin, þar sem n. gerir ráð fyrir eins og frv., að lögin skuli endurskoða fljótlega.

Hitt þykir mér undarlegt, að n. skuli breyta frv. þannig, að þessi styrkur skuli látinn í té félögum sjómanna gersamlega án tillits til þess, hvort þeir eru í samvinnufélögum eða ekki, en í frv. var það skilyrði fyrir þessari aðstoð, að það væri um samvinnufélagsskap að ræða hjá sjómönnum og bátaútvegsmönnum. Ég veit, að frv. frsm. er það a. m. k. ljóst, hver munur er á þessu. En um samvinnufélög er að ræða, sem njóta þessa stuðnings, þá er þar með tryggt, að sá félagsskapur sé opinn fyrir alla þá menn, sem stunda fiskiveiðar á því svæði, sem þessi félagsskapur nær yfir, því að hér er ekki eingöngu um útgerðarmenn að ræða, heldur einnig þá, sem eru ráðnir upp á hlut, en eftir till. n. eru það einhverjir fiskimenn og einhverjir útgerðarmenn, sem gera með sér einhverskonar félagsskap til að flytja út fisk, sem eiga að hafa jafnan rétt og samvinnufélög. Mig furðar á því, að jafnþaulvanur samvinnumaður og hv. frsm. skuli vilja breyta þessu atriði í frv. mínu. Ef þær eðlilegu afleiðingar af þessu eru raktar, þá er ekki annars að vænta en að útgerðarmenn kaupi fiskinn af þeim, sem eru ráðnir upp á hlut, í von um að hafa hagnað af, eða þá að einhverjir fiskkaupmenn kaupi hann til að geta notað ríkisfé til að koma honum á markaðinn. Þær hömlur, sem voru í þessu atriði mínu frv., eru teknar burt með þessari brtt., svo að þessi ráðstöfun er ekki eingöngu fiskimönnum til handa, heldur það sem kallað er á finu máli stuðningur við atvinnuveginn, hjálp til að koma vörunni í gott verð án þess að hugsa um, hvort fiskimennirnir verða þess aðnjótandi eða einhverjir, sem vilja græða á fiskinum. Mig furðar á því, að hv. frsm. skuli ekki hafa gert sér grein fyrir þessu. Þetta er það, sem í sjálfu sér er meginefnið í till. hv. sjútvn. Ég álít, að ef Alþingi veitir stuðning til þessa atvinnurekstrar, þá sé sjálfsagt að ganga svo frá, að sá stuðningur komi þeim að gagni, sem hans eiga að njóta, en það eru þeir, sem veiða fiskinn og hafa þar af sína afkomu.

Viðvíkjandi lánveitingum til kaupa á nýjum veiðarfærum vil ég segja það, að mér þótti leitt, að n. skyldi ekki geta fallizt á þá till., sem um það er í frv., því að eins og ég benti á í fyrri ræðu minni, þá veita Englendingar sjómönnum kost á slíkum veiðarfærum til kaups upp á hlut í aflanum. Ef ekki er hægt að veita mönnum hjálp til að kaupa dragnætur eða önnur þau veiðarfæri, sem þeir þurfa nauðsynlega með, þá er hætt við, að þeir verði að leita til Englendinga og kaupa veiðarfærin af þeim, sem þeir verða síðar að borga með l5–20% af aflanum.

Áhættan er lítil fyrir ríkissjóðinn, að veita þetta lán, þar sem hægt er að taka veð í afla til greiðslu á þeim. Yfirleitt hafa bankarnir lánað bátum til veiðarfærakaupa, og þau lán þá tryggð með veði í afla, mjög oft óveiddum, og þá miðað við saltfisk. Hér er því ekki um það að ræða, að geta veðsett aflann, sízt ef hann er áður að veði fyrir flutningsgjaldinu. Það er því ekki hægt eftir reglum bankans að fá lán út á það, þar sem slíkt veð er ekki fyrir hendi.

Ég vildi því leyfa mér að beina þeim tilmælum til hv. n. fyrir 3. umr. þessa máls, hvort hún sæi ekki ástæðu til að taka upp í frv. af nýju ákvæði, sem tryggi það, að allir þeir, sem atvinnu hafa af veiðum, geti orðið þessa stuðnings aðnjótandi.