03.08.1931
Neðri deild: 19. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 897 í B-deild Alþingistíðinda. (767)

45. mál, útflutningur á nýjum fisk

Jóhann Jósefsson:

Ég verð að segja, að mig undrar það stórlega, hve mikla áherzlu hv. flm. og hæstv. forsrh. leggja á það, að binda þennan félagsskap við einhvern fastákveðinn ramma. Ég veit ekki til, að svo mikil reynsla sé fyrir hendi um nokkurn fastákveðinn ramma í þessum efnum, að ástæða sé til að gera veður út af því, þótt hv. sjútvn. hafi á þessu stigi málsins haldið þeim möguleika opnum að leyfa stuðning til félagsskapar um útflutning; þótt ekki væri hann með samvinnusniði. Þetta kemur til af því, að ég legg áherzlu á allt annað en það, í hvaða ramma þessi félagsskapur er. Ég legg alla áherzluna á það, að hér er um að ræða nýja leið til að koma afurðum landsmanna í verð. Hitt er mér algert aukaatriði, hvað sá félagsskapur heitir, sem sjómenn og útgerðarmenn koma á með sér. Og meginatriðin verður maður að meta meira en aukaatriðin. Ég álít það alveg skakkt að vera mjög þröngsýnn í þessum efnum og hafa ákveðinn ramma, þannig að þeir, sem af einhverjum ástæðum gætu ekki verið innan hans, væru útilokaðir.

Ef þetta kemur til að því, að þeir séu hræddir um, að sjómenn verði útilokaðir frá því að eiga þátt í félagsskapnum, þá er það alger misskilningur, því að félagsskapur í þessum efnum yrði að samanstanda af hvorumtveggja, bátaeigendum og sjómönnum. Því að öll meðferð þess fiskjar, sem á að seljast á ísmarkaði, verður að vera öll önnur frá byrjun en á öðrum fiski. Og það er því nauðsynlegt til þess að svona tilraun heppnist, að allir, sem við fiskinn fást, hafi þar hagsmuna að gæta.

Nauðsyn er á samvinnu allra, sem að fiskinum vinna, en á hinu er engin nauðsyn, að ákveða, eftir hvaða lögum sú samvinna sé. Þeir, sem eiga bátinn, verða að vera með, og ég býst við, að enginn hugsi sér framkvæmd í þessu efni, án þess að sjómennirnir séu líka með.

Ef um lögboðinn félagsskap er að ræða, þá eru ýmsir annmarkar á því, að sjómenn geti tekið þátt í honum, ef þeir eiga ekki heima á staðnum. Ég held það sé erfitt að knýja þá til þess. Þess vegna renna margar stoðir undir það, að láta það óbundið meðan skriður er að komast á málið, hvernig félagsskapnum er háttað, en halda sig fast við meginatriði málsins, að veittur sé stuðningur til að koma þessari vöru á markaðinn.

Sá, sem kynni að halda, að einhver í landi færi að kaupa fiskinn og ísa, eins og hv. flm. gat um, hann getur huggað sig við það, að það myndu fæstir álíta sér það fært, eftir því fyrirkomulagi, sem hér liggur fyrir. Áhættan er svo mikil, og ekki aðlaðandi að kaupa fiskinn blautan úr sjónum og hafa ekki tryggingu fyrir, að með hann hafi verið farið á þann hátt, sem nauðsynlegt er með fisk, sem á að ísa. (VJ: Það hefir verið gert á Ísafirði). Það getur ekki hafa verið gert í stórum stíl. Það hefir líka verið gert í Vestmannaeyjum í smáum stíl og ég tel með því engan skaða skeðan. Þótt slíkt hafi verið gert á Ísafirði og í Vestmannaeyjum, þá tel ég það ekki hafa verið neitt þjóðarböl, þótt hv. þm. Ísaf. líti þannig á.

Þessi lög eru til þess ætluð og allur andi þeirra er sá, að bæði útvegsmenn og sjómenn eigi hér hlut að máli og myndi félagsskap um það að koma fiskinum á markað. Það horfir allt öðruvísi við fyrir þá að hafa áhættuna, sem sjálfir afla, en aðra, sem kaupa fiskinn í landi. Þess vegna er það ekki nauðsynlegt að ákveða það, hvort félagsskapurinn er hlutafélag eða samvinnufélag, heldur aðeins, að þessir aðilar stæðu að félagsskapnum. Sé hv. þm. það ljóst, að hér er um að ræða þungamiðju málsins, þá vona ég, að þeir fari ekki að gera smávægileg formsatriði að ágreiningsefni.

Gagnvart þessu atriði og öðrum fyrirkomulagsatriðum er mér það fyllilega ljóst, að hér er um tilraun að ræða, og enginn skal vera fúsari til breytinga en ég, þegar reynslan hefir sýnt, að breyta þurfi og hvernig breyta skuli. En á þessu stigi málsins virðist mér rétt að hafa fyrirkomulagið svo frjálst, að allir geti sameinazt um að koma bátafiski á þann markað, sem heita má alveg lokaður eins og nú er ástatt.