28.07.1931
Neðri deild: 14. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í B-deild Alþingistíðinda. (77)

1. mál, fjárlög 1932

Frsm. (Hannes Jónsson) [óyfirl.]:

Það hefir komið fram hjá sumum hv. þdm., að óhætt sé að auka útgjöld ríkissjóðs vegna hinna háu tekna, sem orðið hafi á árunum 1929–30.

Ég gat um það í fyrstu ræðu minni, að tekjurnar hefðu á þessu ári reynzt nokkuð svipaðar og framan af árinu 1930. En af þessu er þó ekki hægt að draga þá ályktun, að það, sem eftir er ársins, muni gefa jafnháar tekjur og seinni hluti ársins 1930. Og enn síður má draga af þessu þá ályktun, að tekjur ársins 1932 muni verða svipaðar sem tekjur undanfarinna ára. Það er því óhyggilegt af þinginu að taka tekjur áranna 1929–30 til fyrirmyndar, þegar ákveðin eru útgjöld ársins 1932. Því að ef það er rétt, sem alþjóð virðist trúa, að nú séu örðugir tímar fram undan, þá hljóta tekjur ríkisins að fara minnkandi eftir því sem meira herðir að. Það má sem dæmi benda á svo stóra tekjuliði sem verð- og vörutoll. Eftir því sem meira þrengir að, hljóta þessir tekjustofnar að lækka til muna. Hið sama er að segja um tekju- og eignarskatt, þeir munu minnka gífurlega við aukna kreppu. Eftir því sem atvinnuleysi eykst í landinu og kaupgeta almennings minnkar, þá hlýtur innflutningur stórum að minnka, og mest minnkar innflutningur þeirra vörutegunda, sem mest hafa gefið í ríkissjóð. Það er þetta, sem hv. dm. verða að hafa hugfast, þegar þeir nú ákveða útgjaldaliði fjárlaganna. Hinsvegar er það rétt hjá hv. 2. þm. Reykv. og hv. þm. Vestm. o. fl., sem um þetta hafa fjallað, að nauðsyn er til þess, að einhverjar ráðstafanir séu gerðar til þess að bæta úr og koma í veg fyrir atvinnubrest. En það er bara spursmálið, hvort þetta er gert á réttan hátt með þeirri brtt., sem fyrir liggur. Ég held, að það verði ekki komizt hjá því, að saman verði að fara styrkur frá ríkissjóði og hlutaðeigandi bæjar- eða sveitarfélögum, en hér er ekki gert ráð fyrir styrk frá öðrum en ríkinu.

Í till. jafnaðarmanna var þó tilætlunin sú, að hlutaðeigandi héruð legðu fram sinn hluta, og það virðist ekki nema sjálfsagt, að þau taki á sig töluverðan þunga í þessu augnamiði.

Út af því, sem hv. 2. þm. Reykv. tók fram, að þetta væri í samræmi við hans skoðun, að þingið ætti að ákveða, til hvers fénu væri varið, þá vil ég vekja athygli á því, að undanfarið hefir stjórnin hlotið þyngstu ásakanirnar fyrir þær umframgreiðslur, sem hún hefir innt af hendi, en ekki hitt, til hvers þeim hefir verið varið. Úr því að svo er, þá skil ég ekki, hvers vegna ætti nú að fara að setja slík ákvæði inn í lögin, þar sem það er vitanlega, að nú er það bæði vilji þings og þjóðar, að fé verði veitt til atvinnubóta, en hvar framkvæmdirnar verði unnar, skiptir minna máli. Þá ber einnig að gæta þess, að með slíkri fjárveitingu sem þessari hlyti að koma fram ósamræmi milli hinna einstöku framkvæmda í hinum ýmsu héruðum, því að með þessari brtt. er tilætlunin sú, að þau héruð, sem nú verða framkvæmdanna aðnjótandi, leggi ekkert að mörkum til þeirra, en áður hefir það beint verið skilyrði fyrir ríkissjóðsstyrk, að þau tækju á sig sína byrði.

Ég vil ennfremur benda á það, að ef líkindi eru til, að hér í Reykjavík verði mikill atvinnubrestur, þá eru einnig allar líkur á því, að hið sama verði uppi á teningnum í ýmsum héruðum og kauptúnum á landinu, því að einmitt hingað hefir fjöldi manns sótt atvinnu sína á togara eða mótorbáta. Þar sem svo sú yrði raunin á, að nauðsynlegt reyndist að afstýra atvinnuleysi, þá er það auðsætt, að hin ýmsu héruð myndu fús til að leggja nokkurt fé fram í því augnamiði, og þá myndu framkvæmdirnar verða mun meiri en ef ríkið á eitt að sjá mönnum fyrir atvinnu.

Þessum orðum mínum til sönnunar skal ég geta þess, að eftir till. jafnaðarmanna ætti að verja 900 þús. kr. til framkvæmda, en hér ekki nema 500 þús. kr. Þess vegna undrar það mig, að hv. Alþýðuflokksmenn skuli vera svo fúsir á að taka aftur sínar till.

Annars virtist mér hv. 2. þm. Reykv. helzt til bjartsýnn á hag ríkissjóðs. Færði hann fram m. a., að áætlaðar væru 380 þús. kr. í fyrningu og virtist reikna með því sem handbæru fé, en þeir peningar eru ekki handbærir og ekki er hægt að nota þá bæði til verklegra framkvæmda og þeirrar greiðslu.

Hv. þm. Vestm. var allharðorður í garð n. fyrir þá afgreiðslu, sem hún hefir veitt brtt. hv. þdm., en það liggur í hlutarins eðli, að þar sem ég hafði aðeins hálftíma starf hennar að bakhjarli, átti ég ekki auðvelt með að rökstyðja till. hennar viðvíkjandi einstökum brtt. og gefa eins góðar upplýsingar og skyldi. En ég hélt, að ég hefði tekið það nægilega skýrt fram, og að það myndi nægja, að nú er ástandið í landinu svo alvarlegt og útlitið þannig, að ekki er vogandi að tefla á tvær hættur með útgjöld ríkisins, og því verður að skera niður allar þær brtt., sem ganga í þá átt, jafnvel þótt finna megi eldri fjárlagagreiðslur til samanburðar eða ónauðsynlegri en þær, sem hér er farið fram á. Það getur ekki verið réttur mælikvarði á hvað nú eigi að gera, hvað menn hafa leyft sér áður, eða hvað stj. hefir látið miklar umframgreiðslur af hendi án samþykkis Alþingis, og því þykist ég ekki hafa beitt hann ósanngirni, þótt ég teldi brtt. hans góðar og þarfar, en enga ástæðu til að samþ. þær eins og sakir standa.

Hitt tel ég nauðsynlegt, að afgreiða till., sem gengur í þá átt að heimila ríkisstj. ákveðna fjárhæð, sem varið skal til atvinnubóta, en ég álít það ekki rétt að binda hendur hennar með ákveðnu skilyrði, sem sett yrði í fjárlögin og bönnuðu henni að verja fénu nema til einhvers ákveðins starfs. Ennfremur lít ég svo á, að nauðsynlegt skilyrði fyrir slíkum fjárveitingum sé það, að bæjar- og sveitarfélög greiði af hendi sitt framlag, ef nokkuð á að ávinnast til þess að bætt verði úr þeim hörmungum, sem leiða af atvinnuleysinu.

Í sambandi við þetta vil ég taka það fram, að jarðræktarstyrkurinn er ekkert annað en styrkur til atvinnubóta, en þar verður að koma fé á móti frá þeim, sem hans njóta, og því virðist sjálfsagt að láta eitt og hið sama gilda um sveitirnar og bæina.

Hv. 4. þm. Reykv. talaði í gær um form fjárlagafrv. og taldi það galla á því, að ekki væri hægt nema fyrir reikningsglögga menn að fá réttan samanburð á niðurstöðum útgjalda ríkisins miðað við eldra formið. Nú verð ég að segja, að ef það eitt ætti að standa fyrir endurbótum, þá myndi seint verða breytt um, þótt sitthvað væri að athuga við formið, og þá er mér einnig nær að halda það, að sú endurbót, sem gerð var árið 1924 hefði aldrei verið gerð, ef um það eitt hefði verið hugsað.

Það verður óhjákvæmilega að gera gangskör að því að gera formið ljóst og skipulegt, og því lengur sem reiðileysið er því seinna kemst þetta á réttan kjöl sökum aukinna erfiðleika við að kippa því í lag. Hitt skal ég fúslega viðurkenna, að það er ýmislegt í þessu nýja formi, sem er mjög gallað og þarf að leiðrétta. en allt slíkt stendur til bóta, og ekki er við því að búast, að öllu sé náð í einu. Hv. þm. minntist á, að það væri t. d. harla óviðkunnanlegt, að allar stofnanir ríkisins væru ekki í einni og sömu grein, án tillits til þess, hver afkoman væri, og lentu þær því ýmist tekju- eða gjaldamegin. Ég vil henda á, eins og hv. þm. Seyðf. mun hafa gert, að mér finnst réttast, að þær væru allar settar í 3. gr. En eins og ég hefi bent á, stendur þetta til bóta og verður efalaust breytt.

Um fyrninguna er það eitt að segja, að hún er ekki annað en bókfærslulegt atriði, sem á að sýna, hvað hinn raunverulegi kostnaður við ríkisbúskapinn er mikill. Þetta gera öll einstök fyrirtæki, og því virðist jafnsjálfsagt, að ríkið geri það til þess að rétt bókfærsluleg niðurstaða verði fengin.

Ég þykist nú hafa svarað öllum þeim aðfinnslum, sem hv. þdm. hafa komið fram með, en til þess að tefja ekki tímann lengur, ætla ég ekki að víkja að einstökum brtt., sem fram hafa verið bornar.