03.08.1931
Efri deild: 19. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 906 í B-deild Alþingistíðinda. (789)

168. mál, Útvegsbanki Íslands h/f á Ísafirði og Akureyri

Jón Þorláksson:

Ég er ekki eins viss um það og hv. frsm., að almenningur geri sér ljóst, hvað í frv. felst. Ég vildi leiða athygli að aðalefni frv. Ég hygg, að í þessu frv. felist það, að útibúin á Ísafirði og Akureyri verði lögð niður, þó að það sé ekki beinlínis sagt í frv. né fylgiskjölum þess. En ég geri mér í hugarlund, að þessi sé tilætlunin. Nú vil ég minna á, að þegar lagt var fram fé af ríkissjóði og einstökum mönnum til viðreisnar Íslandsbanka, þá voru margir á viðskiptasvæðum útibúanna; sem lögðu fram helming af innstæðum sínum í Útvegsbankann og hafa fengið hluti þar. Ég tel varhugavert gagnvart þessum mönnum, að verið sé að gera ákvarðanir, undirbúnings- og umræðulaust, sem leiða til þess, að útibúin leggist niður. En þeir hafa einmitt verið að leggja á sig byrðar til þess að tryggja, að útibúin haldi áfram. Þeir munu ekki hafa neinn lagalegan rétt í þessu máli, en ég geri þær kröfur til Alþ., að það sýni ekki ósanngirni. Ég veit, að það verður á einhvern hátt að ráða fram úr vandræðum Útvegsbankans, þar sem hann hefir lagaskyldu til að innleysa seðla meir en hann hefir getu til.

Ég vildi ekki setja mig á móti því, að frv. væri flutt, en ég tók það loforð af form. n., að n. tæki málið til nýrrar athugunar. Það er auðgert að benda á þá leið, að leysa Útvegsbankann undan skyldu sinni til að innleysa seðlana.