17.07.1931
Neðri deild: 3. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í B-deild Alþingistíðinda. (9)

1. mál, fjárlög 1932

Héðinn Valdimarsson:

Hv. þm. Seyðf. hefir þegar talað nægilega skýrt fyrir viðhorfi okkar Alþýðuflokksmanna til þessa máls, svo að ég hefi þar litlu við að bæta. Þó var það aðallega tvennt, sem ég vildi minnast lítið eitt á.

Hið fyrra er útsending þess rits, sem ég man nú að vísu ekki hvað heitir, en almennt hefir verið kallað „Verkin tala“. Sjálfur hefi ég ekki fengið rit þetta, en ég hefi séð bílana flytja það á pósthúsið, og víða hefi ég séð það í sveitum, en hvergi í kaupstöðum.

Á hvers kostnað er rit þetta sent út og með hvaða heimild? Og hvers vegna fá sumir það, en aðrir ekki, og eiga þingmenn ekki að verða svo hátt settir, að þeir fái bókina?

Annað atriðið, sem ég vildi víkja að, er það, að engin fjárlagaræða er haldin, því að vanalega getur hún haft sína þýðingu.

Hvað veldur því, að hæstv. fjmrh. gefur ekki Alþingi nú, þegar svona sérstaklega stendur á, yfirlit yfir þá fyrstu sex mánuði ársins, sem liðnir eru. Ég skil ekki, hvernig á þessu stendur, en ég vil krefjast þess, að hæstv. fjmrh. komi með þetta yfirlit hið bráðasta, þingmönnum til glöggvunar.