31.07.1931
Efri deild: 17. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 930 í B-deild Alþingistíðinda. (922)

25. mál, lendingarbætur á Eyrarbakka

Jakob Möller:

Að því leyti féllst ég á að mæla með þessu frv. ekki með sem beztri samvizku, að engar áætlanir liggja fyrir um kostnað við verk þetta, nema um þennan garð, sem ætlaður er til að varna, að sandur berist inn á höfnina á Eyrarbakka, og telst mönnum svo til, að hann muni kosta 72 þús. kr. Sú áætlun var gerð af vitamálastjóra, og átti ég tal við hann um málið, en hann sagði, að rétt myndi vera að gera þessa tilraun, án þess að vitað væri, að hve miklum notum garður þessi myndi koma. Hinsvegar er svo fyrir mælt, að þetta komi því aðeins til framkvæmda, að fé verði veitt til þess í fjárl., svo að þá má vænta, að betri upplýsingar verði fengnar þegar á næsta þingi, en þá er aðeins búið að veita þessar 20 þús. kr. til bráðabirgða. Hvað viðvíkur upphæðinni, þá get ég tekið undir það með hv. þm. Snæf., að réttast væri að ákveða hana, en ástæðan til þess, að n. vildi mæla með þessu frv. eins og það er, var sú, að hv. 2. þm. Árn. taldi, að það myndi létta frekari undirbúning fyrir þá aðila, sem hlut eiga að máli, og setja skrið á málið heima fyrir, og við vildum ekki spilla því, þar sem þingið er í raun og veru óbundið um fjárframlög framvegis.