29.07.1931
Neðri deild: 15. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 3 í D-deild Alþingistíðinda. (932)

93. mál, starfrækslutími landssímans í kaupstöðum

Steingrímur Steinþórsson:

Ég veitti þessari till. ekki athygli fyrr en ég sá dagskrána. Nú er það ekki ætlan mín að mæla gegn henni, en ég vildi aðeins benda á, að það eru fleiri en þeir, sem við stóru stöðvarnar búa, sem finna til óþæginda við ýmislegt í starfrækslu símans. Það er t. d. býsna bagalegt fyrir okkur, sem eigum við 3. fl. stöðvarnar að búa, að þær eru aldrei inni á opinberum skrifstofutíma, heldur á undan og eftir. Þó að viðskipti séu að vísu minni í sveitum, þá getur það þó einatt verið býsna erfitt að geta ekki náð í stjórnarráð, banka að aðrar slíkar stofnanir.

Ef ég hefði vitað um þessa till., þá hefði ég reynt að komast að samkomulagi við hv. flm. um það, að tíma 3. fl. stöðvanna yrði einnig breytt, t. d. svo, að þær yrðu inni frá kl. 10–11 f. h. Það væri mikil bót. Hinsvegar veit ég, að núverandi fyrirkomulag er varið með því, að svo erfitt sé jafnan um alla afgreiðslu á langlínunum.

Við, sem búum við 3. fl. stöðvarnar, erum öll meira og minna útilokuð frá viðskiptum við aðalstöðvar landsins. Þetta vildi ég geta um, af því að ef ósk kæmi um það frá okkur að fá þessu breytt, þá vænti ég hjálpar hv. flm., á sama hátt sem ég mun greiða þessari till. atkvæði.