03.08.1931
Efri deild: 19. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 933 í B-deild Alþingistíðinda. (934)

25. mál, lendingarbætur á Eyrarbakka

Magnús Torfason:

Ég get strax lýst því yfir, að ég hefi ekkert á móti skriflegri brtt. frá hv. þm. Snæf. Hún gerir hvorki til né frá og getur ekki skaðað þetta mál. Að því, aftur á móti, er snertir till. hv. 2. landsk. á þskj. 163, um að fella niður ákvæðin um sjóveð, þá er ég ekki við búinn að greiða henni atkv. mitt. Þessi lög eru gerð samkv. l. um lendingarbætur í Þorlákshöfn frá 1929. Og þar er einmitt þessi sérstaka till. tekin upp í 8. gr.: „Gjöld þessi má taka lögtaki, og ganga þau fyrir sjóveðum“. Það þótti nauðsynlegt þá að setja þetta ákvæði í lögin. Og það frv. fékk rækilegan undirbúning í nokkurskonar mþn. Að því er þessi mál snertir, þá reyndist þetta ákvæði mjög vel í Þorlákshöfn og engin óánægja með það þar. Og í staðinn fyrir að ríkissjóður legði fram 80 þús. kr., eins og heimilað var. lagði ríkissjóður fram 8000 kr., og allur kostnaður varð 16 þús. kr. Og það eru allir mjög ánægðir með þetta, og höfnin er nú komin í svo gott horf, að hún mun duga þorpinu lengi um ókominn tíma.

Nú, ég býst við, að kostnaðurinn við þessa höfn verði mun meiri en í Þorlákshöfn, þó ég vænti, að hér hafi verið svo ríflega til tekið, að það muni duga. því ég hygg, að hann nái aldrei 80 þús. króna. En bryggju, sem er þarna á staðnum, leggur lendingarsjóður til; hún var gerð fyrir 5 árum og kostaði 40 þús. kr. Henni var komið upp á þann hátt, að fengið var til hennar lán úr Fiskveiðasjóði. Fyrir utan styrk og lán lögðu útgerðarmenn og hásetar fram 13000 kr., og nú eru þeir búnir að borga niður helminginn af því fé.

Mér virðist því ekki ástæða til að taka þetta út úr þessum lögum nú, þar sem svo sérstaklega stendur á. Og hinsvegar er ég ekki óhræddur um, ef ákvæðið verður tekið út úr frv., að þá verði sýslunni gert erfiðara að fá lán til fyrirtækisins, því þó hv. d. líti væntanlega svo á, að sýslunefndinni sé trúandi fyrir peningum, þá mun sýslusjóðnum þó verða verra til að fá lán til sinna fyrirtækja, ef ekki er allt gert, sem hægt er til að tryggja þau. Því eins og vitanlegt er, þó að ábyrgð ríkissjóðs sé fyrir láninu, þá er þó fyrir okkur við bankana að eiga um lánið, og það hefir oft reynzt erfitt.

Yfirleitt er það um þetta mál að segja, að þetta er sjálfshjálp fyrir Eyrbekkinga, sem þeir svo að segja leggja sig í líma fyrir, og er því ekki vert að rýra þeirra hlut að neinu leyti.

Ég veit vel, að þetta sjóveðsákvæði hefir verið þyrnir í augum jafnaðarmanna, og skal ég ekki fara út í þær sakir nú. En þó að það sé stefna þeirra, þarf það ekki að koma þessu máli við; það gegnir allt öðru máli hér en með botnvörpuútgerðina og stærri útgerð.

En að því er þetta mál snertir er óhætt að segja, að það var ekki af neinni vangá, að þetta ákvæði var sett í frv. 1929. Það risu háar kröfur þá frá jafnaðarmönnum, að breyta öðrum lögum í þá átt, sem nú er farið fram á, því að með þeim væri verið að rýra sjóveðið fyrir sjómönnunum. Svo ég get ekki hugsað mér, að þar sem var jafnglöggur maður og hv. 3. þm. Reykv. þáv., að það hefði gengið fram hjá honum. Við vorum þá saman í nefndinni, og varð þetta ekki að neinu ágreiningsefni.