17.08.1931
Neðri deild: 31. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 940 í B-deild Alþingistíðinda. (949)

25. mál, lendingarbætur á Eyrarbakka

Einar Arnórsson:

Ég vildi aðeins gera fyrirspurn til hv. n. út af ákvæðum 3. gr. frv. Það segir svo:

„Eigendur Skúmsstaða og Einarshafnar leggi fram, endurgjaldslaust, nauðsynlegt land til lendingarbótanna, uppsáturs, íveru- og fiskhúsa, allt að 20 þús. fermetrum, svo og land undir brautir og vegi, er nauðsynlegir kunna að þykja, ennfremur grjót, möl og önnur jarðefni. og þoli bótalaust þær eignakvaðir, óhagræði eða takmörkun á afnotarétti, sem lendingarbæturnar hafa í för með sér“.

Ég vildi spyrjast fyrir um það, hvort eigendur þessara jarða hafa lofað að láta þessi verðmæti af höndum bótalaust, og jafnframt að þola endurgjaldslaust þær kvaðir, sem þarna er talað um.