17.08.1931
Neðri deild: 31. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 944 í B-deild Alþingistíðinda. (952)

25. mál, lendingarbætur á Eyrarbakka

Frsm. (Guðbrandur Ísberg):

Hv. 1. þm. Árn. taldi, að um óverulega breyt. væri að ræða, er n. vill breyta l. gr. frv. Get ég verið honum sammála um, að breyting þessi er ekki stórvægileg, en hún gengur í þá átt að tryggja málið betur, með því að gert ráð fyrir ýtarlegri og fyllri rannsóknum á lendingarbótasvæðinu. Gæti slík rannsókn jafnvel leitt í ljós, að ekki þætti að öllu leyti heppilegt að byggja garðinn, heldur fyndist önnur hagkvæmari lausn á málinu, og verkinu yrði hagað á annan hátt en gert er ráð fyrir í frv. — Þegar talað er um lendingarbætur í frv., þá er ekki ljóst, við hvað er átt, því að ekki getur landgarðurinn kallazt því nafni.

Um „ákvæði um stundarsakir“ er það að segja, að þar er gert ráð fyrir fjárveitingu til verksins utan fjárlaga. Í þeirri áætlun, sem lá fyrir vetrarþinginu, er gert ráð fyrir, að garðurinn muni kosta 72 þús. kr., Í „ákvæði um stundarsakir“ er gert ráð fyrir 20 þús. kr. fjárveitingu utan fjárlaga til byrjunar á garðinum. Þessar 20 þús. kr. eru ekki nema rúmur fjórði hluti af byggingarkostnaði garðsins. Virðist n. því varhugavert að fara að byrja á verkinu áður en full vissa er fengin fyrir því, að verkinu verði haldið áfram. Gæti það orðið til þess að kasta fénu á glæ.

Þá þótti n., að málið væri ekki svo vel undirbúið, að ekki mætti bíða þess, að fé yrði veitt til verksins í fjárl., og skyldi málið rannsakað betur þangað til, svo að því yrði komið á fastan grundvöll áður en veitt yrði til þess fé úr ríkissjóði.

Um það, hvort n. taki brtt. sínar aftur til 3. umr., skal ég ekkert ákveða, en vísa þar til hv. form. sjútvn.