17.08.1931
Neðri deild: 31. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 945 í B-deild Alþingistíðinda. (953)

25. mál, lendingarbætur á Eyrarbakka

Einar Arnórsson:

Eftir því, sem mér skildist á orðum hv. 1. þm. Árn., hafa ekki ennþá verið gerðir beinir samningar við landeigendur þá, sem hér eiga hlut að máli. Ég skal játa það, að mér þykir eðlilegt, að þeir leggi nokkurt fé af mörkum í þessu skyni, en hinsvegar finnst mér mjög óviðkunnanlegt, að það skuli standa svo í frv., að landeigendur skuli leggja fram land og annað endurgjaldslaust. Ef þeir gera það ekki fúslega að láta af hendi land og þola kvaðir á landi sínu, þá er ekki hægt að þvinga þá til að gera það. Með því væri 65. gr. stjskr. brotin. Í sjálfu sér kemur gr. að fullum notum, þó að orðin „endurgjaldslaust“ og „bótalaust“ féllu niður. Eigendur myndu jafnt láta landið af hendi fyrir það. En verði orðin látin standa áfram í frv., þá yrði það til þess, að 3. gr. yrði nefnd sem ágætt dæmi um brot gegn 63. gr. stjskr.