17.08.1931
Neðri deild: 31. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 949 í B-deild Alþingistíðinda. (960)

25. mál, lendingarbætur á Eyrarbakka

Jörundur Brynjólfsson:

Aths. skal vera stutt. Viðvíkjandi því, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði um ákvæði vegalaganna, þá hefir nú 24. gr. verið skilin svo, að það væri algerlega neitað um jarðrask á ræktuðu landi, en sandur og möl hafa verið tekin bótalaust og það hefir verið rökstutt með ákvæðum 24. gr. Og það hefir jafnvel verið gengið svo langt, að náma af steypuefni hefir verið uppurin bótalaust. Það var því ekki alveg ástæðulaust, að ég minntist á þau lög, þó ég á engan hátt vilji mæla þessu bót.

Ég vil þá víkja að því, sem hv. frsm. sagði. Nú talaði hann ákveðnara og sagði, að n. væri ekki beinlínis á móti málinu, en það þyrfti fullkomnari rannsóknar við, og hv. frsm. gerði lítið úr því, að ráðh. sá, sem yfir þetta væri settur, myndi vera dómbær um, hvað þyrfti til verksins og hvaða undirbúning þyrfti að gera. Ég ætla, að n. hefði þurft að ganga betur frá till., ef hún ber ekki traust til þeirra, sem hér eiga hlut að máli. Það er hinn mesti misskilningur, að sett séu ákvæði í l. um það, hvort alls sé gætt við undirbúning málsins. Það er vitanlega komið undir þekkingu og skilningi þeirra, sem um málið fjalla. Hvað viðvíkur því, að það séu ekki glögg skilyrði um það í frv., að sýslun. Árn. fjalli um þetta, þá vil ég benda á það, að sýslun. á að hafa eftirlit með þessu. Og það má nærri geta, hvort sýslun. fer að leggja tugi þús. án þess að málið sé rækilega rannsakað og vel undirbúið.

Annars skal ég benda hv. frsm. á það, að það hefir farið fram ýtarleg rannsókn og nákvæmar hafnarmælingar verið gerðar. Þetta þekkir hv. þm. ekki. Ég get sagt honum frá því, að sá maður vann lengi að þessu, sem hafði meiri þekkingu á því en aðrir. Vitaskuld er ekki hægt að fara eftir henni, því sú hafnargerð, sem hann rannsakaði fyrst, var miðuð við stór skip. Og nú hefir sá maður, sem mest hefir fengizt við þetta upp á síðkastið, gert ýtarlega rannsókn á þessu svæði.