17.08.1931
Neðri deild: 31. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 950 í B-deild Alþingistíðinda. (961)

25. mál, lendingarbætur á Eyrarbakka

Frsm. (Guðbrandur Ísberg):

Hv. 1. þm. Árn. segir, að það hafi verið gerð nákvæm áætlun um hafnargerð á Eyrarbakka. Þetta má vel vera, en mér er a. m. k. ekki kunnugt um það, og í þskj. hefir það ekki komið fram. Í sambandi við lendingarbæturnar hefir aðeins verið getið um einn bryggjustúf á Eyrarbakka, að bílar geti gengið fram á hana, og að geymsluhús séu fyrir ofan bryggjuna, og að í höfninni séu sker, sem þurfi að sprengja. Þetta gefur ekki ástæðu til að halda, að fyrir liggi nákvæmar mælingar um lendingarbætur á svæðinu. Það er síður en svo.