03.08.1931
Neðri deild: 19. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 951 í B-deild Alþingistíðinda. (975)

120. mál, fiskimat

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Ég geri það auðvitað fúslega að tala fyrir hönd n. fáein orð í þessu máli, sem hæstv. forseti hefir ákveðið, að taka skuli fyrir nú þegar. Ég hefði nú kosið, að fylgt hefði verið réttri röð, en það dugar víst ekki að deila um það við dómarann. Og af því að þetta er nauðsynjamál, þá þykir mér rétt að lýsa með nokkrum orðum aðdraganda þess, að þeta frv. er borið fram nú.

Á Alþingi 1929 fluttu þeir hv. 2. þm. G.-K. og hv. þm. Borgf. þáltill. um það, að ríkisstj. skipaði nefnd til þess að endurskoða lög um fiskimat. Nefndin var svo skipuð með bréfi 23. sept. 1929, og áttu sæti í henni Jón Magnússon fiskiyfirmatsmaður hér í Reykjavík, Ólafur Thors forstjóri, Jón Ólafsson bankastj. og Kristján Bergsson forseti Fiskifélagsins. Þeir hafa skilað nál. og uppkasti að frv. til 1. um fiskimat ásamt erindisbréfum fiskimatsmanna, sem ætlazt er til, að verði útgefin á ný samkv. hinni nýju löggjöf.

Þetta frv. n. hefir síðan fengið athugun fiskimatsmanna landsins á fundi, sem þeir héldu í Reykjavík í síðastl. mánuði ásamt fiskifulltrúa Íslands á Spáni og Ítalíu, hr. Helga Guðmundssyni, og komu ýmsar brtt. fram á þeim fundi. Sjútvn. Nd. hefir síðan fengið öll þessi plögg til athugunar, og það frv., sem hér er borið fram, er í meginatriðunum shlj. frv. mþn. Sjútvn. hefir að vísu gert smábreyt. ýmist af eigin hvötum eða samkv. till. fiskimatsmanna og fiskifulltrúa. Ég skal og geta þess, að n. hefir komið sér saman um að flytja brtt. um eitt atriði við 3. umr., og það er viðvíkjandi því, hverjir skuli vera ráðunautar fiskiyfirmatsmanna og fiskifulltrúa í þeim málum, sem þeir ræða sín á milli, ef ekki næst samþykki milli matsmanna og fulltrúa. Þeir eru þannig ákveðnir í frv. eins og það er nú, og forseti Fiskifélagsins og einn maður frá báðum sjútvn. Alþ., sem kosinn sé til eins árs í senn, skulu vera þar í ráðum með atvmrn., en samkv. till. mþn. er svo til ætlazt, að einn maður úr stjórn Félags ísl. botnvörpuskipaeigenda eigi líka sæti þar, og geri ég ráð fyrir, að n. breyti þessu í svipað horf til 3. umr.

Í frv. mþn. var ekkert ákveðið um launakjör fiskimatsmanna, en þau eru eins og kunnugt er mikið fremur lág, meira að segja svo lág, að Alþingi hefir nú í mörg ár ekki séð annað fært en að veita þeim nokkra launauppbót í fjárlögum. Með þessu frv., ef það verður að lögum, eru miklu ríkari ákvæði um ýmis störf yfirfiskimatsmanna en í núverandi löggjöf og ýtarlega að orði kveðið um skyldur þeirra. Ennfremur er með þessu frv. farið fram á það, að ef um misfellur er að ræða í starfi yfirfiskimatsmanna, sem álitið er, að stafi af vítaverðri vangá eða vanrækslu, þá skuli yfirfiskimatsmaðurinn bera ábyrgð á hví tjóni, sem þar af kann að leiða.

Ég hefi aðeins drepið á þessi atriði, til að sýna, að eftir þessu frv. eiga yfirfiskimatsmenn að hafa miklu meiri skyldur og ábyrgð en þeir hafa nú. Þetta er gert í fullri vitund þess, að landsmönnum er það hin mesta nauðsyn að vanda sem mest gæði saltfiskjarins. Íslandi er það hin mesta þörf að halda alstaðar því góða áliti, sem er á íslenzkum saltfiski.

Nú er, eins og ég gat um áðan, svo ástatt, að laun fiskimatsmannanna eru mjög lág, samanborið við launakjör ýmissa annara starfsmanna hjá ríkinu, sem eru á sínu sviði þarfir starfsmenn; en þó má segja, að yfirfiskimatsmaðurinn hafi svo ábyrgðarmikið starf á hendi og þarft fyrir þjóðfélagið, að ef um samanburð væri að ræða í þessu efni, þá mundi yfirfiskimatsmaðurinn verða á meðal hinna allra þörfustu starfsmanna. Það var álit allra sjútvnm., að þar sem á nú að leggja þeim meiri skyldur á herðar en áður hefir verið og auk þess þá áhættu að verða dæmdir til þess að greiða skaðabætur eða verða vikið úr embætti. ef um vanrækslu væri að ræða, þá hlyti það óhjákvæmilega að verða þessu samferða, að launakjör þeirra yrðu bætt. Þess vegna hefir n. ákveðið að koma fram við 2. umr. með breyt. á launakjörum yfirfiskimatsmanna, þannig lagaða, að ekki þyrfti framvegis að láta standa í fjárlögum ákvæði um sérstaka launauppbót, eins og hingað til hefir verið.

Ég skal svo ekki orðlengja þetta meira. Eins og frv. ber með sér, þá er það borið fram af sjútvn. samkv. tilmælum ráðuneytisins, og þar sem það hefir verið til athugunar í sjútvn., þá sé ég ekki ástæðu til, að það fari til n. aftur.