24.02.1932
Efri deild: 10. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1346 í B-deild Alþingistíðinda. (1005)

41. mál, ríkisábyrgð á innstæðufé Útvegsbanka Íslands

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Hv. síðasti ræðumaður hefir misskilið mig, ef hann heldur, að ég telji ráðstafanir þær, sem þingið gerði 1921, hafa verið undirrót að vandræðum bankans síðan. Ég sagði, að það væri sá atburður, sem síðan hefði ráðið aðgerðum þingsins, þegar vandræði hafa borið að höndum. Valdið yfir stjórn bankans hefir skuldbundið bæði þing og stjórn upp frá því. Og ég veit, að hv. þm. er mér sammála um, að svo sé. A. m. k. hefir hann látið það í ljós í blaðagrein, sem hann hefir ritað ekki alls fyrir löngu.