18.04.1932
Neðri deild: 54. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 369 í B-deild Alþingistíðinda. (101)

1. mál, fjárlög 1933

Lárus Helgason:

á þskj. 418, XII á ég eina brtt. við fjárl., þess efnis, að styrkurinn til Skaftfellings verði færður í sama horf og hann hefir verið undanfarin ár. Í frv. stj. var styrkurinn lækkaður um 4000 kr. frá því, sem hann er í núgildandi fjárlögum, en eins og reikningar þessa báts bezt sýna, er óumflýjanlegt að færa styrkinn í það sama, sem hann er nú — 24000 kr. — það er ekkert óeðlilegt, þó að rekstur þessa báts útheimti mikinn styrk frá ríkinu, ef gætt er að þeim erfiðleikum, sem við er að búa — hafnleysið, heldur kemur þetta alveg heim við þá reynslu, sem fengizt hefir um strandferðirnar kringum landið. Þannig hefir tekjuhallinn orðið 400 þús. kr. af þessum 2 strandferðaskipum, sem ríkið starfrækti s. l. ár. — Þessi bátur, sem hér er um að ræða, hefir mörg ár haldið uppi ferðum á stórum kafla af strönd landsins, þar sem hafnleysið er mest, og er ætlað að fullnægja þörfum þeirra manna í þessu efni, sem á þessu hafnleysissvæði búa, og er þegar af þeim ástæðum erfiðara um að lækka styrkinn til þessa báts en til bátanna í hinum ýmsu héruðum öðrum, sem jafnframt njóta góðs af ferðum hinna stærri strandferðaskipa. Hinsvegar kemur auðvitað ekki til mála, að sú leið verði hér farin að synja öllum þeim, sem á þessum slóðum búa, um að nota strandferðaskipin að meira eða minna leyti, ef þessa báts missir við, eins og allt bendir til að verði, ef styrkurinn verður ekki hækkaður, og slíkt mundi verða ríkissjóði miklum mun dýrara heldur en styrkja bátinn, svo að hann geti haldið uppi nauðsynlegum ferðum á umræddu svæði, auk þess sem strandferðum á þessa staði verður ekki haldið uppi, nema til þeirra séu hafðir hentugir bátar, sem geta beðið eftir tækifærunum, þegar sjórinn er dauður. Undanfarið hefir verið vaxandi rekstrarhalli á þessum bát, ar frá ári, og ef styrkurinn til hans verður nú lækkaður, er ekki gott í efni, og vona ég því, að hv. þdm. sjái sér fært, að samþykkja þessa brtt. mína. Báturinn hefir verið til hjálpar undanfarin ár að meira og minna leyti á svæðinu frá Eyrarbakka allt austur í Öræfi, svo að ég vænti þess, að hv. þdm. sé það ljóst, hve hér er um mikla sanngirniskröfu að ræða. Styrkurinn má ekki vera minni en hann hefir verið undanfarið, og þyrfti miklu fremur að hækka. Hlutafé þessa félags, sem heldur bátnum á floti, er um 40 þús. kr., og aðrar skuldir um 30 þús. kr. Þó að 4000 kr. séu reyndar ekki mikil upphæð, miðað við þær þarfir, sem hér er um að ræða, þá breytir það ástandinu mikið niður á við, ef upphæðinni yrði kippt burtu. Ég vænti þess því, að hv. d. taki þessari sanngjörnu till. minni vel, og vil aðeins að lokum minna þm. á það jafnframt að hafa það í huga við atkvgr. um till., að hér er um þá ódýrustu lausn að ræða á þessum málum, sem hægt er að fá.