01.03.1932
Neðri deild: 17. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1347 í B-deild Alþingistíðinda. (1014)

50. mál, leyfi til loftferða

Frsm. (Sveinn Ólafsson):

Ég mun ekki hafa langan formála fyrir þessu frv. á þskj. 50, en bíða heldur átekta um undirtektir hv. þdm. og aths. þeirra, sem fram kunna að koma við frv. Efni þessa frv. mun vera öllum þingheimi löngu kunnugt og samgmn. veit ekki annað en að það sé fram komið í fullu samræmi við vilja mikils meiri hl. þm. Ég þykist því mega vænta góðra undirtekta og samþykkis hv. þd. á frv.

Telja má, að með frv. þessu, ef að lögum verður og til framkvæmda kemur, sé stigið stórt og örlagaríkt spor á menningarbraut þjóðar vorrar, en það er ekki á færi nokkurs manns að sjá fyrir afleiðingar þess í hverju einstöku atriði þegar stundir líða. Með þessum fyrirhuguðu flugsamgöngum við aðrar heimsálfur er íslenzka þjóðin að sjálfsögðu fremur en nokkru sinni áður dregin inn í hvirfingu menningarstrauma nútímans, og óneitanlegt er, að henni verður erfiðara en áður að varðveita og geyma hinn forna menningararf óbreyttan. Það má segja, að eins og nú er komið, þá sé bæði lögur og loft orðið langskipum fært og lendingarstaðir þeirra á hverju landshorni. Þær eðlilegu talmanir, sem áður greindu ísl. þjóðina frá umheiminum, eru nú yfirstignar og erlendu áhrifin eiga hingað opna leið. Vissulega má líka ætla, að um leið og þjóðin kemst þannig í stöðugt — jafnvel daglegt — samband við umheiminn, þá séu henni sköpuð margvísleg skilyrði til menningar og framfara.

Flugfélagið vestræna, Transamerican Airlines Corporation, sem hér leitar leyfis um loftferðir, lendingarstaði og aðrar framkvæmdir félagsins vegna, er að sjálfsögðu öllum hv. þdm. kunnugt að nokkru af erindum þess til þings og stjórnar, sem og af blaðagreinum. Félagið er ekki aðeins fésterkt og auðugt að reynslu um flug vestan hafs, heldur hefir það einnig á síðustu árum látið rannsaka mjög vendilega hina norrænu flugleið um Grænland og Ísland, sem nú er talin af sérfræðingum félagsins og mörgum öðrum miklu öruggari og jafnvel styttri en leiðin um Atlantshaf og Azoreyjar.

Frá sjónarmiði Íslendinga hljóta það einnig að vera mikilsverð meðmæli með erindi félagsins, að tveir af þekktustu og bezt metnu löndum vorum vestan hafs eru riðnir við framkvæmdir félagsins, en það eru þeir Guðmundur Grímsson frá Rugby í Norður-Dakota, fulltrúi félagsins, sem hér er nú staddur til þess að semja við þing og stjórn um nauðsynlegustu réttindi til handa flugfélaginu hér á landi, og dr. Vilhjálmur Stefánsson, hinn þekkti heimskautafari og rannsóknafrömuður, sem er ráðunautur og leiðbeinandi félagsins um þessar fyrirhuguðu flugferðir á norðurvegum. Það er vitað og víst, að báðir hafa þessir landar vorir gengið í þjónustu félagsins með það fyrir augum, meðal annars, að geta orðið ættarlandi sínu að liði og stutt að hagsæld þess með þekkingu sinni, ráði og dáð. Enginn efast um, að þeim gangi gott til og þann drengilega metnað þeirra er skylt að meta.

Ég þykist ekki þurfa að draga fram margar eða frekari ástæður fyrir því, að sinna beri þessu erindi flugfélagsins. Það hefir undanfarið legið í loftinu, að þessi leið um Grænland og Ísland mundi valin til flugferða milli Ameríku og Evrópu, og hygg ég, að margir menn hér á landi hafi látið sig dreyma um það árum saman.

Ég skal geta þess um afskipti samgmn. af þessu frv., að þó að hún hafi lagt talsverða vinnu í undirbúning þess, þá geta verið missmíði á því, sem ættu að geta fengið lagfæringu á milli umr. Vil ég óska, að þeir hv. þdm., sem skyggnir eru á þessa hluti, leggi það til málanna, sem að liði má verða og leiðbeininga; vænti ég, að flestum verði ljúft að styrkja þessar fyrirætlanir á einhvern veg. Við frekari athugun og eftir að prentun frv. var lokið, hefir samgmn. ákveðið að bera fram til 2. umr. nokkrar minni háttar breyt. við frv., sem að mestu lúta þó að ákveðnara og skýrara orðalagi.

Ég fer ekki að þessu sinni út í einstakar gr. frv., og ætla t. d. ekki að ræða um þá undanþágu, sem félaginu er tilskilin frá álögum og skattgreiðslum, eða það, sem í móti á að koma frá þess hálfu. Slík undantekningarakvæði áleit n. eðlileg meðan flugið væri á byrjunarstigi, og að gagnvart leyfishafa mundi hæfa að gera líkar ívilnanir fyrstu árin, sem upplýst er, að önnur ríki hafi veitt honum, þar sem flugsamband er ákveðið. Síðar kemur þá að því eins og frv. bendir til, að ríkið áskilur sér frekari hlutdeild í ágóða félagsins. Um þessi fyrirkomulagsatriði má ýmislegt segja, en n. vildi ekki fara öllu lengra en komið er, til þess að eiga það ekki á hættu, að þessi málaleitun félagsins yrði dregin til baka.

Það má vel vera, að einhverjir hv. þdm. komi með aths. og till. til breyt. á þessum ákvæðum frv., eða öðrum, en ég vænti þess, að þær verði allar af velvildarhug til málsins bornar fram og horfi því til bóta.