01.03.1932
Neðri deild: 17. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1350 í B-deild Alþingistíðinda. (1015)

50. mál, leyfi til loftferða

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég mun ekki fremur en hv. frsm. fara út í einstök atriði þessa frv., sem fyrir liggur. Mér er kunnugt um, að góðir lögfræðingar hafa um það fjallað, og þar á meðal skrifstofustjórinn í atvmrn. Ég býst við, að flestir taki með fögnuði þeim möguleika, að þetta volduga félag komi á reglubundnum flugferðum milli Norður- og Vesturálfu með viðkomustað á Íslandi. Enda yrðu það mikil hlunnindi fyrir íslendinga að fá að njóta þessara samgöngubóta, ef ferðirnar yrðu eins tíðar eins og áætlað er í frv.

Það er því full ástæða til að taka þessari málaleitun með glöðum hug, einkum ef gera má ráð fyrir, að hún komi til framkvæmda áður en langt líður.

Ég vil geta þess, að áður hafa oft legið fyrir Alþingi sérleyfisbeiðnir frá erlendum félögum til margvíslegra stærri framkvæmda hér á landi. Þá hefi ég jafnan talið mér skylt að vera tortrygginn gagnvart þeim og ekki að ástæðulausu. Nú er hér ekki um neinar slíkar stórframkvæmdir að ræða, sem geti haft skaðvæn áhrif á atvinnurekstur landsbúa. Hér er aðeins um það að ræða að fá stórum bættar samgöngur við umheiminn Vesturálfu og Norðurálfu — gegn því að félagið fái að hafa hér viðkomustað. Það, sem hefir gert mig tortrygginn áður gagnvart því að láta útlend félög og fyrirtæki fá hér aðstöðu til atvinnurekstrar, kemur hér alls ekki til greina í þessu máli.

Í annan stað vil ég minna á hið sama og hv. frsm. gerði, að tveir af mætustu samlöndum okkar vestanhafs eru öruggir stuðningsmenn þessa máls og hvetja okkur til góðra undirtekta, og vitanlegt er, að þeim gengur aðeins gott til þess. Þeir hafa fulla aðstöðu og dómgreind til þess að meta, hverskonar félagsskapur það er, sem þeir vinna fyrir, og það ætti að vera okkur full trygging fyrir því, að óhætt muni að eiga skipti við þá stofnun, sem þeir eru fulltrúar fyrir.

Eins og tekið er fram. í grg. frv., þá er það borið fram eftir samkomulagi við mig. Ég vil mæla hið bezta með, að þessi tilraun verði. gerð og að vel verði tekið hinni útréttu hönd. Trúi ég á þann möguleika, að stöðugar flugsamgöngur geti sem fyrst hafizt á milli Vesturálfu og Norðurálfu um Ísland.