01.03.1932
Neðri deild: 17. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1351 í B-deild Alþingistíðinda. (1016)

50. mál, leyfi til loftferða

Jónas Þorbergsson:

Það er aðeins örstutt fyrirspurn til hv. frsm. þessa frv. í sambandi við undirbúning málsins. Í 18. gr. sambandslaga Íslands og Danmerkur frá 1918 hafa Íslendingar lýst yfir ævarandi hlutleysi sínu gagnvart öðrum þjóðum. Ég hefi ekki komið auga á, að í frv. felist nægilegt öryggi fyrir því, að þetta sérleyfi, sem ætlazt er til að veitt verði samkv. frv., komi eigi í bág við hlutleysisyfirlýsingu sambandslaganna, ef til ófriðar kæmi milli Bandaríkjanna og Evrópuþjóða. Fyrirspurn mín er því sú, hvort, hv. samgmn: telur það nægilega tryggt í þessu frv., að væntanlegt sérleyfi til handa flugfélaginu gæti ekki orðið notað þannig í ófriði, að háskasamlegt gæti orðið fyrir hlutleysi landsins, eða hvort n. hefir í huga að setja skýrari ákvæði um þetta efni í frv.