16.03.1932
Efri deild: 30. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1361 í B-deild Alþingistíðinda. (1033)

50. mál, leyfi til loftferða

Pétur Magnússon:

Ég hefi leyft mér að flytja brtt á þskj. 191, við brtt. hv. samgmn. á þskj. 175, við frv. það, sem hér liggur fyrir.

Eins og frv. hefir komið til samgmn. d. er gert ráð fyrir því, að í leyfisbréfi atvmrh. sé fram tekið, að leyfishafa sé heimilt að öðlast eignarrétt eða notkunarrétt yfir landi undir lendingarstaði, hús, bryggjur, vegi og önnur mannvirki, er nauðsynleg kunna að vera vegna atvinnurekstrar hans“ Þessu vill. n. breyta á þann hátt, að til þess að öðlast eignar- eða notkunarrétt þurfi sérstakt leyfi atvmrh. í hvert skipti, sem fél. þarf á þessum réttindum að halda. Ég get ekki komið auga á þá hættu, sem af því væri búin, þótt þetta ákvæði fengi að standa óbreytt eins og það nú er í frv. Ég fæ með engu móti skilið, hver hætta getur verið því samfara, að fél. fái skilyrðislaust rétt til þess að eignast nauðsynleg lönd til atvinnurekstrar síns. Um annað er ekki að ræða. Það má að vísu hugsa sér, að verð hækkun yrði á þessum eignum, en eigandinn yrði vitanlega að greiða af henni skatt. Í því sambandi er því ekki um neina hættu að ræða. Mér finnst það því sérstaklega ástæðulaust, að notkunarréttur yfir andi sé bundinn sérstöku leyfi atvmrh. í hvert skipti. Þessi takmörkun, sem n. leggur til, að sett verði inn í frv., kemur í raun og veru, algerlega í bága við önnur efnisákvæði þess. Fyrst þessi réttindi eru lögð undir úrskurð atvmrh., má líka gera ráð fyrir þeim möguleika, að ráðh. neiti fél. um notkunarrétt, yfir fasteign, sem það telur sig þurfa á að halda. Sé ekki gert ráð fyrir þeim möguleika, er ákvæðið meiningarlaust. Ég er ekki að halda því fram, að líklegt sé, að þetta kæmi fyrir, en möguleiki er fyrir því. Það er engum efa undirorpið, að fél. þarf að hafa einhver landsnot hér, og þar sem 1. gr. frv. mælir svo fyrir, að atvmrh. skuli heimilt að veita Transamerican Alirlines Corporation leyfi til að halda uppi loftferðum á milli Íslands og annara landa, finnst mér koma ósamræmi þarna á milli, þegar setja á svo annað ákvæði, sem „teoretiskt“ gæti gert fél. ómögulegt að nota þennan rétt, sem því er gefinn í 1. gr. frv., og raunar fleiri gr. Slíkt væri að taka með annari hendinni það, sem gefið er með hinni. Ég tala hér alltaf um möguleika, en ekki hvað raunverulega yrði gert. Þótt ég álíti ástæðulítið að takmarka rétt fél. til að eignast hér lönd til atvinnurekstrar síns, vil ég samt sætta mig við það, en ég vil ekki undir neinum kringumstæðum, að verið sé að setja þessar takmarkanir um notkunarréttinn. Ég hefi því leyft mér að flytja þessa brtt., og er ég hv. frsm. n. þakklátur fyrir undirtektir hans viðvíkjandi henni.

Um aðrar brtt, n. ætla ég ekki að ræða. En ég verð að játa, að mér þykir ástæðulítið að stytta leyfistímann skv. 10 gr. Ég hefði getað skilið, að n. hefði haft einhverjar áhyggjur út af sérleyfistímanum, þótt þar sé vitanlega ekki um sérréttindi að ræða gagnvart öðrum en Bandaríkjaþegnum, þá útilokar ákvæðið þó alla vegna þessa mikla og volduga ríkis frá samskonar atvinnurekstri hér næstu 15 ár. En hver hætta fylgir því að leyfa þessu fél., svo framarlega sem það byrjar hér atvinnurekstur, að halda þessum rétti í 75 ár, skil ég ekki. Ég veit ekki, hvort þessi brtt. n. er nokkuð fráfælandi fyrir félagið. Þó býst ég við því, að það kysi heldur, að ákvæðið héldist óbreytt. Ég álít þetta svo mikilvægt mál, að við eigum ekki að óþörfu að leggja stein í götu þess. Þetta er þó minna atriði en hitt, um notkunarréttinn. Það er svo mikilsvert, að mér þykir ekki óhugsanlegt, að erlent fél., sem gera verður ráð fyrir öllu mögulegu í stjórnarfari lands vors, fælist fyrir þær sakir algerlega frá því að byrja hér atvinnurekstur, a. m. k. ef það leggur þann skilning í ákvæðið að landstj. geti upp á sitt eindæmi stöðvað atvinnurekstur þess. Það er því þýðingarmikið að fá þessu atriði breytt. Ég fyrir mitt leyti álít óskynsamlegt að stytta leyfistímann og mun greiða atkv. gegn því.

Um síðustu brtt. er það að segja, að mér þykir ekkert athugavert við að samþykkja hana, þótt ég hinsvegar telji hana óþarfa. Í frv. er vitanlega notað orðið „má“ í stað skal, af því að um heimildarlög er að ræða og því ekki fyrirfram unnt að segja með vissu, hvort leyfisbréfið nokkurntíma verður útgefið.