17.03.1932
Efri deild: 31. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1363 í B-deild Alþingistíðinda. (1035)

50. mál, leyfi til loftferða

Frsm. (Páll Hermannsson):

Við fyrri hluta þessarar umr. gerði hv. 4. landsk. nokkrar aths. við brtt. n. Hann gat þess um 1. brtt., að hann sæi enga hættu við það, als félagið hefði frjálsan aðgang að því að eignast land til afnota. En ég fyrir mitt leyti sé enga hættu í því fyrir félagið, þó að íslenzka stjórnin hafi hönd í bagga með því , hvaða land félagið fær til eignar. Hv. 4. landsk. taldi hugsanlegt, að félaginu yrði neitað um land, en það held ég, að sé ekki nema hugsaður möguleiki. Ég tel lítt hugsanlegt, að þjóðfélagið vilji meina félaginu að eignast nauðsynlegt land til afnota, ef það fer vel með störf sín hér, sem ekki er ásæða til að efast um fyrirfram. En það væri hugsanlegt, að félagið eignaðist lönd, sem bagalegt væri, að það ætti, ef ekki væri haft eftirlit með því. Það vakti sérstaklega fyrir n., að til öryggis væri rétt, að ríkisstj. hefði alltaf hönd í bagga með landakaupum félagsins, en jafnframt gekk hún út frá því, að félaginu yrði ekki neitað um nauðsynlegt land. Hv. 4. landsk. undraðist það einnig, að n. skuli fara fram á styttingu leyfistímans, en láta sérleyfistímann óátalinn. En svo stendur á því, að n. leit svo á, að 15 ára sérleyfi væri svo mikilsvarðandi fyrir félagið, að ekki mætti við því hrófla, en að öðru leyti áleit n., að ekki væri nú sjáanlegt, að 75 ára leyfistími væri félaginu svo nauðsynlegur, að það hefði nokkur áhrif, þó að styttur yrði. Fyrir n. vakti að sameina það tvennt, að bregða ekki fæti fyrir þessar merkilegu framkvæmdir, en gefa samt félaginu ekki meiri ívilnanir en þörf gerðist.

Þá benti hv. 4. landsk. á, að orðalag 11. gr. frv. væri eðlilegra óbreytt, af því að þetta væru heimildarlög. Þar segir svo: „Ákveða má í leyfinu“ o. s. frv. En t. d. í 3. gr. stendur: „Atvmrh. skal heimilt“ o. s. frv., — og eins er það í 5. og 6. gr. frv. Þar er líka notað orðið skal. Yfirleitt er komizt mjög ákveðið að orði, þegar talað er um réttindi leyfishafa, en þarna í 11, gr., þar sem ákvæði er um skyldur leyfishafa, er orðalagið vægara. N. sá enga ástæðu til þess að láta ekki sama orðalagið gilda, hvort sem talað er um réttindi eða skyldur leyfishafa, og því bar hún fram brtt. við orðalag 11. gr. Ég get þess, viðvíkjandi brtt. hv. 4. landsk., að ég tel, að það, sem vakti fyrir n., náist eins þó að hún verði samþykkt, nefnilega það, að alltaf verði haft gott eftirlit með landakaupum félagsins.

Ég get því í raun og veru gengið inn á brtt. hv. 4. landsk., þótt ég hinsvegar áliti hennar ekki þörf.