17.03.1932
Efri deild: 31. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1364 í B-deild Alþingistíðinda. (1036)

50. mál, leyfi til loftferða

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Því miður gat ég ekki hlustað á byrjun þessarar umr., og heyrði því ekki rök hv. frsm. n. fyrir brtt. n. En ég ætlaði einkum að gera aths. við 3. brtt. n., sem fer fram á að stytta leyfistímann úr þeim 75 árum, sem frv. fer fram á, niður í 50. Ég lít svo á, að það væri mjög æskilegt að koma þessum samgöngum á, og þar sem við mál þetta eru riðnir þeir menn meðal Vestur-Íslendinga, sem við höfum ástæðu til þess að bera einna mest traust til, fellur að mestu leyti í burt sú ástæða til tortryggni, sem við annars hurfum að hafa gagnvart erlendum atvinnufyrirtækjum, sem hér sækja um sérleyfi. En eftir upplýsingum, er ég hefi fengið, verð ég að álíta, að þessi stytting leyfistímans gæti orðið Þrándur í Götu félagsins. Ég vildi því mælast til þess við hv. n. að falla frá þessari brtt., og ef það getur ekki gengið, þá vil ég skjóta því til hv. d., hvort hún muni ekki sjá sér fært að halda þeim leyfistíma, sem upphaflega var ákveðinn, 75 árum.