17.03.1932
Efri deild: 31. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1365 í B-deild Alþingistíðinda. (1038)

50. mál, leyfi til loftferða

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Það er öðru nær en að ég ætli að fara að stofna til deilu við hv. þm. Snæf. út af þessu máli, og það þeim mun síður, þar sem ég er alveg sammála þeim almennu aths. hans um sérleyfis- og réttindabeiðnir erlendra fyrirtækja. En ef þessi beiðni ameríska flugfélagsins er borin saman við ýmsar beiðnir, sem borizt hafa Alþ. á undanförnum árum frá erlendum atvinnufyrirtækjum, þá sjáum við fljótt muninn. Og hann er fyrst og fremst sá, að við erum um það eitt beðnir, sem skiptir litlu máli fyrir okkur, en mikið í aðra hönd. Flest önnur félög, sem hafa farið fram á að hafa hér atvinnurekstur, hafa krafizt miklu meira og látið miklu minna í aðra hönd. Og auk þess ber ég fyllsta traust til þeirra manna, sem hér hafa komið fram af hendi stofnunarinnar. Ég er sem sagt alveg sammála hinum almennu aths. hv. þm. Snæf., en vil vegna hinnar sérstöku aðstöðu halda því fast fram, að leyfið verði veitt til 75 ára. Vitanlega þarf félagið mikið fé til að byrja þetta fyrirtæki, og ég tel víst, að öflun þessi gæti gengið ólíkt betur, ef það gæti sýnt fram á, að það hefði hér þá aðstöðu sem 75 ára leyfistími mundi veita því.