17.03.1932
Efri deild: 31. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1366 í B-deild Alþingistíðinda. (1040)

50. mál, leyfi til loftferða

Jón Baldvinsson:

Mér finnst eins og hæstv. atvmrh., að nokkru öðru máli sé að gegna um þessa leyfisbeiðni en ýmsar aðrar, sem fram hafa komið. Þótt sjálfsagt sé að gæta fullrar varúðar í þessum efnum, þá er líka til önnur hlið á þessum málum. Það er t. d. almennt viðurkennt, að eitt bann, sem sett hefir verið við atvinnurekstri erlendra manna hér á landi, sé ein aðalorsökin í því, að heill landsfjórðungur virðist nú helzt ætla alveg að leggjast í auðn. Og ég þykist þess fullvís, að a.m.k, hv. 2. þm. N.-M. viti, hvað ég er að fara. Það er fiskiveiðalöggjöfin frá 1921, sem er orsök í því, að atvinnurekstur á Austfjörðum liggur nú allur í kaldakoli og sveitum þar liggur við auðn. Þar var atvinna fólks í stórum stíl bundin við erlenda útgerð, og þegar tók fyrir hana, var engin íslenzk útgerð tilsvarandi öflug, og afleiðingin er vandræði heilla héraða. Ég álít, að sjálfsagt sé að tryggja vel hagsmuni okkar gagnvart slíkum félögum, en eins og þegar hefir verið tekið fram í umr., hefir þetta félag nokkra sérstöðu. Mannaráð hjá þessu félagi hér yrðu aðeins fáir sérfræðingar í flugmálum og nokkrir starfsmenn, svo ekki þarf að óttast nokkra samkeppni við íslenzkt verkafólk. Og allir munu sammála um það gagn, sem af þessum framkvæmdum mundi stafa; ég persónulega teldi það ómetanlegt gagn fyrir okkur, ef hugsjónir um daglegar flugferðir heimsálfanna á milli yfir Ísland kæmust í framkvæmd. Og ég sé engin varhugaverð atriði í frv., nema ef vera skyldi ákvæðið um það, að félagið geti haldið þessu leyfi í 4 ár án þess að byrja á nokkrum framkvæmdum. Ég mun því greiða frv. atkv. mitt, en um hinar einstöku brtt. mun atkv. mitt sýna afstöðuna.